Á ég að hætta að hitta hann?

Margar af fallegustu konum heimsins hafa upplifað höfnun. Ef við …
Margar af fallegustu konum heimsins hafa upplifað höfnun. Ef við breytum afstöðu okkar til sambanda og lítum á þau sem gjöf til okkar til að læra af þá uppskerum við heilbrigðari sambönd í framtíðinni. Hluti af vinnunni er að setja fókusinn á okkur sjálf. Að næra okkur og sinna okkur vel.

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér spyr íslensk kona ráða en upp kom babb í bátinn í sumar þegar „kærastinn“ vildi ekki kynna hana fyrir fjölskyldu sinni.

Hæ.

Ég er í sæmilega nýlegu sambandi. Það urðu djúp særindi í sumar þar sem kæró var ekki tilbúinn að afhjúpa sambandið og bjóða mér að hitta fjölskyldu sína. Svo sambandið er í dag þannig að við erum fyrst og fremst vinir. Ekki lengur að stefna neitt saman enda skýr skilaboð frá hans hendi til mín. Hann hafði hitt allt mitt nánasta fólk. En við bæði eigum okkar fortíð sem hefur auðvitað sín áhrif. En vináttan er þannig að við erum að gera fullt hvort fyrir annað, aðstoða, hjálpa, hugsa með og styðja og styrkja. 


Ég er á miðjum aldri, á maður að sleppa strax sambandinu og leita á ný mið, eða leyfa hlutunum bara að þróast, taka einn dag í einu og taka því bara sem hver dagur gefur? Ein smá hugsi.  

Takk.

Elínrós Líndal er NLP-einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal er NLP-einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Eggert

Sæl mín kæra. 

Ég skil að þú ert hugsi. Ég væri það einnig í þínum sporum. 

Takk fyrir að senda mér bréf. Ég er með nokkrar hugmyndir fyrir þig.

Mér sýnist þú hafa hitt sálufélaga þinn. Veistu muninn á sálufélaga og lífsförunaut? Sálufélagar geta komið inn í líf okkar óvænt. Þeir ýfa upp gömul sár og eru eins konar kennarar sem hjálpa okkur að sjá hvað við þurfum að vinna í til að hækka tíðni okkar í samböndum. Sálufélagi getur orðið lífsförunautur, en það er alls ekki reglan. Að mínu mati þyrftuð þið bæði að fara í vinnu með ykkur til að af slíku gæti orðið og fyrst þú sendir mér bréfið langar mig að beina sjónum mínum að þér.

Verkefnið sem þú stendur andspænis að mínu mati er verkefnið þar sem þú hækkar virði þitt sem einstaklingur. Ef þú ímyndar þér að þú sért fullkomin sköpun Guðs og þú eigir allt það besta skilið. Meðal annars það að kynnast yndislegum herramanni sem er fús að kynna þig með stolti inn í fjölskyldu sína og fyrir vinum sínum. Hvað finnst þér þá um herramanninn sem þú hittir nýlega og þig langaði í samband með? Er hann sá eini rétti?

Eins langar mig að vita. Upplifðir þú höfnun í æsku? Eða þegar þú varst ung kona? 

Það er eitthvað við aðstæðurnar í dag sem talar inn í kerfið þitt. Sár úr fortíðinni sem þú ert að fá tækifæri til að leiðrétta og skoða. Að græða gömul sár er tilgangur sambanda að mínu mati. Þess vegna ættum við að vera einstaklega þakklátar öllu fólki sem koma okkur af stað í þessa vinnu. 

Ef þig langar á fullum hraða inn í það ferli að hækka þína sambandstíðni, þá myndi ég taka 90 daga án samskipta við vin þinn. Þú getur tilkynnt honum fallega að þú ætlir að taka þér tíma fyrir þig og beðið hann um að vera ekki í samskiptum í þennan tíma. Eða bara farið inn í tímabilið og útskýrt seinna hvað þú varst að gera. En það er algjört lykilatriði að tala ekkert við herramanninn á þessum tíma.

Á fyrstu vikunum máttu gera ráð fyrir að upplifa það sem kallast ástarfráhvörf. Þau eru mismikil hjá fólki en geta komið út í þráhyggjum fyrir honum eða einhverju öðru. Skoðaðu allt sem kemur upp og settu kærleika til þín. Ef fyrrverandi kærasti þinn og núverandi vinur kemur mikið upp. Vertu þá dugleg að biðja fyrir honum líka og blessa hann. Borðaðu hollan mat á þessum tíma. Sinntu þér og farðu endilega í ráðgjöf með það sem þú færð að sjá.

Vanalega koma upp hlutir sem við höfum ekki verið tilbúin að takast á við áður. Þetta getur komið fram sem ótti. Það er algjört lykilatriði í þessu ferli að þú sleppir því að skoða aðra menn í kringum þig. Sleppir áfengi og öðrum hugbreytandi efnum. Þeir sem hafa farið í gegnum svona ferli tala um hversu breytandi þetta tímabil er. Út úr þessu tímabili muntu vita hvað þú vilt betur. Á þessu tímabili er gott að skoða hvað þú kannt að meta, hvernig þú vilt hafa heimilið þitt og hvað þú elskar að gera. 

Ég gef konum aldrei ráð með það að leiðarljósi að þær nái sér í mennina sem eru ekki tilbúnir í samband. Það er nóg til af efni sem hægt er að lesa sér til um í slíka leiki. 

Hins vegar mun koma þér á óvart hvað það að standa með sjálfum sér gefur okkur tilbaka. Þegar konur og karlar standa með sjálfum sér, þá verður vanalega mikil vakning hjá þeim aðila sem var með annan fótinn inn í sambandinu.  

Það sem mér finnst hins vegar áhugaverðast er að sjá að þegar konur og karlar eru komin á hærri tíðni, þá talar ekki lengur inn í kerfið hjá þeim aðilar sem hafna þeim. Forsendan fyrir því að fá skilyrðislausa ást er að geta gefið hana sjálfur. Fyrst þurfum við að læra að elska okkur þannig áður en við getum gefið hana öðrum. 

Að lokum langar mig að benda á að góður kærasti er einungis viðbót við annars frábært líf. Hann verður aldrei lífið sjálft. Ef þú tekur 8 - 10 stefnumót með nýjum félaga eftir 90 dagana og ferð ekki lengra en í spjall á þessum stefnumótum. Muntu fá tækifæri til að spyrja út í gömul sambönd og fá hæfilega fjarlægð til að geta metið persónuna á réttum forsendum. Ég held að lífsförunautur þinn sé á næsta leiti ef þú vinnur vel úr þessu. Annars máttu bóka að fá annan skemmtilegan sálufélaga inn í líf þitt sem er frábær gjöf líka. Þó að manni finnist það kannski aldrei þegar allt springur í loft upp.

Gangi þér einstaklega vel.

Þú átt allt það besta skilið.

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál