Sér ekki fram á bylgju skilnaða

Þórhallur Heimisson rithöfundur og prestur
Þórhallur Heimisson rithöfundur og prestur mbl.is/Árni Sæberg

Þórhallur Heimisson, hjónabandsráðgjafi og prestur, segist ekki sjá fram á að tíðni hjónaskilnaða muni aukast eftir að heimsfaraldrinum lýkur. „Ég er alltaf bjartsýnn. Skilnaðartíðnin hefur verið um 35% í tugi ára og verður það örugglega áfram. Ég held við verðum líka fljót að gleyma heimasetunni, heimavinnunni og einangruninni og öllu því,“ segir Þórhallur í samtali við mbl.is. 

Þórhallur hefur haldið hjónanámskeið í um 25 ár og unnið með hjónum og pörum við að bæta sambandið og finna leiðir til að láta hlutina ganga upp. Í september mun hann halda tvö kvöldnámskeið. 

„Megininntak hjónanámskeiðanna alveg frá því að ég byrjaði með þetta starf hefur alltaf verið það sama í raun; að hjálpa pörum að sjálf skoða sitt líf, rifja upp hvað það er sem skiptir mestu, horfast í augu við þau vandamál sem þau eru að glíma við, og finna síðan saman leiðir til að leysa þau og gera sambandið betra og sterkara. Þess vegna er engu stungið undan. Við tölum um allt: álagspunkta í sambandinu, þreytu, ósætti, áhyggjur, fjármálin, barnauppeldið, áfengisvandann, kulnun, kynlífið, framhjáhald,  en auðvitað líka um gleðina, ástina, samstöðuna, vináttuna og hamingjuna,“ segir Þórhallur spurður um megininntak námskeiðanna.

Þórhallur hefur ekki getað haldið námskeiðin í 18 mánuði vegna heimsfaraldursins og hefur nýtt tímann til að fara yfir allt námsefnið. Samhliða því hefur hann boðið upp á samtöl og ráðgjöf fyrir hjón í gegnum Zoom. Hann hafði ekki mikla trú á að hann gæti náð árangri í gegnum tölvuskjáinn en það gekk betur en hann hélt. 

Hann segir að heimsfaraldurinn hafi reynt á mörg pör og fjölskyldur. „Einangrunin var slæm fyrir marga og það að komast ekki að heiman til að hitta aðra. Eða til þess að geta hvílt sig aðeins hvort á öðru. Allir hafa þörf fyrir tilbreytingu og það að þurfa að vera fjarri ættingjum, vinum og vinnufélögum hefur reynst mörgum erfitt. En um leið hafa breyttar venjur og reglur líka boðið upp á ýmislegt gott,“ segir Þórhallur. 

Hann segir marga hafa haft meiri tíma með sínum nánustu og á móti hafi stress í tengslum við vinnustaði, umferðina og skutl barna minnkað. Margir hafi haft meiri tíma fyrir áhugamál sín og dyttað að heima hjá sér. 

„Gott ef sumir hafa ekki notað faraldurinn sem afsökun fyrir því að brjóta gamlar og leiðinlegar venjur. Eins og að þurfa alltaf að fara í leiðinlegar heimsóknir eða halda uppi hefðum sem enginn ef til vill hefur ahuga á. Nú var það ekki hægt vegna faraldursins. Því miður segja sumir, en hugsa ef til vill „loksins frí“. Eitt af því sem því miður hefur gerst á þessum tíma er að áfengisneysla hefur aukist, sem aftur kallar á deilur, heimilisofbeldi og vanda. Á því þarf að taka,“ segir Þórhallur. 

Spurður hvort hans tilfinning sé að pör og hjón hafi glímt við öðruvísi áskoranir í heimsfaraldrinum segir hann svo ekki vera. 

„Við erum alltaf að fást við það sama í grunninn, sama hvað gerist í veröldinni, hvernig við getum haldið ástinni lifandi og lifað lífinu hamingjusamlega. Svo koma öll vandamálin sem vilja stoppa okkur í þessari viðleitni. En þau eru nú alltaf söm við sig. Það er mín reynsla.“

Hvaða ráð getur þú gefið fólki sem stendur á krossgötum en vill bæta samband sitt?

„Að vera heiðarlegt hvort við annað, tala saman, muna eftir því jákvæða og einstaka sem þau eiga saman, ekki að taka hvort öðru sem gefnum hlut heldur gefa hvort öðru tíma  og horfast í augu við vandamálin og takast á við þau. Að sýna hvort öðru virðingu og að segja sannleikann, það er líka nauðsynlegt. Heiðarleikinn er öllu öðru dýrmætara. Oft þarf þriðja aðila til þess að leiða pör í gegnum þá vinnu, og þess vegna fór ég af stað með þessi námskeið og þessa hjónavinnu alla og hef haldið henni áfram í 25 ár.“

Hjónabandsnámskeið Þórhalls fer fram 4. og 5. september og hefst klukkan 19:00. Nánari upplýsingar og skráning fer fram á tölvupóstfangi Þórhalls, thorhallur33@gmail.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál