Ég er agalega hrifin af mági mínum

Konan getur ekki hætt að hugsa um mág sinn.
Konan getur ekki hætt að hugsa um mág sinn. AFP

Kona sem laðast að mági sínum leitar á náðir ráðgjafa The Guardian, Pamelu Stephenson Connolly. Hún vill fá að vita hvernig hún losnar við hugsanir um mág sinn.

„Vegna kórónuveiruheimsfaraldursins dvel ég á heimili látinnar tengdamóður minnar með eiginmanni mínum, bróður hans og eiginkonu hans og börnunum okkar. Í upphafi virtist þetta vera mjög góð hugmynd svo við gætum skipst á að vinna heimilisverkin og hugsa um börnin (tvö okkar eru enn að vinna fulla vinnu heima). En núna er ástandið orðið frekar óþægilegt fyrir mig því ég er gríðarlega hrifin af mági mínum. Ég vonaðist til að þessar tilfinningar hyrfu en þetta hefur bara versnað og á síðustu þremur vikum hef ég tekið eftir því að hann virðist vera smá skotinn í mér líka. Við eiginmaður minn stundum sjaldan kynlíf, af því hann hefur ekki áhuga á því, það byrjaði þegar yngri sonur okkar kom í heiminn. Þannig að ég er mjög stressuð um að eitthvað gerist eða aðrir í húsinu fatti straumana á milli okkar. Hvernig get ég lokað á þessar tilfinningar?“

„Undir venjulegum kringumstæðum eykst kynferðileg spenna á milli fólks þegar eitthvað kemur í veg fyrir að þið getið losað um hana, en núna blasir aukaáskorun við þér. Það er eðlilegt að leita uppi óveirutengd vandræði á svona tímum. Eins og margir aðrir dregstu ómeðvitað að einhverju sem þú getur haft stjórn á. Veittu þessu athygli og settu þér mörk. Gerðu þitt besta til að vera aldrei ein með mági þínum í herbergi. Hættu að leyfa þér að dagdreyma um hann. Styrktu bönd þín við eiginkonu hans og börn. Styrktu samband þitt við eiginmann þinn og reyndu að lífga upp á ástalíf ykkar. Einblíndu á börnin þín, búðu þér til rútínu, ræktaðu líkamann og róaðu hugann og einbeittu þér að því að halda fjölskyldunni þinni öruggri. Þetta mun líða hjá.“

mbl.is