Auglýsti sjálfan sig á skilti og fékk stefnumót

Mark tók málin í sínar eigin hendur og það skilaði …
Mark tók málin í sínar eigin hendur og það skilaði sér. Skjáskot/Twitter

Hinn einhleypi Mark Rofe tók ansi djarfa ákvörðun fyrir Valentínusardaginn í ár og ákvað að auglýsa sjálfan sig á auglýsingaskilti. Það hefur klárlega borgað sig en Mark er búinn að skipuleggja eitt stefnumót.

Mark sem vinnur við markaðsmál greiddi um 70 þúsund íslenskar krónur fyrir skiltið sem var sett upp í miðborg Manchester. Sjálfur er Mark frá Sheffield en vildi að sem flestir sæu skiltið.

Í auglýsinguna setti hann vefsíðuna sína, DatingMark.co.uk, þar sem áhugasamar geta enn sótt um að fara á stefnumót með honum. Hann hefur fengið yfir tvö þúsund umsóknir. 

Í viðtali við BBC á föstudag greindi Mark frá því að hann væri búinn að skipuleggja stefnumót með einum umsækjenda. Hann vildi ekki mikið gefa upp um hina heppnu konu en sagðist vera stressaður og vonaðist til að þetta myndi ganga vel. 

Mark setti inn nokkrar myndir af sér á vefinn.
Mark setti inn nokkrar myndir af sér á vefinn. Ljósmynd/DatingMark.co.uk
mbl.is