„Framhjáhald eða lausung virðist almennara en áður var“

Sigrún Júlíusdóttir.
Sigrún Júlíusdóttir.

Sigrún Júlíusdóttir prófessor emeritus við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands er með mikla reynslu af sögum sambanda í landinu. Hún segir Valentínusardaginn góðan dag, en ekki vettvang til að hafa langtímaáhrif á ástarsambandið. 

Sigrún sinnir rannsóknum og kennslu í Háskóla Íslands. Hún stofnaði meðferðarþjónustuna Tengsl ásamt fleirum árið 1982 og hefur frá upphafi starfrækt hana reglulega í hlutastarfi.

Sigrún segir að á seinni hluta síðustu aldar, þegar '68-hugarfarsbyltingin hafði sem sterkust áhrif, urðu mikil átök í fjölskyldum og í nánum samböndum, meðal annars um hvort konur gætu orðið sjálfstæðar innan ramma hjónabands.

„Þá jafnt og nú var varla hægt að tala um skuldbindingu, lauslæti og ást öðruvísi en að tengja það menningu og samfélagi. Í flestum samfélögum ríkja líka ákveðnar hugmyndir og gildi varðandi mannleg samskipti og náin tengsl. Nú á 21. öldinni ríkja líka allt aðrar hugmyndir um trúnað, gildi varanleikans og um lauslæti en á fyrri öldum. Rannsóknum og klínískri reynslu ber sem dæmi saman um að framhjáhald eða lausung virðist almennari en áður var, bæði meðal karla og kvenna.

Sigrún á að baki fjölbreyttan starfsferil, fyrst við félagsþjónustu og barnavernd, síðar geðheilbrigðis-þjónustu og á sviði réttarfélagsráðgjafar. Hún var yfirfélagsráðgjafi á geðdeild Landspítalans um 20 ára skeið áður en hún tók við akademískri stöðu og uppbyggingu náms í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.

„Auk meðferðarstarfs og handleiðslu fagfólks á einkastofu sinni ég lítilsháttar kennslu í HÍ og vinn núna að undirbúningi 3ja missera diplómanáms í handleiðslufræðum fyrir reynt fagfólk. Á haustmánuðum kom út hjá Háskólaútgáfunni bókin Handleiðsla – til eflingar í starfi sem ég ritstýrði.

Aðalverkefni    mitt núna  er þó annað. Það er innleiðing  á nýju  úrræði til forvarnar í  skilnaðarmálum: SES-Samvinna eftir skilnað- barnanna  vegna. Verkefnið fellur vel  að hugmyndum og niðurstöðum  sem voru kynntar  í  bók  okkar Sólveigar Sigurðardóttur , 2013, Eftir skilnað.  Um foreldrasamstarf og kynslóðatengsl. Sólveig er  líka  félagsráðgjafi  og með sérfræðiþekkingu í skilnaðarmálum  m.a. frá Svíþjóð. Í bókinni greinum við frá niðurstöðum  rannsóknar okkar á fjölskyldu-og kynslóðatengslum eftir skilnað.  Í bók okkar  Nönnu K. Sigurðardóttir frá 2000, Áfram  foreldrar, segjum við frá rannsókn  um sameiginlega forsjá þar sem niðurstöður eru tengdar  við löggjöf  og alþjóðlegar rannsókni,  m.a. um gildi  “ góðs skilnaðar” og foreldrasamstarfs fyrir velferð  barna.

Við Gyða Hjartardóttir, félagsráðgjafi og sérfræðingur í málefnum barna  hjá Sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu, höfðum  kynnst  þróun SES- úrræðisins  í  Danmörku og efndum til samstarfs  um innleiðingu þess á Íslandi í  samvinnu  við félags-og barnamálaráðherra. Við  vinnum  núna að framkvæmd  á innleiðingu   þjónustunnar   hjá átta  sveitarfélögum  á Íslandi en  markmiðið er  að hún verði veitt á landsvísu,  þannig að  foreldrar  í öllum  sveitafélögum  eigi aðgang að þessari  þjónustu.  Við höfum  nú nægilegan þekkingargrunn úr  skilnaðarrannsóknum á foreldrum og börnum og vitum í raun allt sem  skiptir  máli  til að skilnaður fái ekki  niðurbrjótandi áhrif  í  fjölskyldu  og nái ekki að skaða  börn á ólíkum, misjafnlega  viðkvæmum- þroskaskeiðum. Við vitum líka  að það er ekki skilnaðurinn sem slíkur sem getur valdið mestum sársauka og áfalli fyrir  börn heldur  er  það hvernig staðið er að öllu ferlinu, frá ákvörðun til umbreytinga  og nýrrar  aðlögunar. Með SES-úrræðinu  sem  er  útbúið í rafrænu formi,   geta foreldrar  nýtt sér  nýjustu þekkingu  um bæði hugsanlega skaðsemi   skilnaðar-  bæði fyrir fyrir  börnin og þá fullorðnu - og möguleika  á markvissu  foreldrasamstarfi  þar sem foreldrar  fá verkfæri  til  að aðgreina  fyrri átök  sín, ágreining og deilur og leggja þau  til hliðar til hagsbóta fyrir uppbyggilegt foreldrasamstarf,  eftir  skilnað, barnanna  vegna.   

Gyða Hjartardóttir og Sigrún Júlíusdóttir.
Gyða Hjartardóttir og Sigrún Júlíusdóttir.

Telur alla þurfa einhvers konar nánd

Sigrún er ekki með ákveðna skoðun á ástarsamböndum en hefur þekkingu á þeim og sækir í reynslubrunn sem hefur mótast á þeim áratugum sem hún hefur starfað með

fjölskyldum, pörum og hjónum.

„Ég get þó sagt kannski meira sem tilvistarlegt sjónarhorn, að hver mannleg vera þarf að eiga sér einhvers konar nánd við aðra manneskju. En, jafn mikils virði og það er að vera tengdur annarri mannveru þá er það líka ein forsenda persónuþroska og vellíðunar að geta verið aleinn með sjálfum sér, verið sjálfum sér nógur og tekið ábyrgð á tilvist sinni.“

Hún segir að í allri meðferðarvinnu sé það foresenda að hafa traustan fræðilegan grunn til að byggja á, en að það eitt og sér sé ekki nóg.

„Meðferðaraðili þarf auk starfsþjálfunar undir handleiðslu að læra að þekkja sjálfan sig til að geta beitt sér sem verkfæri. Þá er rýnt í eigin nálgun og sótt bæði í persónulega reynslu og mótunaráhrif frá öðrum. Þess vegna er þess krafist í meðferðarréttindanámi að hafa sótt eigin námsmeðferð (e. training therapy) þar sem rými fæst í traustu meðferðarsambandi til að greina sína eigin persónu, tengslamynstur, sársauka, vonbrigði og sigra auk þess að átta sig á eigin þroskagloppum og varnarháttum. Þannig er hægt að verða meðvitaður um tilfinningar og viðbrögð sem oft geta nýst óbeint í meðferðarvinnu með öðrum en líka hvernig stundum þarf að halda þeim vel aðgreindum og hafa þjálfað næmi fyrir hvað á við og hvað getur verið óviðeigandi. Þessi aðgreining persónulega sjálfsins og fagsjálfsins er jafnframt hjálpleg til að geta skilið á milli, aðgreint, og samnýtt meðvitað eigin tilfinningar og sett því mörk um leið, þannig að skerpa og sköpun haldist.“

Gerir mest gagn í náinni meðferðarvinnu

Málin sem Sigrún vinnur með eru margvísleg.

„Áhersla mín hefur þróast gegnum árin. Mest gagn finnst mér ég gera í náinni meðferðarvinnu með einstaklingum sem eru að fást við þroskahindranir og flókna, oft erfiða reynslu. Það er mikil tilfinningavinna. Fátt er eins gefandi og að sjá manneskju losna undan gömlu hnútafari og þroskahöftum, að finna og þróa eigin „stjórnstöð“, „locus of control“. Það veitir ekki bara styrk heldur líka frelsi til að rækta ábyrgð á eigin hamingju, „velja“ sér leið og vinna og lifa eftir því. Að geta þannig fundið auðlindina í sjálfum sér og náð að blómsta, hvort sem er sem einstaklingur, foreldri eða í parsambandi, vinnur oftast saman og myndar heildaráhrif.

Það er öðruvísi að vinna með parasambönd, en ekki síður mikil áskorun. Þar kemur líka námið í einstaklingsmeðferð að góðu gagni. Stundum þurfa pör að vinna sérstaklega með sig sjálf, aðgreint eða samhliða paravinnunni. Það fer eftir eðli vandans og trausti sambandsins. Parsambandið er að vissu marki sjálfstæð eining, lífvera sem vex og þroskast líkt og einstaklingur, fer í gegnum lífsskeiðaátök og verkefni þeim tengd. Á öllum skeiðum skiptir miklu að átta sig á stöðunni, eins og ferðamaður í náttúrunni. Að vega og meta færar leiðir, sjá möguleika, styrkja eða breyta um búnað og stíl. Hér kemur sem dæmi hugtakið hjónabandssamningur (e marital contract) til sögunnar. Hann er oft ómeðvitað kerfi sem parið vinnur eftir og sækir sér upplýsingar um mörk og viðmið. Þegar verkefni, heilsa, þarfir og langanir breytast á lífsskeiðunum er hjónabandssamningur sú grunnlína sem þróunin hefur breytt og hægt er að hefja endursköpun á eftir breyttum forsendum. Þarna koma oft til hugmyndir um sjálfstæði, tryggð og rými, sem snerta viðhorf til ábyrgðar, jafnræðis og einstaklingsfrelsis.“

Sigrún segir nýja lífs- og starfshætti eiga sinn þátt í því að fólk lifir fjölbreytilegra lífi og verður stöðugt fyrir nýjum áreitum og áhrifum. Möguleikarnir geta verið ógnandi og við þannig aðstæður reynir á stöðugleika og trúnað á allt annan hátt en áður.

„Tætingslegur lífsstíll og framandi samfélagsáhrif róta upp gömlum gildum og skapa óöryggi um sjálfstæða forgangsröðun í persónulegu lífi.

Þróun nándar og mannlegra samskipta hefur líka breyst á djúpstæðan hátt með aukinni tækni, rafrænum tengslum bæði í einkalífi, starfi og á vefmiðlum. Mörkin verða óljós og óörugg og margs konar efasemdir um tilfinningalegar og persónulegar skuldbindingar knýja á. Þetta birtist í hátæknivæddum samfélögum sem ótti við snertingu og nánd, en nýlegar tölur frá t.d. Japan sýna ugg og óöryggi ungs fólks gagnvart kynlífi og fjölskylduskuldbindingu. Fólk býr eitt í vaxandi mæli, velur að eignast ekki börn eða skýtur á frest slíkum skuldbindingum og þeim tilfinningalega krefjandi verkefnum sem þær geta falið í sér.“

Hvaða áhrif hefur það haft á þig í gegnum árin að fást við sambönd, samskipti og ástina?

„Það hefur haft mikil áhrif á viðhorf mín og sýn, meðal annars um hve miklu það skiptir að rýna í eigin uppvöxt og mótun. Hvernig fyrstu tengsl leggja grunninn að því hversu auðveld eða þyrnum stráð vegferðin áfram verður.

Ég hef séð betur og betur gildi sannreyndra tengslakenninga um hvernig ákveðin tengslamynstur mótast út frá frumtengslum til fullorðinsára. Stundum er talað um tengsl barns og foreldris, eða umönnunaraðila, sem fyrstu ástina, fyrsta parið, eða fyrstu parmyndunina (e. first couple). Þessi frumtengsl eru undirstaðan fyrir hæfni einstaklings til að geta myndað náin tengsl, notið og sýnt fölskvalaust traust til annarra síðar meir, en í því felst líka að geta tekið við og tjáð ást og kærleika. Þess vegna vitum við nú hvers virði það er að foreldrar eigi möguleika að styrkja samband sitt á meðgöngu og á fyrstu þroskaárum barnsins. Það er því ánægjulegt að fagfólk og ungir verðandi foreldrar leita nú leiða með margvíslegum hætti til að efla þessa áherslu.“

Ástin er afl lífsins

Hvernig skilgreinir þú ást?

„Í stuttu máli er ástin í upprunalegu merkingunni afl lífsins, „jáið“, lífs- og kynhvötin, afl gleðinnar, hins góða, jákvæða, frjóa, uppbyggilega − líbídó. Hið gagnstæða er afl dauðans, „neiið“, dauðahvötin „death instinct“, afl hins neikvæða og illa, eyðileggingar og niðurrifs. Að bera jákvæðar tilfinningar til annarrar manneskju og finna hið sterka uppbyggilega afl beinast að henni er lífsneistinn og forsenda þroskaðra tengsla. Þetta ber í sér aðdráttarafl − andlegt og tilfinningalegt, líkamlegt og kynferðislegt.

Hið góða er hlý næring úr brjósti eða faðmi móðurinnar, en andstæða þess er vonskan, höfnunin. Ungbarnið þroskast síðan af stöðugum og nánum tengslum sem veita stundum unað en stundum andbyr frá sömu manneskju. Heilbrigður einstaklingur, sá sem er fær um að höndla ástina, lærir að ráða við hvort um sig, aðlagast og geta fundið það samræmast í sömu persónu.

Þannig er ást foreldris til barns og síðan tengsl foreldris og barns líklega frumástin (e. first couple) og hún er forsenda þess að geta upplifað aðra ást; að gefa og taka við í öðrum tengslum. Samskiptafræðingurinn Erik H. Erikson fjallaði um þetta afl sem nánast meðfædda, eðlislæga eða líffræðilega (foreldra) hvöt (e. generativity) sem við greinum bæði hjá mönnum og dýrum. Þegar ekki næst að rækta þessi tengsl innan fjölskyldu eða þegar samfélagsáhrif stuðla að firringu í nánum tengslum, vináttu og öðrum mannlegum samskiptum, þá er það beinlínis ógn við ást og hamingju.

Nýjustu rannsóknir um pörun og makaval beinast að taugalíffræðilegum efnaboðskiptum og þætti þeirra í kviku og kjarna ástarinnar. Ég tel að þessar rannsóknir geti leitt okkur áfram og jafnvel auðveldað fólki afdrifaríkar ákvarðanir þegar tilfinningar blossa og spennu augnabliksins er teflt gegn skynsemi og daufum tónum hins örugga og venjubundna hverdagslífs. Þessu fyrirbæri er lýst á áhrifaríkan hátt í nýjustu skáldsögu Sigríðar Hagalín, Eldarnir.“

Ekki ást að vanvirða og misnota

Hvað er ekki ást að þínu mati?

„Það er í raun og veru einfaldlega ekki ást að láta sig ekki varða annað fólk og að vanvirða eða misnota mannleg tengsl og þarfir þeirra sem eru í stöðu hins minni máttar bæði í þröngri og víðari merkingu.“

Hvað ættum við öll að hugsa og jafnvel gera fyrir Valentínusardaginn?

„Ég hef ekki mikla trú á einstökum dögum til að ná raunverulegri vellíðan til lengri tíma. Hins vegar má nota slík tækifæri til að glæða upp minningar um verðmæti fyrri gleði og vellíðunar; með ýmsum tilfinningalegum gjöfum, örlæti og tilbreytingu. Þótt það sé „banalt“ að segja það þá getur hugsunin sem þar liggur að baki oft kynt upp í ofninum á ný og sáð nýjum fræjum til betra samlífs. Það getur vart skaðað nema þegar markaðurinn skerst of skarpt í leikinn.“

Sigrún segir erfitt að alhæfa um sambandsstöðu landsmanna, en það sé margt í menningu okkar og sögu sem hefur búið okkur út með þannig arf að við getum sýnt seiglu og þol þegar á reynir.

„Ef við missum þá söguvitund og tilfinninguna fyrir gildi tengsla og samvista með eldri kynslóðum eða ef skilningur okkar á aðstæðum og lífskjörum annars fólks dofnar þá rýrnar innistæðan í þessum menningararfi og við stöndum ráðalausari eftir. Ég held að margir af styrkleikum okkar í dag speglist í vaxandi vitund ungs fólks um gildi fjölbreytileikans og örlætis gagnvart bágstöddum samfélögum. Við erum aflögufær.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál