Er hægt að færa íbúðina yfir á makann?

Ef annar aðili í hjónabandi hefur borgað af húsnæðislánum er …
Ef annar aðili í hjónabandi hefur borgað af húsnæðislánum er þá hægt að færa fasteignina yfir á viðkomandi? Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem er að velta fyrir sér eignaskiptingu og hvort hægt sé að færa allar eigur yfir á makann. 

Hæ Sævar. 

Hjón eru búin að búa í 50/50% húsnæði en langar til að láta flytja eignarrétt annars aðilans yfir á hinn, þannig að aðeins annar aðilinn er skráður eigandi, þar sem sá hefur greitt af öllum lánum og gjöldum í mörg ár. Hvað þarf að hafa í huga og hvernig er þetta framkvæmt?

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl,

Í grunninn er ferlið tiltölulega einfalt. Útbúið er afsal þar sem fram kemur hverju er verið að afsala, af hálfu hvers og til hvaða aðila. Þegar afsalið hefur verið undirritað er farið með skjalið til sýslumanns þar sem því er þinglýst. Greiða þarf stimpilgjald af skjölum sem varða eignaryfirfærslu fasteigna. Þó eru undantekningar frá þeirri reglu, t.d. vegna skilnaðar og andláts.

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga við við framangreinda ráðstöfun. Sem dæmi má nefna að í sumum tilfellum þarf að leita samþykkis veðhafa eða lánastofnunar fyrir hinu fyrirhugaða breytta fyrirkomulagi, t.d. ef breytingin hefur í för með sér breytingu á skuldarasambandinu við viðkomandi lánastofnun. Þá er jafnframt vert að hafa í huga að gjafir í peningum eða öðrum verðmætum eru almennt skattskyldar í hendi þess aðila sem þeirra nýtur. Örðugt er að fullyrða um skattskyldu umrædds afsalsgjörnings enda eru ýmis sjónarmið sem koma til skoðunar, t.d. frá hvaða aðila féð til kaupanna stafaði og framlög til eignamyndunar.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævar Þór póst HÉR. 

mbl.is