Getur hver sem er gert erfðaskrá eða þarf lögmann?

Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu varðandi óskipt bú, fasteignir og lausafé. 

Halló! 

Ef hjón vilja með erfðaskrá jafna rétt barna (eitt barnið á annan föður) en vilja ennfremur að það sem lifir lengur sitji í óskiptu búi með allar eignir hjóna. Getur þetta líka átt við viðbótarlífeyrissparnað? Það er að um hann gildi sömu reglur um að sitja í óskiptu búi eins og um aðrar eignir svo sem fasteignir og lausafé? Þarf lögmann í að skrifa erfðaskrá eða er hægt að skrifa þetta með „sínum orðum“?

Kær kveðja, BB

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannstofuna Sævar Þór & Parners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannstofuna Sævar Þór & Parners.

Sæl BB. 

Í erfðalögum er fjallað um óskipt bú. Um er að ræða ótvírætt hagræði fyrir eftirlifandi maka hins látna en það nýtist eingöngu þeim sem var í hjúskap með hinum látna. Maki þarf að sækja um leyfi til setu í óskiptu búi en slíkt leyfi felur í sér að búskiptum er slegið á frest og makinn getur að meginstefnu til farið með búið sem sitt eigið. Það eru eingöngu hjúskapareignir hjóna sem tilheyra óskiptu búi meðal annars réttindi í opinberum lífeyrissjóðum og einkalífeyrissjóðum. Umræddur viðbótarlífeyrissparnaður myndi því almennt falla til óskipta búsins nema sérstakar heimildir standa til annars.

Þegar einstaklingur vill ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá er brýnt að orðalag hennar sé skýrt svo ekki fari á milli mála hver vilji viðkomandi hafi verið. Þegar skylduerfingjum (börnum og maka) er til að dreifa er arfleiðanda óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá. Þeim hluta sem heimilt er að ráðstafa má arfleiðandi ráðstafa að vild og má hann til dæmis auka arfshlut eins skylduerfingja eða jafna rétt annars aðila á kostnað samerfingja. Um erfðaskrár gilda strangari formreglur en um flesta aðra samninga sem gilda um frágang á sjálfri erfðaskránni og um vottun. Til að forðast allan vafa um gildi erfðaskrár mæli ég eindregið með því að þið berið hana undir lögmann.

Kveðja, 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, lrl, MBA. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is