Misstum allt, en hann heldur áfram

Sá sem á mikið af eignum en fjárfestir með skuldsetningu …
Sá sem á mikið af eignum en fjárfestir með skuldsetningu og steypir fjölskyldunni í vanda getur verið með undirliggjandi vandamál sem þyrfti að skoða. Sjúklegir fjárfestar eru til að mati Ölmu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn. Hér sendir kona inn fyrirspurn tengda eiginmanni sínum sem spilar djarft með fjárfestingar og fleira sem hann fjármagnar með skuldsetningu. 

Sæl Alma 

Mig langar að forvitnast varðandi manninn minn en í hruninu misstum við allt. Þá hafði hann verið að fjárfesta í alls konar verkefnum, hlutabréfum og gjaldeyri. Vandinn var sá þá að þetta var allt meira og minna fjármagnað með skuldum og við misstum allt okkar. Það sem veldur mér áhyggjum núna er að hann er byrjaður aftur. Þ.e. hann er að fjárfesta í alls konar verkefnum og eina sem ég tek eftir er að skuldirnar okkar eru að hækka. Hann virðist ekki geta einbeitt sér að einu verki heldur virðist hann vera út um allt og þetta virðist vera fjármagnað með lánum héðan og þaðan. Ég hef ótal sinnum reynt að fá hann til að setjast niður og skipuleggja þetta og setja niður á blað en hann kemur sér alltaf undan því og verður pirraður og reiður og segist hafa þetta undir stjórn. Það lítur út fyrir að hann sé að fá lán fyrir þessu flestu og er að nota fjármagn til að redda sér fyrir horn hér og þar. Einnig hef ég áhyggjur af því að lítið af þessum fjárfestingum virðast skila sér til okkar fjölskyldunnar og hann virðist aldrei hafa tíma til að eyða með mér og börnunum, eins og hann noti þetta til að forðast að eyða tíma með okkur. 

Er mögulegt að hann sé í raun spilafíkill og sé háður spennunni við að halda þessu öllu á floti? Er hægt að vera sjúklegur fjárfestir?

Kveðja M.

Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á …
Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn.

Sæl M. 

Spilafíkn er mjög falinn sjúkdómur og fólk sem verður fyrir áhrifum sjúkdómsins áttar sig oft ekki á hvað er að gerast. Skilin á milli að fjárfesta og vera fjárhættuspilari eru mjög oft óljós. Í ljósi sögu ykkar þar sem þið hafið misst allt ykkar vegna skulda er mjög eðlilegt að þú hafir áhyggjur og mjög eðlilegt að fjármál fjölskyldunnar séu skýr og allt uppi á borðunum. Mín reynsla er að ef fólk er að fjármagna mikið með lánum og jafnvel að borga skuldir með nýjum lánum og færa lánað fjármagn milli skulda þá er yfirleitt eitthvað athugavert í gangi, hið minnsta þá er tilefni til að skoða hvað sé að gerast. Helstu einkenni spilafíknar eru að fólk verður mjög upptekið af og eyðir óeðlilegum tíma í fjárhættuspil eða eins og í ykkar tilfelli þessi verkefni. Einnig myndar einstaklingur þol og það þýðir að hann þarf að eyða meiri pening og tíma í „verkefnið“ og það sem nægði honum hér áður virkar ekki núna og því þarf hann að fjárfesta hærri upphæðir og/eða vera með fleiri verkefni. Þú talar einnig um að hann verði reiður og pirraður og kemur sér undan að ræða hlutina við þig og það er einmitt eitt af einkennum spilafíknar og það er flótti og vilja ekki tala af hreinskilni um vandann eða í hið minnsta um raunstöðuna. Því ef hann hefur stjórn og yfirsýn yfir fjármálin ætti ekki að vera vandi að setjast niður og útskýra stöðuna fyrir þér og hvernig verkefnunum miðar áfram. 

Ef þú finnur að eitthvað óeðlilegt er í gangi fylgdu þá innsæi þínu því yfirleitt þegar aðstandendur finna slíkt þá því miður reynist það rétt. Fólk sem verður fyrir áhrifum spilafíknar áttar sig oft ekki á hvað sé að gerast þar sem ekki er hægt að finna lykt eða sjá það á fólki, en finna má einkenni spilafíknar yfirleitt fyrst á fjármálunum og ef fjármálin eru óljós, óskýr eða óeðlileg ráðlegg ég þér að leita aðstoðar til að komast að því hvort maðurinn þinn sé að kljást við spilafíkn. Það er til spurningalisti sem aðstoðar fólk við að finna út hvort það eigi við spilavanda að etja og set ég hlekk hér fyrir þig til að sjá og vonandi færðu hann til að setjast niður með þér og svara þeim spurningum. 

Gangi þér vel og mundu að það er mjög eðlilegt að þú hafir áhyggjur og ef þið eruð með sameiginleg fjármál þá er það eðlilegasta mál að þið séuð bæði upplýst og meðvituð um eignir og skuldir og stöðu fjárhags ykkar. 

Kær kveðja,

Alma Hafsteins 

spilavandi.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál