„Fyrrverandi með tak á mér“

Að vera á miðjum aldri er frábært aldursskeið ef maður …
Að vera á miðjum aldri er frábært aldursskeið ef maður tekur ákvörðun um að þroskast með árunum í stað þess að einungis eldast.

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda. Hér fær hún bréf frá karli sem hefur slæma reynslu af samböndum. Hann nær ekki að slíta sig frá fyrrverandi alveg. Hann biður um ráð þessu tengt.

Sæl.

Þannig er að ég er karlmaður sem nálgast 50 árin. Ég er búinn að vera einn í nokkur ár eftir sambönd sem gengu ekki upp. Það síðasta var hrein martröð og markaði mig mjög, framhjáhald hennar, niðurbrot og ömurleg framkoma. En kynlífið var gott og ég teymdi mig áfram með því. Að endingu var ég orðinn flak og búinn að týna því hvað gott samband er. Í raun kann ég ekki að vera í sambandi og finnst ég fráhverfur. Ég var í toppformi en hef einhvern veginn gefist upp á samböndum og geri lítið til að hressa mig við. Einn vandi háir mér mjög en það er sú sem ég var með síðast í nokkur ár og var erfiðasta sambandið, framhjáhald og það sem ég nefndi, hún er alltaf að hafa samband við mig. Hún ruglar mig ægilega og ég veit ekki hvað ég á að gera. Hún hefur boðið mér að koma koma til sín og ég hef gert það. Hún tekur á móti mér ögrandi og er svo með sömu takta og áður og á endanum fer ég eins og barinn hundur.

Ég hef skemmt sambönd vegna þessarar konu sem er föst í lífi mínu, eða ég leyfi mér að hafa hana fasta.

Ég þarf ráð...

Kveðja, JJ

Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert

Hæ hæ.

Þegar ég les yfir bréfið þitt þá sé ég að þú ert með dómgreind, visku og allt sem þarf til að leysa þetta mál sjálfur. Það eina sem þú gætir þurft á að halda er ráðgjafi sem myndi hjálpa þér að skoða af hverju þú leitar í sambönd sem meiða þig. 

Þú tekur fulla ábyrgð á öllu sem þú ert að gera sem er merki um fúsleika til að fá eitthvað glænýtt inn í lífið. 

Mig langar hins vegar að setja inn í söguna þína ákveðið mildi, kærleika og aðeins annað viðhorf. 

Hvað ef allar konurnar sem þú hefur verið með hafa verið gjöf til þín frá veröldinni, eins konar kennarar svo þú getir orðið besta útgáfan af þér? Hvað ef konan sem þú ert að hitta er vanmáttug í að elska sig og aðra og kann ekki betur? Hvað óttastu við bestu útgáfuna af þér?

Það sem ég hef komist að tengt vinnu minni sem ráðgjafi er að svona mál spyrja ekki um stétt né stöðu. Það kæmi mér ekki á óvart að þú værir læknir, sálfræðingur, forstjóri, skólastjóri, ráðgjafi sjálfur, yfirmaður í opinbera geiranum, hagfræðingur  - í raun hvað sem er. Vanmáttur á þessu sviði er alls ekki lýsandi fyrir velgengni okkar á öðrum sviðum lífsins. 

Elskaðu sjálfan þig án skilyrða og konuna sem þú ert að hitta líka. Byrjaðu á þér samt. Hvaða mann hefur þú raunverulega að geyma? Hvað gerir þessi maður daglega? Hvað gerir hann ekki?

Prófaðu að taka þér fjórar vikur og ástundaðu það sem þessi maður gerir daglega og sjáðu hvert það tekur þig. 

Og já - treystu innsæi þínu og mundu að veröldin vill þér vel. Reglan á tilfinningasviðinu er vanalega sú að þegar við gerum eitthvað sem okkur líður vel að gera eftir á, þá erum við á réttri leið (topphegðun). Ef við gerum eitthvað sem meiðir okkur, þá erum við að velja að stíga ekki inn í ljósið (botnhegðun).

Við þurfum ekki að lifa í fortíðinni þótt við höfum gert hluti sem hafa meitt okkur hingað til. Við getum notað daginn í dag og byrjað á því að koma fram við okkur sjálf eins og við séum sérstök. Taktu svipuna af bakinu á þér og mundu að allt hefur sínar ástæður. 

Veröldin á eftir að senda þér fleiri hluti að læra af. 

Ég mæli með að fara í gegnum svona tímabil allsgáður, svo þú getir upplifað allt sem kemur upp á raunsæjan hátt.

Það fer að koma að því að ég haldi námskeið fyrir karlmenn um þessi mál. Þangað til treysti ég því að þú finnir tilganginn og verðir sá sem þú ert skapaður fyrir að vera. Þú þarft ekki annað fólk til að elska þig meira en þú gerir sjálfur. Ég mæli hins vegar með því að þú segir fyrrverandi hvað þú ætlir að gera og biðjir hana að vera ekki í sambandi við þig á meðan þú ert að þessu (það heitir að setja mörk). Síðan þá getur þú haft samband við hana ef þig langar að taka upp þráðinn aftur. Þannig ertu í karlorkunni gagnvart henni - það er orka sem myndi fara þér betur held ég. 

Ekki taka því persónulega þótt hún eigi erfitt með að halda sér frá þér. 

Ef þú hittir hana eða aðra konu til að fara í samband með aftur, mæli ég með að þú hittir viðkomandi í sex til átta skipti og kynnist henni vel áður en þú stundar kynlíf eða ferð í samband með viðkomandi. Ef þú hittir konur sem eru mikið að eltast við þig, reyna við þig og gera svipað og konan sem þú hefur verið að hitta. Mundu þá að þær eru í karlorkunni og þá er bara ein orka í boði fyrir þig sem er kvenorkan. Það er ótrúlega falleg og skapandi orka, hún getur búið til mikið af veraldlegum gæðum og skapandi augnablikum. En hún virkar vanalega þannig að ef einhver gefur þér, þá gefur þú til baka. Ástæðan fyrir því að ég held að þú sért týndur er af því að þú þarf að skoða þessi orkumál betur. Ég hef séð mjög falleg sambönd þar sem karlinn er í kvenorkunni og hef engar sérstakar skoðanir á hvernig þetta á að vera. 

Sambönd eru mjög mikið spari og fólk fer inn fyrir orkuna hjá hvort öðru. Forsendan fyrir góðu lífi að mínu mati er að vera í góðu sambandi. Það er ekkert að því að vera einn, ef maður velur að vera svo. Svo taktu þér þann tíma sem þú þarft til að komast í toppform aftur (andlega og líkamlega). 

Ef þú tekur þér tíma í að vinna í þér mæli ég með að þú kynnir þér hugtök eins og meðvirkni, mörk og markaleysi, ást, losta og fleira og finnir innra með þér hverju þú ert að leita að í þínu lífi. Ég mæli með tilfinningadagbók fyrir alla sem fara af stað í svona ferðalag.

Gangi þér vel.

Kveðja, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál