Ekki séð aukningu í sölu á ananas á Nesinu

Fólk hefur ekki hlaupið til og keypt ananas að sögn …
Fólk hefur ekki hlaupið til og keypt ananas að sögn verslunarstjóra Hagkaupa á Eiðistorgi. mbl.is/Colourbox

Enric Már Du Teitsson, verslunarstjóri Hagkaupa á Eiðistorgi, hefur ekki séð aukningu í ananassölu eða aukna umferð um ávaxtadeildina. Hann segist þó hafa tekið eftir meiri umræðu um ananasinn sem hann er með í sölu á samfélagsmiðlum eftir að rithöfundurinn Auður Jónsdóttir opinberaði makaskiptaklúpp Seltirninga á Twitter. 

Í samtali við mbl.is telur Enric að mögulega sé fólk frekar ragt við að kaupa sér ananas akkúrat núna ef eitthvað er. Það vilji kannski ekki láta bendla sig við swing-klúbb. Annars er rólegur tími í versluninni eftir hátíðarhöld landsmanna um jól og áramót. 

Rétt er að taka fram að umræddur makaskiptaklúbbur hittist á ákveðnum tíma í vikunni svo líklega hefur enn ekki reynt á fjöldaaukningu. Leikarinn Gísli Örn Garðarsson var að minnsta kosti ekki með heppnina með sér þegar hann var sá eini sem sýndi ananasnum áhuga í Hagkaupum í gær.  

Hinir ýmsu aðilar hafa lagt sitt til málanna. Ríkiskaup bendir til að mynda á á Facebook-síðu sinni að til sé rammasamningur um ávexti. 

„Vantar þig ananas? Þá er gott að vita að til er rammasamningur um ávexti, ferska og frosna,“ stendur á Facebook-síðunni og fylgir hlekkur með. 

Ekki er vitað hvort Ríkiskaup vilji með þessu nota myndmál og vinsamlega benda á góðar reglur sem megi nýta í makaskiptapartíum eða hreinlega auglýsa starfsemi sína. 

mbl.is