Er febrúar versti mánuðurinn fyrir...

Margir halda að lögmál ástarinnar séu öðruvísi en önnur lögmál …
Margir halda að lögmál ástarinnar séu öðruvísi en önnur lögmál í lífinu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi, fjallar um konu sem segir að febrúar sé versti mánuður ársins fyrir þá sem eru á lausu. Valentínusardagurinn er haldinn hátíðlegur í þessum mánuði. Fólk í samböndum er duglegt að birta á samfélagsmiðlum skilaboð um ástina. 

„Á síðasta ári kom til mín skjólstæðingur í ráðgjöf sem sagði að febrúarmánuður væri versti mánuður ársins fyrir þá sem eru á lausu. Ég fékk leyfi frá henni að segja þessa sögu,“ segir Elínrós.

„Bara þegar ég sé þennan mánuð koma upp þá fæ ég ónotatilfinningu í magann. Hann minnir mig alltaf á ástina. Hamingjusamt fólk á samfélagsmiðlum fer undir skinnið á mér á þessum tíma,“ sagði hún.

Febrúar er mánuður ástarinnar að margra mati. Á þessum tíma er haldið upp á Valentínusardaginn þar sem hamingjusöm pör gera eitthvað sérstakt fyrir hvort annað. Þeir sem eru á lausu eru sumir hverjir jafnframt duglegir að gera eitthvað fyrir sig á þessum tíma. Hvort heldur sem er að plana sumarfríið, setja niður markmið fyrir árið, kaupa blóm í vasa eða bara að hella upp á góðan kaffibolla á morgnana. 

Ég spurði hana af hverju hún setti ekki bara niður markmið tengt ástinni. Ég gæti aðstoðað hana í að finna áhugaverðan maka. Við gerðum samning um að vinna í þessum málum í þrjá mánuði saman. 

Við höfðum nýlokið við samning sem við gerðum í þrjá mánuði þar á undan. Þar sem hún hafði verið í algjöru fráhaldi frá karlmönnum. Verið að skilgreina konuna sem hana langaði að vera. Verið búin að ástunda hluti sem þessi kona gerir daglega og hafði á sama tíma forðast hluti sem létu henni líða illa með sig. 

„Get ég sett mér markmið um að fara í samband? Ég hélt að sambönd væri eitthvað sem bara gerðist ef það á að gerast. Það er kannski ekki nema vona að ég hef verið á lausu í öll þessi ár,“ sagði hún. 

Við lögðum af stað í þessa vinnu. 

1. Hvað hafa gömul sambönd kennt þér?

Til þess að átta okkur á því hvað hún vildi fékk ég hana til að skrifa niður öll gömul sambönd sem hún hafði verið í til þessa. Hvað var gott við þau, og hvað var verra. Hvar hitti hún þessa menn og hvað áttu þeir sameiginlegt.

Hvernig var hún í þessum samböndum? En þeir?

Þessi vinna kom okkur af stað í þeirri vegferð að fá hana til að taka ábyrgð á sambandssögu sinni til þessa. Það var ýmislegt sem kom henni á óvart í þessari vinnu. Hvað ætlaði hún ekki að taka með sér úr gömlum samböndum?

„Ég hef verið í þremur samböndum þar sem allir kærastar mínir hafa drukkið of mikið áfengi fyrir minn smekk. Þegar ég skoða staðina sem ég kynntist þeim á, þá var það vanalega eftir tvö á nóttinni á bar. Ég hef ekki hugsað um þetta svona áður. Þannig að ef mig langar í eitthvað annað, þarf ég greinilega að gera hlutina öðruvísi. Barinn er þá ekki málið fyrir mig.“

Að skilgreina eigin gildi í lífinu

Það gilda sömu lögmál í ástarmálum og öðrum málum í lífinu. Ef markmiðin eru skýr, þá eru meiri möguleikar að hlutirnir verði að veruleika. Til að vita hvað maður vill í þessu lífi er gott að skoða hver maður er. Hvað langaði henni að gera í lífinu? Hvernig kona er hún að vinna í að vera? Hvernig samning langaði hana að gera við sig?

„Eftir þessa þrjá mánuði í fráhaldi sé ég að ég er mjög heimakær í eðli mínu. Ég elska að fara í sund á morgnana, og síðan fæ ég mér góðan kaffibolla þegar ég kem heim. Ég er með blóm í vasa heima. Ég er með allt hreint og fínt hjá mér. Ég hef sett mér það að reglu að mæta á sama tíma í vinnu, vinn mínar átta stundir vel. En eitt af sjálfsvirðingarverkefnunum mínum á undanförnum mánuðum hefur verið að setja verð á tímana mína og að vinna ekki óþarflega langar stundir bara til að þóknast öðrum. Þetta hefur gefið mér tíma til að fara í leikhús, á listasýningar og hitta vini og fjölskyldu meira. Ég er að plana fleiri utanlandsferðir enda er ég búin að spara mikið á undanförnum mánuðum. Ég sé ekki fyrir mér að mig langi til að byrja að búa strax með einhverjum öðrum. En ég væri til í sætan kláran kærasta sem lifir svipuðu lífi og ég. Mig langar að kynnast heiðarlegum manni sem setur sjálfan sig í fyrsta sætið og síðan sambandið í forgang.

Í hvaða orku?

Það sem mér finnst mikilvægt fyrir konur að átta sig á er hvort þær vilji virðingu fyrst í samböndum og síðan aðdáun, eða aðdáun fyrst og síðan virðingu. Hið fyrra gefur til kynna að þær vilji vera karlinn í sambandinu (í karlorkunni) hið seinna að þær hafi meira áhuga á kvenorkunni þegar kemur að sambandinu sem þær langar í. Í hvaða orku ætlaði hún að vera í samböndum?

„Já þú meinar. Ég hef vanalega verið sú sem er aðeins frakkari í samskiptum við karla. Þegar þú talar um þetta svona, þá held ég að ég hafi einmitt náð mér í mína kærasta hingað til. En mig langar að vera konan í sambandinu. En það er ég sem hef stjórnað, og síðan byrja ég að kvarta í miðju sambandi yfir því að fá ekki aðdáun frá kærastanum. En ég hef fengið virðingu, og nóg af henni. Sem gerir mig að karlinum. Úff, ég þarf að skoða þennan hluta betur. Hvað geri ég þá?“

Af því að hana langaði ekki að hitta karlmenn á bar lengur urðum við að finna upp nýjar leiðir til að komast á stefnumót. Hún fékk leyfi til að horfa í fimm mínútur á dag í augun á þeim karlmönnum sem hana langaði að kynnast betur. Hún notaði þessa aðferð þegar hún hitti vini á kaffihúsi, þegar hún fór á listasýningar, í vinnunni ef hún hitti menn sem voru á lausu. Það var eitthvað sem breyttist orkulega í kringum hana. Vinir hennar fóru að hringja og segjast þekkja félaga sem væri á lausu. Strákur sem hitti hana á körfuboltaleik setti sig í samband við hana á Facebook.

Það var eins og veröldin ynni með henni í þessari nýju orku. Hún var búin að setja niður á blað hvernig mann hana langaði í, ég hvatti hana til að vera nákvæm, svo veröldin væri ekki að færa henni eitthvað sem hana ekki langaði í. 

Að fara á stefnumót

Að fara á stefnumót er góð æfing í meðvirkni. Það fyrsta sem ég spyr skjólstæðinga mína alltaf fyrir þennan hluta er: Hver ætlar þú að vera á stefnumótinu?

„Nú auðvitað ég!“

Það er frábært svar, en mun það ganga eftir?

„Ég fór á tvö stefnumóti í þessari viku, ertu viss um að það sé í lagi að fara á tvö stefnumót sitt með hvorum manninum? Mér er búið að líða smávegis illa með það,“ segir hún.

Af hverju?

„Já, það er góð spurning. Þar sem reglan á þessum stefnumótum er einungis að hittast og kynnast, þá er ég kannski ekki svo óheiðarleg að vera á stefnumóti með tveimur. Það var reyndar alveg magnað að fá samanburðinn þarna á milli. Annar þeirra spurði mig hvort ég væri að hitta fleiri. Ég sagði honum sannleikann og hann rak upp stór augu. Ég kunni ótrúlega vel við að hitta þann einstakling á kaffihúsi. Hann kann greinilega ekki „small talk“ sem gaf mér tilfinningu um öryggi tengt honum. Hann var ekki í neinum leikjum og talaði um allt sem hann kunni að meta í lífinu. 

Hinum manninum átti ég erfiðara með að átta mig á. Hann frestaði stefnumótinu tvisvar og þegar við loksins hittumst þá átti ég erfitt með að átta mig á hvort þetta var sami maðurinn og ég hafði talað við í skilaboðum. Hann talaði allan tímann um sjálfan sig og spurði mig lítið um mig. Hann virtist óöruggur með sig sjálfan, sem gerði það að verkum að ég varð óöruggari með mig. Mér fannst hann samt aðeins sætari, en hann var ekki með sama öryggið og ekki í góðri vinnu. 

Ef ég ætti að velja á milli þessara einstaklinga, þá myndi ég segja að ég hafi verið meira ég með þeim fyrri. En í sannleika sagt langar mig á aðeins fleiri stefnumót. Er það í lagi?“

Auðvitað var það í lagi, einu reglurnar á þessum stefnumótum var að hún átti að tala og kynnast þessum mönnum. Það var ekki kominn tími á að taka kynnin lengra, enda vildi ég ekki missa fókusinn hennar af því sem mestu máli skipti - enda getur Oxytocin (ástarhormónið) sem konur fá í sig við skyndikynni á fyrstu stefnumótum gert það að verkum að þær halda að þær hafi fundið hinn eina rétta - síðan nokkrum árum seinna fara að renna á þær tvær grímur. 

Samningur

Það kom skjólstæðingi mínum á óvart hvað henni þótti gaman á stefnumótum og hún tók sér langan tíma í að finna rétta aðilann. Eins skipti hana máli að fá að vera í kvenorkunni gagnvart þessum manni og því varð hún að bíða eftir því að hann langaði í samband, að hann tæki hana frá. Hvað ætlaði hún að setja inn í samninginn þegar hún færi í samband?

„Hann sagði mér á síðasta stefnumóti að í raun hefðu fæstir menn sem hann þekkir áhuga á samböndum. Hann segir að meginforsenda þess að hann vilji fara í samband með mér sé því hann sé orðinn þannig hrifinn af mér að hann langi að taka mig frá. Ég sagðist ætla að hugsa málið en langaði auðvitað að segja strax já. Ég varð samt að fá þitt álit á þessu.“

Ef þetta er maðurinn sem þig langar í samband með þá líst mér vel á hvað hann er heiðarlegur í samskiptum við þig. Er þá ekki bara kominn tími á að ræða skilmála sambandsins. Veistu hvernig samband þig langar í? Hvað þú vilt ekki og þar fram eftir götunum?

„Hann langar í samband þar sem við erum ekki með öðrum. Hann vill reyndar prófa kynlíf áður en við förum í samband, en ég sagði honum að ég væri að spara mig fyrir þann rétta. Honum fannst það geðveikt fyndið, en ég stóð við mitt þar. Enda finnst mér alveg galið að ég hafi byrjað á þeim enda hér áður. Auðvitað er líkami minn spari og ekki fyrir alla. Ég vil ekki blanda honum í málin of snemma, en finn hvað ég er spennt að taka þetta samband áfram.

Það er ýmislegt fleira sem mig langar að setja í samninginn. Mér finnst svona samningur verja mig fyrir að verða særð í framtíðinni. Ef hann heldur fram hjá þá ætla ég að líta svo á að það hafi ekkert með mig að gera. Ef ég stend við mitt í þessu samkomulagi, þá ætla ég ekki að taka ábyrgð á þeim hluta samningsins sem hann getur þá ekki staðið við. 

Eins finnst mér æðisleg þessi hugmynd að vanda sig i sambandi. Ég held að ég fengi aldrei meðmæli í samband frá fyrrverandi kærustum. Sem er galið. Ef þú myndir tala við þá sem ég hef unnið fyrir, þann sem ég leigði íbúð af síðast, þá myndu allir þeir aðilar segja mig áreiðanlega og góða. Ég ætla að sýna þá hlið af mér í þessu sambandi og samböndum í framtíðinni. Ég veit ekki af hverju ég hef verið að hugsa þessi mál svona öðruvísi.“

Skjólstæðingur minn er ekki sá eini að halda að lögmál ástarinnar séu ævintýri líkust. Að eitthvað spennandi og óvænt muni gerast sem þeir hafa ekki stjórn á. Sambönd geta verið ótrúlega góð og vaxið með árunum. En það gerist ekki af sjálfum sér. 

Ég óskaði henni alls hins besta, en hvatti hana að koma í framtíðinni með nýja kærastann í ráðgjöf, enda mikilvægt að setja sér markmið í samböndum og fylgja þeim eftir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrósu spurningu HÉR. 

mbl.is