Tóku börn í varanlegt fóstur en geta þau orðið skylduerfingjar?

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér erfðarétti er viðkemur fósturbörnum sínum. 

Sæl. 

Við hjónin tókum systkini í varanlegt fóstur þegar þau voru bara lítil börn og áttum fyrir önnur börn. Þau hafa alist upp hjá okkur núna í 10 ár og eru í raun í huga allra ekkert minna okkar börn. Hugmyndin er að ganga frá löglegri ættleiðingu við 18 ára aldur, ef þau kjósa svo, en er eitthvað sem við getum gert fyrir þann tíma til að tryggja að þeirra réttur sé ekkert minni en hinna barnanna ef eitthvað kæmi fyrir okkur? Þá erum við fyrst og fremst að hugsa um erfðarétt.

Kv. Fósturforeldrar

Sæl kæru fósturforeldrar.

Til að tryggja erfðarétt fósturbarnanna ykkar núna þá getið þið gert erfðaskrá og arfleitt þau að einum þriðja af eignum ykkar, sem myndi þá skiptast jafnt á milli þeirra. Önnur börn ykkar myndu þá fá 2/3 af eignum ykkar sem myndi skiptast jafnt milli þeirra. En það fer þá eftir fjölda barnanna hvort þetta dugar til að vera jafnt skipt á milli þeirra.

Þar sem þið eigið maka og börn (skylduerfingja) getið þið ekki ráðstafað meira en einum þriðja af eignum ykkar til annarra með erfðaskrá. Mögulega er hægt að finna einhverjar leiðir aðrar en erfðaskrá en það gæti verið flókið og þyrfti að skoða vel með lögmanni.

Þið getið einnig skoðað hvernig er háttað með t.d. líftryggingar og lífeyrissjóð ef það á við hjá ykkur, en venjulega er hægt að tilnefna þá sem eiga að þiggja slíkt eftir andlát og þá gætuð þið t.d. tilnefnt fósturbörnin ásamt öðrum börnum ykkar. Allt fer þetta samt eftir skilmálum viðkomandi tryggingarfélags og lífeyrissjóðs og því þarf að skoða þetta einstaklingsbundið.

Varðandi ættleiðingu fósturbarna þá fer um það í megindráttum eftir sömu reglum og um ættleiðingu stjúpbarna. Mig langar að benda ykkur á að þið getið ættleitt fósturbörnin áður en þau verða 18 ára en þá þarf samþykki barnaverndaryfirvalda og eftir atvikum einnig samþykki kynforeldra, en það er samt ekki einhlítt. Ef börnin eru orðin 12 ára þarf einnig samþykki þeirra. Það eru fínar og aðgengilegar upplýsingar á vef sýslumanna um ættleiðingar, þ.e. um stjúpættleiðingar, sem eiga jafnframt við um ættleiðingu fósturbarna og ég hvet ykkur til að skoða það.

Með kveðju,

Þyrí Steingrímsdóttir hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál