„Orðin háð kynlífi og hef ekki stjórn“

Þráhyggja á sviði ástarmála sést oft ekki utan á fólki.
Þráhyggja á sviði ástarmála sést oft ekki utan á fólki. mbl.is/thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda. Hér fær hún bréf frá konu sem er háð kynlífi. Hún virðist ekki hafa stjórn á sér í þeim málum.

Sæl

Ég er farin að hafa verulegar áhyggjur. Svo virðist sem ég sé orðin háð kynlífi. Það er eins og ég hafi enga stjórn á mér og geti ekki stoppað mig í að fara út sum kvöld (næstum öll kvöld vikunnar) á bari eða skemmtistaði. Þetta byrjaði auðvitað mjög sakleysislega, ég bara ung og fjörug aðeins að sletta úr klaufunum. Venjan var að fara á bar, fá sér drykk og hitta myndarlegan mann og eitt leiddi að öðru. En eitt kvöldið (þegar ég var farin að gera þetta verulega reglulega) hitti ég engan mann sem hafði áhuga ... en ég hitti konu. Þetta var í fyrsta skipti sem ég stundaði kynlíf með konu en eftir þetta er mér sama hvort það er karlkyn eða kvenkyn sem ég fer heim með. Ég vil bara kynlíf.

Þetta er ekki eðlilegt. Ég þarf nauðsynlega hjálp.

Kveðja, S

Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæl.

Mig langar að byrja á því að þakka þér fyrir hugrekkið að senda þennan póst. Það er aldrei auðvelt að viðurkenna eigin vanmátt. 

Þú lýsir þráhyggju í kynlíf og að þú sért farin á flakk með kynhneigð þína af þeim sökum. Ég mæli með að þú skoðir bækur eftir dr. Patrick J. Carnes. Out of the Shadows og Don't Call it Love. Mér finnst hann nálgast viðfangsefni sitt af miklum skilningi enda hefur hann áratuga reynslu sem sálfræðingur á þessu sviði. Hann byggir allt efni sitt á niðurstöðum rannsókna og út frá reynsluheimi þeirra sem hann hefur aðstoðað í gegnum árin. Ef þú tengir við það sem hann er að tala um gætirðu verið að upplifa fíkn á þessu sviði. 

Af því að þú sendir á mig geri ég ráð fyrir að þú viljir heiðarlega dómgreind að láni hjá mér.

Það sem ég mæli með er:

SLAA-fundir

Til eru 12 spora samtök sem takast á við þráhyggju í ástar- og kynlífsmálum. Samtökin heita SLAA (www.slaa.is). Þar býðst að fá leiðbeinanda (e. sponsor) og taka 12 sporin. 

Hæfur ráðgjafi

Til eru hæfir sérfræðingar sem sérhæfa sig í að vinna með fólki sem upplifir stjórnleysi í ástar- og kynlífsmálum. 

Ég mæli alltaf með að fara í góða vinnu tengda því að setja mörk áður en farið er í að vinna í áföllum eða tilfinningum á þessu sviði. Það er mín persónulega skoðun. Með því að sjá fyrir sér eigin mörk, æfa sig í að setja þau og finna þægilega hvíld í daglegum aðstæðum má finna gott svigrúm til að skoða hvað liggur að baki.

Leiðin í bata

Fráhvörf frá ástar- og kynlífsfíkn eru sögð taka einhvers staðar á milli þrjár og fjórar vikur. Við lesum stundum um fólk sem fer í djúpa ástarsorg og vaknar síðan upp einn daginn og þá er dagurinn öðruvísi, lífið breytt og hlutirnir betri. Það er þannig sem fólk lýsir því að vakna upp af fráhvarfstímabilinu. 

Fíkn er að mínu mati ekkert skrímsli. Það er bara aðeins öðruvísi að takast á við þann sjúkdóm en marga aðra, því batinn felst í uppgjöfinni, heiðarleikanum og að hætta að reyna sjálfur og einn. 

SLAA-anorexía

Það er ágætt að minna á hér að bati við ástar- og kynlífsfíkn er ekki talinn felast í að fara í hinar öfgarnar og neita sér um allt. Þess vegna er þín dómgreind og viska svo mikilvæg.

Dr. Patrick J. Carnes er ötull við að tala um þá sem fara í hinar öfgarnar, sem dæmi prestur sem neitar sér um allt og missir sig svo í að fara yfir mörk kvenna sem eru í sókninni hans.  Læknirinn sem hjálpar sjúkum á daginn en missir sig svo í að sýna sig í stofuglugganum á kvöldin. Hann talar um þessi mál af þekkingu. Með virðingu og af mildi. 

Það er mikið sjálfsvirðingarverkefni að leggja af stað í þetta ferðalag að finna réttu leiðina í bata fyrir þig. 

Gangi þér allt í haginn. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál