Makinn ber ekki virðingu fyrir mér: Hvað get ég gert?

Það getur stundum verið freistandi að benda á annað fólk …
Það getur stundum verið freistandi að benda á annað fólk sem vandamál í samskiptum. Hins vegar þarf alltaf tvo til í hvert samband. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá einstaklingi sem er að leitast eftir virðingu frá maka sínum. 

Sælar.

Hvernig er hægt að fá maka sinn til að byrja á ný að bera virðingu fyrir sér? Öskra, hrópa og berja í borð? Að útskýra og tjá sig opinskátt hefur engin áhrif. Kannski er þetta bara búið.

Kveðja, X

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl. 

Ég þurfti að lesa spurninguna þína nokkrum sinnum yfir til að skilja hvað þú meinar. Ef til vill af því ég lít ekki á það sem valkost að fá virðingu frá fólki með leiðunum sem þú stingur upp á. 

Það sem ég mæli með að fólk geri þegar samskipti ganga illa er að það setjist niður með sérfræðingi og geri samning. 

Við sýnum ást í parasamböndum vanalega með því að standa við þær skuldbindingar sem við semjum um að gera við viðkomandi. 

Þegar góðir samningar eru settir inn í sambönd þá koma vanalega í ljós vankantar sambandsins. Við erum nefnilega flest mjög góð í að samþykkja samninga sem eðlilegt er að gera, en mjög margir sem bera ekki virðingu fyrir sjálfum sér og vita ekki hvað þeir vilja, eiga erfitt með að framkvæma það sem þarf að framkvæma í heilbrigðum samskiptum. 

Ef þú ímyndar þér góða kvikmynd; þá er hún vanalega ekki góð nema að hljóð og mynd fari saman. 

Ég myndi láta sérfræðing leiðbeina ykkur að þessu leyti og jafnvel taka nokkra paratíma með honum hvort í sínu lagi til að hann kynnist ykkur betur og skilji langanir ykkar og þrár. 

Samningur um sanngjörn samskipti ætti að vera jafn almennur í parasamböndum eins og leigusamningar, ráðningarsamningar þegar kemur að vinnu og svo mætti lengi áfram telja. 

Þá sér í lagi þar sem vísbendingar eru um að fólk getur veikst mikið líkamlega vegna andlegra kvilla og lélegra samskipta.

Fólk á ekki að nota samböndin sín til að meiða sig og aðra. Heilbrigð sambönd eru þannig að báðir aðilar vaxa af virðingu, ást og hamingju. Þau eru opin öðru fólki (vinum, börnum og fjölskyldu) og fela í sér nánd og berskjöldun. 

Í heilbrigðum samböndum þá líður þér eins og þú sért heima. En til þess að geta verið hluti af heilbrigðu sambandi þá þarf fólk vanalega að vinna hressilega í sjálfu sér. Það þarf tvo í hvert samband, svo af hverju ekki að taka helming ábyrgðarinnar?

Gangi þér alltaf sem best. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is