Hættur að þekkja fyrrverandi eftir skilnaðinn

Skilnaðir eru oftast mjög erfiðir. Sér í lagi þegar illt …
Skilnaðir eru oftast mjög erfiðir. Sér í lagi þegar illt umtal og átök verða í kjölfar þeirra. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karlmanni sem þekkir ekki barnsmóður sína lengur eftir skilnað. 

Sæl.

Ég og barnsmóðir mín skildum fyrir nokkru. Við skilnað vorum við bæði í háskóla. Hún brást ekki vel við skilnaðinum. Hún bjó til um mig ljótar og alvarlegar sögur, ærumeiðingar og ofbeldi af þeim toga að ég varð að hætta í háskóla þar sem við vorum saman í námi. Hún bjó líka til hræðilegar sögur um mig í samfélaginu okkar. Hún gerði það sama við sinn fyrrverandi maka og ég hef heyrt að hún búi til ljótar sögur um annað fólk sem eyðileggur mannorð. Af hverju hún gerir svona veit ég ekki. Ég elskaði þessa konu og gerði allt fyrir hana. Hún var mín eina sanna ást. Hún rústaði lífi mínu við skilnað, bæði félagslega og andlega, og braut mína í háskóla. Mér finnst eins og ég hafi aldrei þekkt hana, ástina mína sem ég eignaðist tvö yndisleg börn með. Þessi kona er vond, illa innrætt, lygin, jafnvel siðblind. Ég held í dag að hún hafi aldrei raunverulega elskað mig. Mér líður þannig. Í mér er mikill sársauki, vonbrigði og reiði. Hvernig gat hún gert mér þetta? Hún er eins og tilfinningalaus og ég hef ég heyrt að hún taki mikið af fíkniefnum (MDMA, kókaín, amfetamín og gras) og drekki mikið. Hún gerði það ekki í okkar langa sambandi.

Hvernig getur einhver rústað mannorði manns úti um allt? Hvernig getur persónuleiki hennar breyst svona? Hvernig getur móðir barna minna gert mér þetta? Um daginn var sagt við mig að það sem hún hefur gert mér myndu aðrir ekki gera sínum versta óvini. Hún hefur logið um mig, eyðilagt mannorð mitt, gert grín að mér og í raun hef ég aldrei í lífinu upplifað slíka illsku og siðblindu. Hún er djöfull í mannsmynd. Er hún andlega veik? Er hún siðblind? Hvernig getur mín fyrrverandi siðferðilega séð gert mér þetta? Á ég að kæra hana? Á ég bara að reyna að vinna mig úr þessu og reyna að halda áfram? Hvað á ég að gera?

Kveðja, X

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands. mbl.is/Saga Sig

Sæll X. 

Það er mjög erfitt fyrir mig að svara þessari spurningu nákvæmt þar sem ég veit ekki hvað kom upp á í ástarsambandinu ykkar og af hverju þið skilduð. Það skiptir miklu máli í mínum huga og getur oft útskýrt hegðun fólks eftir sambandsslitin. 

Ef konan þín er virk í fíkn eru viðbrögð þín mjög eðlileg. Allir þeir sem eiga maka sem verða virkir í fíkn velta fyrir sér hver þessi aðili er, hvað hafi verið raunverulegt í sambandinu og svo mætti lengi telja. 

Ég vil hvetja þig til að leita til sálfræðings og/eða ráðgjafa sem sérhæfir sig í áföllum, samböndum og meðvirkni svo eitthvað sé nefnt. 

Þar getur þú unnið í þér. Fengið verkfæri til að vera til staðar fyrir þig og börnin ykkar og greint og flokkað þitt líf. 

Eins eru til 12 spora samtök um meðvirkni sem eru öflug og hafa hjálpað karlmönnum í þinni stöðu að ná fullum bata, verða hamingjusamir, glaðir og frjálsir – sama hvað annað fólk segir og/eða gerir. Eins eru til 12 spora samtök um ástamálin. 

Það er ótrúlega margt sem þú getur skoðað og lært af gömlum samböndum. Spurningar eins og: Hvernig kom ég mér í þetta samband? Hvað kom upp í sambandinu? Hvaða skapgerðarbrestir mínir urðu til þess að sambandið þróaðist á þennan hátt? Hvað lét ég yfir mig ganga? Hvar fór ég yfir mörk makans? Hvað ætla ég ekki að gera aftur? Hvað vil ég taka með mér í næsta samband? Þetta eru allt góðar spurningar sem bæði aðstoða fólk við að taka ábyrgð og valdeflast eftir skilnað.

Sumir ná sér aldrei eftir erfiðan skilnað. Ég er á því að það geti allir notað erfiðar upplifanir í lífinu til að læra af, lifa með og verða sterkari. 

Ég hvet þig til að ræða þetta mál við sérfræðinga og taka ekki þátt í að breiða út sögusagnir um þig sem ekki eru sannar. 

Haltu þér í uppbyggilegri hollri hegðun, þar sem þú ástundar daglega hluti sem næra þig og efla. Sund, hollur matur, góður svefn og heilbrigðir einstaklingar geta gert kraftaverk á staðnum sem þú ert á.

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is