„Þarf ég að eignast mann og börn?“

Konur sem eiga hvorki börn né maka þurfa að taka …
Konur sem eiga hvorki börn né maka þurfa að taka ábyrgð á eigin lífshamingju. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Kona skrifar Elínrós Líndal ráðgjafa bréf þar sem henni gengur vel í lífinu en henni finnst samfélagið ekki samþykkja hana þar sem hún á ekki mann og börn. Hún biður um leiðir til að snúa við þessari hugsun hjá sér.

Sæl,

Ég er 30 ára kona og útskrifaðist með mastersgráðu úr háskóla fyrir nokkrum árum. Mér gengur mjög vel í lífinu, er í góðri vinnu og á mína eigin íbúð. Samt finnst mér ég fá þau skilaboð frá samfélaginu að ég sé ekki búin að afreka neitt í lífinu þar sem ég á hvorki mann né börn. Ég fór á reunion nýlega og flest bekkjarsystkini mín töluðu um börnin sín og barnauppeldið og ég skammaðist mín næstum fyrir að eiga ekki börn. Hvernig sný ég þessari hugsun við hjá sjálfri mér? Eða þarf ég bara að eignast börn og mann til að samfélagið samþykki mig?

Kveðja, T

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar.

Takk fyrir gott erindi og til lukku með lífið og þig!

Besta leiðin til að snúa þessari hugsun við er að spá bara ekkert í hvað aðrir eru að gera. Ég veit að þetta hljómar eins og ekkert mál. Ég átta mig hins vegar á að þetta er vinna. Hvert aldursskeið hefur samt sinn sjarma og ég get sagt þér af eigin reynslu að áratugurinn sem þú ert á var þannig hjá mér að ég var mikið að spá í hvað aðrir voru að gera. Á fertugsaldri var ég aðeins minna meðvituð og nú á fimmtugsaldri gæti mér ekki verið meira sama. 

Konur í þinni stöðu hafa það gott. Rannsóknir sýna það þó samfélagið sé aðeins á eftir með þessa hugsun. Ástæðan fyrir því að sjálfstæðar konur eru hamingjusamar er sú staðreynd að þið áttið ykkur á því að þið haldið á lyklunum að eigin lífshamingju. Ekki maðurinn ykkar eða börn. 

Þið takið ábyrgð á ykkur. Þið sofið að jafnaði lengur en kynsystur ykkar sem eru giftar/í sambúð og eiga börn. Þið sinnið áhugamálum ykkar, eruð lengur í ræktinni og fleira sem konur hafa minni tíma í sem eru að lifa kynhlutverk sitt á heimilinu. 

Að sjálfsögðu líður ykkur vel! Hverjum myndi ekki líða vel í ykkar stöðu?

Ætli samfélagið sé samt ekki bara að setja athyglina á mikilvægi þess að við höldum við kynstofni okkar. Að við séum í nánum tilfinningalegum tengslum hvort við annað og kannski má hugsa hlutina á aðeins annan hátt.

Þú ert ein og ert sátt við það. Síðan er til kona sem er kannski alltaf á föstu, hún fær eflaust einhverjar athugasemdir hvað kærastinn hennar heitir í þetta skiptið. 

Ég trúi því að gullni meðalvegurinn sé að lifa tilganginn sinn en að maður geti verið í góðu sambandi líka. Ef þig langar í samband einn daginn áttu alveg að geta gert það án þess að missa sjálfstæði þitt eða hamingju.   

Það ætti engin kona eða maður að þurfa að fórna sér fyrir samband. Það er mikið verið að tala um tilfinningalega vinnu í þessum skilningi. Hvernig sem dæmi margir karlar hætta að vinna í sér þegar þeir hafa eignast konur, enda af hverju að borga fyrir ráðgjöf þegar maður hefur ókeypis ráðgjafa heima?

Þessi tilfinningalega ábyrgð (emotional labour), sem konur virðast vera að taka á maka sínum og börnum. Það að lifa kynhlutverkið kona heima og fleira virðist hafa áhrif á samkeppnishæfni kvenna á vinnumarkaðnum.

Góð mörk og heiðarleiki og sú hugsun að báðir aðilar í sambandi taki ábyrgð á sér er alltaf þessi gullni meðalvegur að mínu mati. Hið heilbrigða samband sem er laust við meðvirkni, stjórnun og undanlátssemi.

Það eru engar hindranir. Þú þarft ekki samþykki samfélagsins til að líða vel með þig. Farðu bara þinn veg og þá fer allt vel. 

Gangi þér vel. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is