„Dóttir mín skammast sín fyrir mig!“

Ömmur eru einstaklega dýrmætar persónur og geta fært mikla þekkingu …
Ömmur eru einstaklega dýrmætar persónur og geta fært mikla þekkingu og færni yfir á kynslóðirnar sem eftir þeim koma. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er móðir og amma en er komin út í horn í fjölskyldunni vegna samskipta við dóttur sína. 

Sæl Elínrós. 

Ég er móðir, amma, fráskilin og bý ein í dag.

Samskipti mín við fullorðna dóttur mína hafa reynst mér erfið. Hún útilokar samskipti við mig, bæði hennar og barna hennar. Hún fyrirlítur mig og finnst ég bæði ógeðslega frek, feit og ómerkileg i samskiptum. Segist skammast sín fyrir mig og ég hafi alla tíð valdið henni skömm og kvíða. Þessi samskipti hafa komið mér út í horn í fjölskyldunni.

Ég hef dregið mig í hlé og forðast sársaukann og gef ekki færi á mér. Hef tekið þá ákvörðun að virða hennar afstöðu gagnvart mér. Hún hefur fullann rétt á að hafa sínar skoðanir á mér. Segist engin samskipti kæra sig um við mig fyrr enn ég sný við blaðinu. Veit ekki alveg hvað ég á að gera en finn að smám saman fjarlægist ég og sætti mig við engin samskipti. Ég stjórna ekki öðru fólki vil sýna börnum mínum og fjölskyldum þá virðingu að óska þeim velfarnaðar og hamingju hvort sem ég fæ að taka þátt í lífi þeirra eður ei.

Getur þú leiðbeint mér?

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands. mbl.is/Saga Sig

Sæl og takk fyrir að senda inn erindið þitt. 

Fjölmargar fjölskyldur hafa náð að snúa við mynstri eins og því sem þú lýsir með góðri faglegri aðstoð og þolinmæði. 

Ekki gefa upp vonina á því að ná til dóttur þinnar aftur og að sjálfsögðu áttu skilið að vera í góðum samskiptum við alla í kringum þig. 

Það er erfitt að koma með eitt gott svar út frá spurningu þinni, en það hefur vanalega gengið annsi mikið á í fjölskyldum þar sem svona mynstur hefur myndast.  

Sérfræðingar nota allskonar tæki og tól til að aðstoða fólk faglega áfram af þeim stað sem þú ert á. Það sem ég myndi leita í er persónuleg reynsla fagfólks af því að sameina fjölskyldur aftur. 

Ég myndi byrja á því að vinna í þér sjálfri og fara síðan í að byggja upp samband þitt við dótturina aftur. 

Nú er ég ekki að afsaka hegðun dóttur þinnar, en ég hef aldrei orðið vitni að því að kona loki á móður sína að gamni sínu. Við þurfum allar á mæðrum að halda. Það hefur vanalega gengið heilmargt á og þær hafa reynt af veikum mætti að setja mörk, tjá sig og síðan springa þær með setningar eins og þú lýsir hér að ofan. 

Hvað gerðist á milli þín og dóttir þinnar raunverulega? Hvað gerðist hjá þér persónulega? Finnst dóttur þinni eins og þú hafir gefist upp? Er hún að reyna að aðgreina sig frá þér af því hún er að endurupplifa áföll úr æsku í samskiptunum? Er dóttirin með vanda sem þú hefur reynt að stýra? Ert þú í góðu sambandi við móður þína?

Þetta eru allt spurningar sem góður ráðgjafi að mínu mati væri að spyrja þig að.

Ég lokaði tilfinningalega á móður mína í ein 20 ár. Ástæðan var sú að við misstum heimilið okkar þegar ég var 15 ára og þurfti ég þá að stíga skref út í lífið sem ég var ekki tilbúin undir.

Þetta var á þeim tíma þegar bjórinn var leyfður í landinu og mamma datt bara með báðar fætur ofan í tunnuna. Hún fór seinna í mikla lyfjaneyslu og notaði einmitt mat líka til að koma sér í gröfina. Þetta var of mikið fyrir mig að takast á við. Mér fannst ég alltaf þurfa að bera ábyrgð á henni og var svo ung að ég gat varla borið ábyrgð á sjálfri mér. En ég hafði reynt allt sem ég gat til að koma henni í bata og stundum notaði ég setningar eins og dóttir þín: Talaðu við mig þegar þú ert búin að snúa við blaðinu. Þú ert svo frek. 

Ég elskaði mömmu meira en allt. En ég kunni ekki að setja heilbrigð mörk, vera hamingjusöm og frjáls þrátt fyrir aðstæður hennar. 

Mamma hins vegar náði að snúa við blaðinu og tók ábyrgð á sér og sínu lífi. Þó ég hefði lokað á hana, þá lokaði hún aldrei á mig. Hún gafst aldrei upp- og í dag eigum við mjög fallegt og gott samband. 

Þolinmæði þrautir vinnur allar. Það tók okkur mömmu mörg ár að ná saman aftur. Í okkar tilviki voru allskonar aðilar sem komu að bata okkar. Meðal annars 12 spora samtök um meðvirkni sem ég leitaði til og 12 spora samtök um fíknivanda sem hún leitaði til. Þessi reynsla varð seinna til þess að mig langaði að aðstoða fjölskyldur að brúa bilið aftur, eins og við gerðum. 

Þessi vinna var svo sannarlega þess virði, því góðar mömmur og ömmur eru að mínu mati gulls ígildi. Þær kunna allskonar skemmtileg ráð, geta fært þekkingu og visku til þeirrar kynslóðar sem eftir þeim koma. Eins búa þær yfir mikilli þekkingu á ættarsögunni sem mér finnst áhugavert. Þær geta frætt fólk um styrkleika fólksins í fjölskyldunni og eins bent á veikleikana sem hægt er að vinna í svo þeir færist ekki á milli kynslóða.  

Gangi þér vel.

Kær kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is