Í algjöru „haltu mér slepptu mér“ sambandi

„Ég held hins vegar svolítið fast í þennan tíma sem …
„Ég held hins vegar svolítið fast í þennan tíma sem við áttum saman í byrjun og get staðfastlega sagt að hann er maður drauma minna, ef hann myndi bara slaka aðeins á og gefa okkur tíma í stað þess að vera upptekinn í vinnu, á barnum eða í tómstundum.“ Ljósmynd/Thinkstockphotos

Á Smartlandi starfa nokkrir ráðgjafar sem leitast við að gefa lesendum góð ráð. Eftirfarandi bréf barst á dögunum frá lesanda sem er óviss með ástarsambandið sitt. Kærastinn fór frá því að vera riddarinn á hvíta hestinum í það að vera fjarlægur og upptekinn af sínu. Einstaklings- og fjölskylduráðgjafinn Elínrós Líndal gefur ráð.

„Hæ hæ.

Mig langar að fá ráð hjá þér varðandi ástarsamband sem ég er í sem ég hef áhyggjur af. Ég kynntist kærastanum mínum fyrir fimm árum og fyrsta árið var allt í alsælu. Hann fékk ekki nóg af mér og ég var skvísan sem hann hafði alltaf dreymt um. Á þessum tíma ætlaði ég alls ekki á fast, fór mikið út og var bara að leika mér. En riddarinn á hvíta hestinum lét mig ekki vera og ég varð sannfærð um að hann væri málið. Í dag er sambandið vægast sagt lélegt. Hann er svo sannarlega ekki maðurinn sem ég hélt að hann væri. Ekki svo að skilja að hann sé leiðinlegur við mig. Hann er bara aldrei heima og hefur lítinn sem engan áhuga á mér. Ég held hins vegar svolítið fast í þennan tíma sem við áttum saman í byrjun og get staðfastlega sagt að hann er maður drauma minna, ef hann myndi bara slaka aðeins á og gefa okkur tíma í stað þess að vera upptekinn í vinnu, á barnum eða í tómstundum. Við erum í algjöru „haltu mér slepptu mér“ sambandi í dag. „“

Við höfum undanfarin ár hætt saman þrisvar sinnum. Á þeim tíma hef ég farið í gegnum djúpan dal en svo sætt mig við að við eigum greinilega ekki að vera saman. Í hvert skipti sem við hættum saman kemur hann til baka, lofar gulli og grænum skógum. Og þannig heldur hringurinn áfram. Hvað á ég að gera? Ég er orðin svo ótrúlega þreytt á því að vera í þessu sambandi þar sem ég er greinilega ekki nóg fyrir hann eins og ég er. Hins vegar finnst mér lífið svo grátt án hans og ég velti því fyrir mér hvort til séu leiðir til að lifa af í svona samskiptum. Hverjar eru þær þá?

Kær kveðja, Ráðalaus.

„Sæl mín kæra!

Eins og þú lýsir sambandinu þínu þá get ég ímyndað mér hversu miklum tíma þú ert að eyða í það. Þú lýsir samskiptum á milli tveggja mjög ólíkra einstaklinga og ef ég væri með ykkur í ráðgjöf myndi mig langa til að vita hvernig þið voruð alin upp. Áttir þú fjarlægan föður? Átti hann mömmu sem var hans besti félagi? Samböndin sem við erum í sem fullorðið fólk endurspegla nefnilega oft þau geðtengsl sem við áttum í æsku, en einnig þau tengsl sem við aldrei mynduðum.

Ef þú horfir á einn dag í einu og horfir hvorki til framtíðar né fortíðar, hvernig myndir þú lýsa manninum sem þú ert með? En þér?

Það sem mér þykir sársaukafyllst í svona mynstri er hvað báðir aðilar verða langt frá því að vera besta útgáfan af sér. Mér sýnist sem svo að áskorun ykkar beggja felist í að tengjast. Hans alveg pottþétt, en skoðaðu þinn hluta líka. Ef hann sér áskorunina í sambandinu eins og þú gerir þá eigið þið góðan séns.

Ef þig langar raunverulega að skoða þinn hluta í málinu er alltaf gaman að setjast niður og skoða: Er ég stjórnsöm við maka minn? Langar mig að breyta honum? Fyrir hvern?

Það er svo magnað þegar maður áttar sig á því að maður getur aldrei breytt öðrum. Maður á í hinu mesta basli við að breyta sér og afstöðu sinni til málanna.

Ég mæli af heilum hug með Al-anon fyrir þig (eða öðru meðvirkniprógrammi). Ef þú vilt prófa að halda áfram í sambandinu getur þú aftengt þig mörgu af því sem er óheilbrigt í sambandi ykkar og byrjað að tengjast þér betur. Skoðaðu hvaða tómarúm hann er eða á að vera fylla hjá þér. Prófaðu að sleppa honum bara alveg lausum í sambandinu og vertu með augun opin fyrir því hver hann er raunverulega. Veltu því svo fyrir þér hvort þetta sé maðurinn sem þig langar að vera með í framtíðinni.

Eins er gott að setjast niður með sjálfum sér og gera samning um hversu langt maður er tilbúinn að fara áfram með samband sem er óheilbrigt. Ertu til í einn annan hring með honum? Eða ertu til í að taka ábyrgð á þér og breyta til?

Ég get í það minnsta lofað þér að óheilbrigð munstur batna ekki af sjálfu sér og hver svo sem hann eða þú varst í byrjun sambandsins hefur ekkert með sambandið ykkar í dag að gera. Loforð eru frábær ef þeim er fylgt eftir strax. Þau eru í raun eins og lítil grátandi börn í leikhúsi, það þarf að bera þau út strax (framkvæma). En þau eru lítils virði hangandi yfir sambandi í mánuði eða ár.

Lærðu að setja mörk og elska þig. Þannig ferðu skrefi nær því að geta elskað annan einstakling á uppbyggilegan og heilbrigðan hátt.

Gangi þér vel!“

Lesendur eru hvattir til að senda spurningar á ráðgjafa Smartlands á netfangið smartland@mbl.is. Fyllsta trúnaði heitið.

Svona getur sýnin okkar verið þegar við erum blinduð af …
Svona getur sýnin okkar verið þegar við erum blinduð af ást. Prófaðu að sleppa maka þínum lausum og sjáðu hver hann raunverulega er. Ljósmynd/Thinkstockphotos
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál