Maðurinn haldið fram hjá frá upphafi

Konan segir að maðurinn hafi notað stefnumótaöpp til þess að …
Konan segir að maðurinn hafi notað stefnumótaöpp til þess að kynnast öðrum konum. Ljósmynd / Getty Images

Valdi­mar Þór Svavars­son, ráðgjafi hjá Fyrsta skref­inu, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér er spurning frá íslenskri konu sem á erfitt með að fyrirgefa sambýlismanni sínum þrátt fyrir fögur fyrirheit frá manninum. 

Sæll.

Ég komst nýverið að því að sambýlismaður minn og maki til tveggja ára hefur haldið fram hjá mér frá upphafi sambands okkar. Hann hefur verið virkur á stefnumótaöppum frá því að við kynntumst og hefur viðurkennt það. Hann hefur einnig viðurkennt að hafa hitt fjórar konur á sl. ári og að hafa stundað kynlíf með einni þeirra.

Hann lofar öllu fögru í dag, biðst innilega fyrirgefningar oft á dag og virðist vera tilbúinn til að gera hér um bil allt til að bjarga sambandi okkar. Ég á hins vegar erfitt með að komast yfir þetta. Mig langar að fyrirgefa honum en mér finnst ég ekki geta það nema vita fyrir víst hversu langt svikin gengu. Hversu margar þær eru í raun og veru og svo framvegis. Hann segist ekki geta skráð sig inn á fyrrnefnda miðla lengur, að aðganginum hafi verið eytt þegar ég komst að þessu. En ég er alveg með þetta á heilanum og get ekki hugsað um annað en að fá að sjá hvað gekk á. Eru það eðlileg viðbrögð hjá mér? Eða þarf ég bara að sætta mig við að fá aldrei að vita fyrir víst hvað gerðist, hvenær og hvar? Hann segir að það myndi eyðileggja mig að lesa þessi skilaboð og sjá hvað fór fram á milli hans og hinna kvennanna og því neitar hann að gera nokkuð í því að reyna að láta opna reikningana aftur.

Er hægt að komast í gegnum svik og særindi eins og þessi ef einhverjum spurningum er ósvarað?

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skref­inu.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skref­inu. mbl.is/Árni Sæberg

Góðan daginn og takk fyrir þessa spurningu.

Framhjáhöld eru algengt umræðuefni þegar kemur að samböndum og hægt að fullyrða að þau valda alltaf miklum sársauka og erfiðleikum. Þegar sambönd eru skoðuð ofan í kjölinn og hvaða atriði það eru sem mestu máli skipta til þess að þau séu innihaldsrík, þá er ljóst að framhjáhald reynir á alla grunnþætti sambandsins. Eitt af því allra mikilvægasta í góðu sambandi er að það ríki traust á milli aðila. Þegar maki velur að halda fram hjá verður traustið að engu. Fjölmargar hugsanir fara í gegnum hugann á þolandanum og ekkert óeðlilegt við það að þú eigir erfitt með að hætta að hugleiða hvað nákvæmlega hafi átt sér stað.

Til þess að hægt sé að byggja upp traust að nýju er mikilvægt að báðir aðilar séu algjörleg heiðarlegir í framhaldinu. Þú hefur rétt á að biðja um svör við þeim spurningum sem þú hefur, en að sama skapi hefur maki þinn rétt á að ákveða hvort hann vill svara þeim spurningum. Ef hann velur að gera það ekki, þá stendur þú frammi fyrir því að ákveða hvort þú sættir þig við það eða ekki. Þú segir að hann lofi öllu fögru og virðist vera tilbúinn til að gera hér um bil allt til að bjarga sambandinu. En hvað vilt þú? Vilt þú bjarga sambandinu? Sættir þú þig við að maki þinn hafi haldið fram hjá þér frá upphafi sambandsins?

Ef þú ákveður að halda áfram í þessu sambandi, þá mæli ég með því að þú setjir skýr mörk og viðmið um það hvað þér finnst nauðsynlegt að eigi sér stað til þess að svo verði. Það gæti til dæmis verið að ákveða hvaða upplýsingar þú vilt fá og að þið farið í tíma hjá pararáðgjafa til þess að fá aðstoð við uppbygginguna. Eins mæli ég með því að þú skoðir persónulega aðstoð til þess að vinna úr áfallinu sem það er að upplifa framhjáhald maka og að styrkja þig í að taka sjálfstæðar ákvarðanir um framhaldið. Með því að hafa skýrar línur hvað þetta varðar, getur þú fylgst með því hvort þörfum þínum sé mætt og tekið næstu ákvörðun út frá því.

Að treysta er bæði ákvörðun og ferðalag. Ef þú ákveður að fara þá leið að halda áfram í sambandinu, þá er mikilvægt fyrir þig að taka ákvörðun um að ætla að treysta svo að þér geti liðið betur. Að sama skapi er það ferðalag að treysta, þú kemst ekki að því nema eftir því sem tíminn líður hvort maka þínum sé treystandi. Það má því segja að við séum alltaf að taka áhættu ef við ákveðum að treysta einhverjum. Þá er eðlilegt að spyrja sig hvort það sé mikil eða lítil áhætta að treysta aðila sem hefur frá upphafi sambandsins ítrekað haldið fram hjá. Miðað við þá staðreynd gæti einhver sagt að það sé ekki áhættunnar virði og sennilegt að hann þurfi sjálfur að vinna með sín mál áður en hann getur skuldbundið sig í parasambandi.

Svarið við spurningunni um hvort hægt sé að komast í gegnum svona svik og særindi er eiginlega já og nei. Það byggir talsvert á því hve vel er unnið úr málunum hve vel gengur að komast í gegnum svona verkefni. Þar skiptir miklu máli að heiðarleiki sé til staðar og að fólk fái svör við mikilvægum spurningum. Það er einnig algjört lykilatriði að gerandinn axli ábyrgð, gangist við því sem hann hefur gert og geri allt sem hann getur til þess að skapa ekki frekari tortryggni og áhyggjur. Ef pör eru samstíga í þessari vinnu og heiðarleg gagnvart hvort öðru þá er mögulegt að vinna úr svona áfalli. Það er hins vegar ljóst að eftir áföll af þessu tagi tekur langan tíma að jafna sig og ekki óalgengt að sárustu tilfinningarnar komi eins og öldugangur í nokkra mánuði og jafnvel 1-2 ár á eftir. Minningin getur svo varað mun lengur og hjá sumum ævina á enda.

Gangi þér allt í haginn og mundu að þú ert mikilvæg og átt bara gott skilið!

Með bestu kveðju – Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál