Geta fengið 2 ára fangelsisdóm fyrir eggjakast

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA.
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA.

Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá lesenda varðandi eggjakast helgarinnar. 

Sæll Sævar

Um helgina hentu fylgjendur áhrifavalda eggjum í hús Bóelar Guðlaugardóttur fyrir mistök því eggin áttu að fara í hús Lilju Katrínar Gunnarsdóttur ritstjóra DV. Gilda einhver lög um eggjakast í heimili? Er það refsivert?

Kær kveðja, 

Solla 

Lilja Katrín Gunnarsdóttir ritstjóri DV.
Lilja Katrín Gunnarsdóttir ritstjóri DV. Ljósmynd/Aðsend

Sæl. 

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er eignarrétturinn friðhelgur. Af því leiðir m.a. að spjöll á eignum manna stríða gegn friðhelgi eignarréttarins og eru þar af leiðandi refsiverð og bótaskyld. Um eignaspjöll er fjallað í 257. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940. Viðurlög við eignaspjöllum samkvæmt ákvæðinu eru sektir eða fangelsi allt að 2 árum. Undir hugtakið eignaspjöll geta fallið tilvik eins og veggjakrot og eggjakast auk annarra spjalla og skemmda á eignum. Beinist árásin öðrum þræði að persónu húsráðanda þá kemur til skoðunar hvort brotið geti einnig verið heimfært undir ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Kemur þar helst til skoðunar hvort í verknaðinum felist ærumeiðingar í athöfn í skilningi 234. gr. almennra hegningalaga ellegar hótun í skilningi 233. gr. sömu laga. Í sumum tilvikum getur verið að háttsemin falli líka undir húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningalaga en samkvæmt dómaframkvæmd heyrir undir ákvæðið m.a. að ryðjast heimildarlaust inn á lóð eða inn í garð.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR. 

mbl.is