Á fertugsaldri og ennþá undir hælnum á foreldrum

Markmiðið er alltaf að geta sleppt og treyst fullorðnum börnum …
Markmiðið er alltaf að geta sleppt og treyst fullorðnum börnum sem eru að rata sinn veg í lífinu. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er að finna út úr sambandinu við foreldra sína. 

Sæl.

Ég finn mikinn mun á mér með árunum en ég er að styrkjast í samskiptum við fólk bæði í lífi og starfi. 

Það sem angrar mig er að ég á erfitt með náin samskipti  þá aðallega við mína nánustu fjölskyldu. 

Mér finnst þau vilja halda mér niðri og hafa mig eins og ég var á meðan mér líður eins og ég sé að færast nær markmiðum mínum og þroskast. 

Er þetta þekkt? Að foreldrar vilja halda í eitthvert samband, sem er óviðeigandi og jafnvel barnalegt? Er eðlilegt að þau vilji ennþá stjórna mér?

Er á fertugsaldri. 

Bestu, A.

Elínrós Líndal.
Elínrós Líndal. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar. 

Takk fyrir gott bréf. 

Mér finnst ekki í lagi að foreldrar láni fullorðnum börnum sínum dómgreind án þess að vera beðin um það. Enda er ég á því að ekkert okkar sé fullkomið heldur frekar í eins konar ferli. 

Náin samskipti geta verið flókin. Þú getur aldrei stjórnað öðru fólki en það er áhugavert að þú skoðir hvernig þér líður með að vera bara þú sjálf í öllum samskiptum. 

Það er fallegt að lesa að þú sért að vaxa og dafna, þroskast og breytast. Að þér gangi vel og sért að ná markmiðum þínum.

Ég er á því að fólk skyldi ekki eyða of miklum tíma í að vinna í samböndum við foreldra sína, sér í lagi ef það eru hlutir sem snúa að einkalífi þínu, vinnu, vinum og fleiru sem skiptir líka máli. 

Markmið foreldra ætti alltaf að vera að elska börnin sín fyrir hver þau eru, en ekki hvað þau gera eða segja. 

Náin samskipti geta verið flókin að því leytinu að fólk þarf að setja mörk og halda þeim út lífið. Heilbrigð mörk færast til og breytast á milli daga og tímabila. Það má skipta um skoðun og það má færa sig aðeins nær eða fjær samskiptum til að geta komið inn aftur á eigin forsendum. 

Ekki hika við að halda bara áfram að taka ábyrgð á þér og finna út í hvernig sambandi við foreldra þína þig langar að vera. 

Líf þitt er á þína ábyrgð og þú ert þinn eigin skemmtanastjóri og vinur. Þú þarft ekki annað fólk til að samþykkja þig. Ekki einu sinni foreldra þína þótt þau ættu að sjálfsögðu alltaf að vera í þínu liði.  

Gangi þér alltaf sem best,

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is