Dreymir um sólpall - hvað er til ráða?

Íslenskan mann langar að byggja pall fyrir framan íbúð sína …
Íslenskan mann langar að byggja pall fyrir framan íbúð sína og leitar ráða hjá Sævari Þór lögmanni. Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem vill byggja sólpall við íbúð sína. 

Sæll Sævar. 

Ég er ekki í neinum deilum eða neinu slíku. Hins vegar er ég að velta því fyrir mér að byggja sólpall við íbúðina mína. Ég bý á jarðhæð í 6 íbúða fjöleignarhúsi sem allar hafa sérinngang. Efri hæðirnar tvær eru með svalir en jarðhæðin ekki. Þar er aftur á móti opnanlegt út í garð. Spurningin er sú hvað ég megi byggja breiðan pall? Ég hef heyrt að það sé til einhver regla um það og spilar þá svalastærð annarra íbúða inn í.

Kær kveðja, ÞG

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll ÞG. 

Meginreglan er sú að óheimilt er breyta notkun mannvirkis, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er hins vegar sérstaklega kveðið á um svokallaðar minni háttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi. Í e-lið ákvæðisins eru nefndar framkvæmdir er varða palla á lóð. Hvort hin fyrirhugaða framkvæmd sé undanþegin byggingarleyfi veltur á því hvers eðlis viðkomandi pallur kemur til með að vera en í e-lið framangreinds ákvæðis segir að pallur sem rís ekki hærra en 0,3 m frá yfirborði sé undanþeginn byggingarleyfi. Þá segir að pallur úr brennanlegu efni megi ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Sé framkvæmdin háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa verður ekki hjá því komist að sækja um leyfi hjá hlutaðeiganda leyfisveitanda.

Í spurningu þinni er þess getið að umræddur pallur verði reistur á lóð þinni í tilteknu fjöleignarhúsi. Almennt felst í slíku eignarhaldi einkaréttur til afnota og umráða yfir þeim hluta lóðarinnar sem aðrir verða að hlíta. Sú meginregla gildir hins vegar samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús að einstakur eigandi hefur almennt engar heimildir til að taka upp á sitt einsdæmi ákvarðanir um sameiginleg málefni eða gera ráðstafanir vegna hennar. Eiganda er einnig óheimilt á eigin spýtur að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota hluta sameignar. Í 8 gr. fjöleignarhúsalaga er mælt svo fyrir um að öll lóð hús falli undir sameign fjöleignarhúss nema þinglýstar heimildir kveði á um að það sé séreign. Sé um séreign að ræða kann að vera nauðsynlegt að bera fyrirhugaða framkvæmd undir húsfund ef framkvæmdin er til þess fallin að hafa áhrif á útlits hússins og lóðarinnar. Verði um minni háttar útlitsbreytingu að ræða má telja að samþykki einfalds meirihluta yrði fullnægjandi, sbr. 3. mgr. 27. fjöleignarhúsalaga. Sé um hagnýtingu sameignar að ræða þá eru settar mun þrengri skorður en ella.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál