Það má allt ef þú færð bara leyfi fyr­ir því

Sólborg Guðbrandsdóttir er að gefa út nýja bók.
Sólborg Guðbrandsdóttir er að gefa út nýja bók. Ljósmynd/Anton Bjarni Alfreðsson

Tónlistarkonan og rithöfundurinn Sólborg Guðbrandsdóttir var að senda frá sér bókina Aðeins færri fávitar. Bókin er sjálfstætt framhald af kynfræslubókinni Fávitar sem kom út í fyrra. Sólborg brennur fyrir málefnið og er fjöldi ofbeldismála meðal þess sem drífur hana áfram. 

„Það þarf að efla kynfræðsluna í skólum landins með því að setja hana sem skyldufag í gegnum alla skólagönguna. Stjórnvöld þurfa að hætta þessu hangsi. Þetta þarf ekki að taka svona langan tíma. Ef þeim er raunverulega annt um öryggi og velferð barna á Íslandi þá koma þau þessu í framkvæmd. Þá komumst við á betri stað,“ segir Sólborg. 

„Bókin fjallar að mestu leyti um samskipti og sjálfsþekkingu og í henni svara ég vangaveltum unglinga um samskipti kynjanna, viðreynslu, kynlíf, sambönd og sjálfsöryggi og reyni að leggja áherslu á að efla sjálfsmyndina þeirra og öryggi í samskiptum. Fyrri bókin var samansafn af kynfræðslutengdum spurningum sem ég hafði fengið sendar til mín á samfélagsmiðlum og á fyrirlestrum,“ segir Sólborg sem segir bókina vera fyrir 12 ára og eldri. 

Hvað drífur þig áfram?

„Ætli það sé ekki annars vegar fjöldi ofbeldismála í samfélaginu okkar og svo hins vegar aðgerðarleysi stjórnvalda þegar kemur að því að efla kynfræðsluna í grunn- og framhaldsskólum landsins. Ég er þreytt á því að bíða eftir aðgerðum en reyni að gera það sem ég get gert í millitíðinni til að aðstoða.“

Sólborg Guðbrandsdóttir.
Sólborg Guðbrandsdóttir. Ljósmynd/Anton Bjarni Alfreðsson


Umræðan um kynferðislegt ofbeldi hefur farið á flug í ár. Hvernig passar bókin inn í þá umræðu?

„Hátt hlutfall gerenda eru ungt fólk. Ungt fólk sem horfir jafnvel mikið á klám en fær að sama skapi litla sem enga fræðslu um heilbrigt kynlíf og samskipti. Í bókinni reyni ég að leiðbeina unga fólkinu okkar hvað varðar samskipti í kynlífi og samböndum og mikilvægi þess að við fáum leyfi fyrir öllu því sem við gerum í tengslum við annað fólk, séum heiðarleg við hvert annað og ég leiðrétti einnig ýmsar ranghugmyndir sem við fáum úr klámi,“ segir Sólborg. Hún segir nauðsynlegt að halda umræðunni um ofbeldi á lofti og segir að ef fólk viti ekki af vandamálinu geri það lítið til að leysa það. 

Hvernig skrifaðir þú bókina? 

„Ég skrifaði hana að mestu leyti sjálf en kynnti mér efnið vel og bý yfir góðri þekkingu eftir störf mín seinustu ár. Ég fékk Áslaugu Kristjánsdóttur kynlífsráðgjafa til að hjálpa mér að svara spurningum um samskipti í nánum samböndum í bókinni og hún gerði það mjög vel.“

Nýja bókin heitir Aðeins færri fávitar.
Nýja bókin heitir Aðeins færri fávitar. Ljósmynd/Anton Bjarni Alfreðsson

„Má ekkert lengur?“ Er spurning sem kemur meðal annnar fyrir í bókinni. „Það má allt, ef þú færð bara leyfi fyrir því. Þú átt ekki rétt á neinu í tengslum við annað fólk „af því bara“. Það er enginn sem skuldar þér svar, áhuga, kynlíf eða annað. Spyrðu, fáðu svar og virtu það. Þetta er ekkert flókið.“

Sólborg kemur einnig inn á stefnumótalífið. „Ég held að almennt séð þá hefðum við öll gott af því að vera heiðarlegri við hvert annað. Ég held það gæti gagnast okkur öllum og sparað okkur dýrmætan tíma,“ segir Sólborg. 

mbl.is