Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem skilur ekki svar við spurningunni.
Sæll.
Ég skil ekki alveg svarið við spurningunni - því það er á lagamáli en ekki íslensku.
Hvað er lífsgjöf og hvað er gjörningur? Og má þá gefa hversu mikið sem er fyrir andlát? Greiða þeir sem þiggja gjöfina skatta af henni? Er skattalega hagstæðara að fá gjöf fyrir andlát en að erfa sömu upphæð?
Kveðja, Gerður
Sæl Gerður.
Gjörningur er löggerningur eða eins og það er skilgreint í lögfræðinni, viljayfirlýsing sem ætlað er að stofna rétt, breyta rétti eða fella niður rétt. Dæmi um löggerninga eru samningar hvers konar, erfðaskrár og afsöl.
Lífsgjöf er gjöf, gefin í lifanda lífi, sem á að koma til framkvæmda meðan gefandinn er lifandi, ólíkt dánargjöf sem er loforð um gjöf sem ætlað er að koma til framkvæmda eftir andlát gefandans. Af dánargjöfum er greiddur erfðafjárskattur.
Lífsgjafir eru almennt skattskyldar sem tekjur en þó eru tækifærisgjafir undanskyldar svo lengi sem verðmæti þeirra er ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir. Engar takmarkanir eru í lögum um lífsgjafir og umfang þeirra og því hafa menn frjálsar hendur í þeim efnum.
Kær kveðja, Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR.