Bylting í þróun hjónabanda

Áslaug Kristjánsdóttir er kynfræðingur.
Áslaug Kristjánsdóttir er kynfræðingur. Ljósmynd/Oddvar

Áslaug Kristjánsdóttir, hjúkrunar- og kynfræðingur, starfar sem kynlífsráðgjafi á Domus Mentis geðheilsustöð í Þverholti, ásamt því að vera framkvæmdastýra stöðvarinnar. Áslaug fjallar um fjölmörg áhugaverð námskeið. Hvernig bylting er að verða í hjónaböndum, þar sem unga kynslóðin er ekki tilbúin að festa sig fyrir lífstíð. Eins fjallar hún um hvað gott kynlíf felur í sér.

Áslaug lauk meistaragráðu í kynfræði frá Curtin-háskóla í Ástralíu og svo sérnámi í kynlífsráðgjöf við háskólann í Hull í Bretlandi. Áslaug er einn af eigendum Domus Mentis geðheilsustöðvar sem er þverfagleg heilbrigðisþjónusta sem stofnuð var í lok árs 2016. Þar starfar hópur sérfræðinga úr geðheilbrigðisstéttum, s.s. sálfræðingar, geðlæknar og félagsráðgjafar.

Hvað getur þú sagt mér um námskeiðin sem eru haldin á ykkar vegum í haust?

„Við erum spennt fyrir komandi vetri og verðum með eldri og ný námskeið í boði. Við munum halda áfram að bjóða upp á námskeið fyrir aðstandendur fólks með geðraskanir og fólks með fíknivanda. Einnig námskeið fyrir pör til að gera sambandið skemmtilegra. Þar er farið í hvernig má bæta samskipti en við förum líka í það hvernig má bæta kynlífið. Enda er kynlíf partur af langflestum parsamböndum en oft „tabú“ að ræða það. Einnig verðum við með ný námskeið fyrir konur sem vilja finna kynveruna í sér eða leyfa henni að blómstra. Þá bjóðum við líka upp á sérstök námskeið fyrir konur sem hafa þolað kynferðislegt ofbeldi og annað fyrir konur sem finna fyrir sársauka við samfarir. Hjá okkur er mikil þekking og reynsla í áfallameðferð og því áhugavert að blanda því saman við kynlífsráðgjöfina. Slík námskeið eru þekkt frá Bandaríkjunum og Kanada, því langar okkur að bjóða nú upp á slík námskeið hérna.

Námskeið fyrir framhaldsskólanema

Annað nýtt námskeið er fyrir framhaldsskólanema til að takast á við vanlíðan, prófkvíða og að læra að skipuleggja námið og lífið. Þetta námskeið er hjálplegt til að takast á við krefjandi framhaldskólaár svo þau verði bæði skemmtileg og árangursrík.“

Áslaug talar sérstaklega um námskeiðið Skemmtilegra samband og samlíf. „Námskeiðið er stutt en stútfullt af fróðleik og heima-verkefnum sem pör taka með sér heim og vinna eftir því sem þeim hentar. Ég tel að þetta námskeið ætti að vera skyldunám fyrir þá sem vilja vera í langtímasamböndum. Þetta námskeið hentar bæði nýjum pörum og þeim sem hafa verið lengi saman. Pör sem sækja þetta námskeið eru pör þar sem allt gengur vel en þau vilja gera gott betra og líka pör sem eru komin í ójafnvægi með sambandið og vantar ráð til að komast á rétta braut aftur.“

Er raunverulega hægt að kenna gott kynlíf á námskeiði og hvernig er þetta, eru allir í fötum?

„Já, það er svo merkilegt að gott kynlíf er ekki flókið í sjálfu sér. En almennt fáum við litla kynfræðslu og lítið er talað um kynheilbrigði. Flesta skortir aðeins upp á samskiptatæknina þegar kemur að því að ræða kynlíf. En þetta er stór partur af lífi flestra og eitthvað sem vert er að huga að. Það eru allir í fötunum í kynlífsráðgjöf líkt og á námskeiðunum. Fólk er aldrei beðið að gera neitt eða sýna neitt! Fólk fær leiðbeiningar og gerir svo æfingar heima í næði.“

Karlar og konur með jafnt frumkvæði

Hvort eru það konur eða karlar sem eiga frumvæðið að því að koma á námskeið?

„Það er svo merkilegt að við vorum viss um að konur myndu frekar sækja námskeið og eiga frumkvæði að því að bóka sig á paranámskeið en raunin er að karlar og konur eiga frumkvæðið jafnt hvað þetta varðar. Það er skemmtilegt að karlar eru farnir að sækja geðheilbrigðisþjónustu jafnt á við konur.“

Er fólk feimið að mæta á námskeið fyrir pör eða námskeið um kynlíf?

„Maður myndi ætla að fólk væri feimið að mæta á slík námskeið eða í kynlífsráðgjöf yfir höfuð en yfir 200 pör hafa komið til mín í ráðgjöf og fleiri til okkar á stöðinni. Fólk er einnig óhrætt við það að mæta á paranámskeið. Það er gott að finna að maður er ekki einn í sínu, við deilum svo mikilli sammannlegri reynslu sem við teljum stundum einstaka.“

Er eitthvað nýtt að koma fram á þínu sviði um þessar mundir?

„Það sem er að gerast nýtt núna er að við fáum nýja útgáfu af sjúkdómsflokkunarkerfi frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sem við notum í heilbrigðisþjónustu á Íslandi en það verður tekið upp í byrjun næsta árs. Í þessari nýju útgáfu fá kynlífsraskanir sinn eigin flokk, áður heyrðu þær undir geðraskanir. Þetta finnst mér verulega spennandi og þetta eru tímamót í sögu minnar fræðigreinar. Annars er líka hávær umræða í mínu fagi núna síðustu misseri um framtíð langtímasambanda. Fólk er að velta því fyrir sér hvort verði bylting í því hvernig við lítum á hjónabönd. Yngra fólk er síður að gifta sig eða skuldbinda sig til æviloka eins og tíðkaðist hjá elstu lifandi kynslóðunum. Þetta er spennandi og eldheit umræða á köflum.“

Þeir eldri stunda meira kynlíf

Er nokkurt kynlíf eftir 60?

„Heldur betur, það er ein af þessum goðsögnum að við hættum að stunda kynlíf eftir miðjan aldur. En það er ekkert sem styður þetta þegar gerðar eru kannanir og rannsóknir á kynhegðun fólks. Það merkilega er að yngri kynslóðir stunda jafnvel minna kynlíf en þær eldri gerðu. Það er líklegt að yngra fólk stundi minna kynlíf en foreldrar þeirra gerðu eða gera. Hvað veldur er svo stóra spurningin. Margir vilja benda á snjalltækin.“

Telur þú fólk geta lært á öllum aldri?

„Já, það veit ég. Manneskjan er þannig gerð að við viljum alltaf vera að bæta okkur, það er því mikill drifkraftur í okkur að læra meira og meira. Það er oft erfiðara að láta af hegðun sem hefur verið í föstu mynstri til margra ára en það er vel hægt. Það þarf bara að æfa sig.“

Hvað einkennir gott kynlíf að þínu mati?

„Gott kynlíf snýst um jafnvægi og góð samskipti. Þeir sem stunda kynlíf saman þurfa að tala um væntingar og hvað þarf til að allir séu ánægðir. Svo á kynlíf að vera skemmtilegt, það eru lítil lífsgæði í því að gera þetta alltaf eins. Fólk þarf að virkja sköpunarkraftinn í kynlífinu og stundum að vera úrræðagott.“

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?

„Ætli það sé ekki bara ástin sem skiptir mig mestu máli. Ástin í mínu persónulega lífi, börnunum og fjölskyldunni og svo ástin í starfinu. Ég segi oft í gríni að ég vinni við að bjarga samböndum og þar með ástinni. En það er svo auðvitað fólkið sjálft sem leitar til mín sem bjargar sér, ég bara hjálpa aðeins til.“

Eitthvað að lokum?

„Fyrir áhugasama má finna frekari upplýsingar um námskeið og kynlífsráðgjöf á vefsíðu okkar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál