Dóttir mín þarf að fá lánaða peninga fyrir mat

Íslensk kona hefur áhyggjur af dóttur sinni því hún þarf …
Íslensk kona hefur áhyggjur af dóttur sinni því hún þarf ítrekað að fá lánaða peninga fyrir mat.

Alma Haf­steins­dótt­ir fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi með sér­hæf­ingu í spilafíkn svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. 

Sæl Alma

Mig langar að spyrjast fyrir varðandi tengdason minn. Dóttir mín og hann hafa verið saman í að verða 8 ár og eiga tvö yndisleg börn. Þau keyptu sér íbúð fyrir 4 árum en nú virðist allt komið í hnút hjá honum þegar kemur að fjármálum. Hann starfar hjá stóru virtu fjármálafyrirtæki og er með mjög góð laun. Dóttir mín starfar sem heilbrigðisstarfsmaður og er með ágætis laun. Ég veit ekki kannski í smáatriðum þeirra fjárhagslegu stöðu en síðustu 1-2 ár hefur dóttir mín verið að fá lánaða peninga hjá mér og er það þá fyrir mat og útgjöldum. Hún hefur þó sagt mér að hann sé að stunda fjárhættuspil og fyrst gat hún borgað mér tilbaka það sem hún fékk lánað, en hann virðist eyða öllum launum sínum í þessi fjárhættuspil núna.

Hún hefur einangrast með börnin sín og þau eru alveg hætt að koma og eyða tíma með okkur fjölskyldunni. Hún vill sem minnst tala við mig um hvað sé í gangi hjá þeim og ég upplifi að hún sé að leyna mig hve alvarleg staðan er orðinn. Mig grunar að þau séu komin í vanskil með íbúðarlánin og þau voru að selja bílinn sinn til að losa peninga og eru komin á ódýrari bíl.

Ég sé og finn mun á börnunum og svo virðist sem streita og álag sé farið að taka toll af þeim. Eldra barnabarnið er hætt í fótbolta og ég bauðst til að borga fótboltann en hún afþakkaði. Hún ræddi við mig fyrst til að byrja með að eina sem hann gerði væri að vinna og svo vaki hann heilu og hálfu næturnar  og væri í símanum. Einnig talaði hún um að hann væri alveg hættur að eyða tíma með þeim. Mínar áhyggjur eru hvort hann sé búinn að missa tökin á fjárhættuspilum sínum og hvað sé þá í stöðunni fyrir dóttur mína?

Hún er varla í stöðu til að sjá fyrir þeim og standa undir fjárhagslegum skuldbindingum þeirra. Er eitthvað sem við getum gert til að hjálpa henni?

Bestu kveðjur,

M

Alma Hafsteinsdóttir er fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn.
Alma Hafsteinsdóttir er fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn.

Sæl M

Takk fyrir fyrirspurnina. Þetta hljómar eins og hann eigi við verulegan spilavanda að etja. Það er því miður mjög algengt að maki reyni hvað hann geti til að fela og laga ástandið og fyrst til að byrja með lítur spilavandi út eins og hver annar fjárhagsvandi. Fólk sem glímir við spilavanda gerir sér yfirleitt ekki grein fyrir raunstöðunni og þá hve miklum fjármunum og tíma viðkomandi er að eyða í fjárhættuspil. Í ykkar tilfelli smitast makinn, dóttir þín, einnig af þessum óraunhæfu útskýringum þ.e. hver raunstaðan er. Miðað við hjón í góðum vinnum og tvö börn ættu þau að hafa það nokkuð gott miðað við tekjur og ekkert annað sé að hrjá þau. Ef annarr aðilinn er að spila fjárhættuspil og öll launin fara í það er mjög eðlilegt að fjárhagurinn gangi ekki upp. Fyrstu merki þess að spilavandi sé að gera vart við sig eru fjárhagserfiðleikar og einstaklingar einangra sig. Hættir að geta gert grein  fyrir fjarveru þ.e. í hvað tíminn fer og jafnvel hverfur og ekki næst í viðkomandi. Dóttir þín er mjög líklega að reyna að fela eða draga úr alvarleikanum sem blasir við. Oft er þetta líka vanmáttur, viðkomandi er að reyna allt sem í hans valdir stendur að ná tökum á vandanum og hjálpa og laga. Með því að reyna að leysa úr þessu þeirra á  milli telur hún sig hugsanlega vera að koma í veg fyrir að hann verði fyrir skömm og sektarkennd.

Engu okkar geðjast að því til að byrja með að opinbera spilavanda okkar eða okkar nánustu og vonum að um næstu mánaðarmót lagist ástandið eða næst þegar viðkomandi vinnur háa upphæð þá reddist þetta allt. En því miður er það svo að þegar einstaklingur er búinn að missa tökin á spilavanda sínum eru nánast engar líkur á bata nema leita sér aðstoðar, hætta alfarið og helst að upplýsa sína nánustu um umfang vandans. Það hefur gefið bestan árangur spilafíkla að fjölskyldan taki þátt í bataferlinu og allir geri sér grein  fyrir að um sjúkdóm sé að ræða. Fyrsta skrefið sem þú getur tekið er að fá dóttur þína til að ræða við þig um vandann og hvernig henni líður. Hvernig ástandið sé heima fyrir og láta hana vita að þú viljir hjálpa henni, ekki dæma hana. Hægt er að fara á fjölskyldunámskeið og eins er hægt að fara í fjölskylduráðgjöf. 

Sjá upplýsingar um fjölskyldunámskeið: https://www.spilavandi.is/adstandendur 

Mikilvægt er að afla sér upplýsinga um spilafíkn, því miður halda enn margir að um hegðunarvanda sé að ræða eða að viðkomandi sé óábyrgur í fjármálum– svo er ekki. Ef hún er tilbúin að ræða við þig og fá aðstoð þá er mjög mikilvægt fyrir hana að kynna sér Gam anon sem eru sambærilegir fundir alanon og sækja þá. Ef tengdasonur þinn vill ekki aðstoð eða er ekki tilbúinn viðurkenna vandann er mjög lítið hægt að gera, því miður. Ef spilafíklar vilja ekki hjálp eða sjá og upplifa ekki að eitthvað sé að þá er yfirleitt bara spurning um tíma hvenær þeir byrja að spila aftur og því miður byrja þeir þar sem frá var horfið. Spilafíkn gengur ekki til baka og verður bærilegri þvert á móti versnar hún með tímanum. Ég vona að þú náir til dóttur þinnar og barnabarna því að búa með virkum spilafíkli er ástand sem tekur verulega á og langtíma áhrifinn eru streita, álag og vantraust svo fátt eitt sé nefnt.  

Kær kveðja, 

Alma Hafsteinsdóttir ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ölmu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál