Nágranninn fékk sér hund í leyfisleysi - hvað er til ráða?

Maðurinn í blokkinni er ósáttur við að nágranninn hafi fengið …
Maðurinn í blokkinni er ósáttur við að nágranninn hafi fengið sér hund eftir að hafa fengið neitun frá nágrönnum sínum. Hvað er til ráða? Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA hjá Sævar Þór & Partners svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem býr í blokk og er ósáttur við hundahald nágranna síns. 

Hæ hæ!

Ég bý í fjölbýlishúsi. Nú hefur maðurinn sem á íbúðina fyrir ofan mig fengið sér hund. Hann er ekki með sérinngang og gengur með hundinn í gegnum stigaganginn. Áður en hann fékk sér hundinn spurði hann um leyfi í tölvupósti en fékk neitun. Þar sem það er ágætlega hljóðbært fór það ekki fram hjá mér og fjölskyldu minni þegar hundur kom í blokkina fyrir nokkru. Í fyrstu sagðist íbúinn vera að passa hundinn en nú hefur komið á daginn að hann var að ljúga. Ég tek fram að eigandinn fékk ekki leyfi til að passa hund yfir nótt né óskaði eftir leyfi. Hundurinn hefur valdið nokkrum óþægindum. Við fjölskyldan heyrum í honum þegar við förum að sofa og stundum vöknum við við geltið í honum. Það er ljóst að almenn óánægja ríkir um veru hundsins meðal annarra íbúaðeigenda. Hvað er til ráða?

Bestu kveðjur

Maðurinn í blokkinni

Sævar Þór Jónsson lögmaður hjá Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður hjá Sævar Þór & Partners.

Sæll Maðurinn í blokkinni.

Af lýsingu þinni á atvikum málsins að dæma er ljóst að umræddur aðili hefur ekki leyfi til að hafa hund í íbúðinni. Hundahald í þéttbýli er almennt háð leyfi hundaeftirlits eða heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags. Í Reykjavík er til að mynda starfrækt sérstakt hundaeftirlit borgarinnar og á heimasíðu þess https://reykjavik.is/thjonusta/hundahald-og-hundaeftirlit er hægt að sjá lista yfir leyfi sem gefin hafa verið út. Þá er hundahald í fjöleignarhúsum almennt háð samþykki annarra íbúa og húsfélags, skv. 33. gr. a fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Þar sem samþykki hefur ekki verið veitt er ekki heimilt að hafa hund í íbúðinni. Ég myndi auðvitað hvetja ykkur í húsfélaginu til að ræða fyrst við viðkomandi og senda honum jafnvel formlegt erindi um að dýrahald í fjölbýlishúsinu sé ekki leyft og gefa honum frest til að koma dýrinu annað. Ef það gengur ekki þá er næsta skref að leita til hundaeftirlitsins hjá heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitarfélags og óska eftir því að þeir hlutist til í málinu þar sem viðkomandi íbúi hefur ekki heimild til að hafa hund í fjölbýlinu og jafnframt kanna hvort sótt hafi verið um leyfi eftirlitsins. Ég vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is