Gerðu 2023 að kynþokkafyllsta ári allra tíma

Gerðu árið 2023 að kynþokkafyllsta ári allra tíma með því …
Gerðu árið 2023 að kynþokkafyllsta ári allra tíma með því að bæta nokkrum áramótheitum sem snúa að kynlífi þínu á markmiðalistann. mbl.is/Thinkstockphotos

Nú þegar aðeins örfáir dagar eru eftir af árinu er freistandi að setja sér markmið fyrir komandi ár. Þó áramótaheit séu umdeild og fólk hafi mismikla trú á að þau virki getum við sammælst um að það sé jákvætt að vilja gera breytingar til hins betra í lífinu. 

Kynlífssérfræðingurinn Tracey Cox segist ekki endilega trúa á áramótaheitin sjálf, en þau fái fólk hins vegar til að hugsa um hvað sé að virka í lífi þeirra og hvað ekki, og hvernig hægt sé að bæta lífið, og þar með talið kynlífið, til hins betra. 

Nýverið afhjúpaði Cox áramótaheit sem geta gert 2023 að kynþokkafyllsta ári allra tíma.

Einblíndu á gæði kynlífsins

Cox segir algengustu mistökin sem pör gera þegar þau reyna að bæta kynlíf sitt vera að einblína á hversu oft þau stunda kynlíf frekar en hversu gott það er. Hún segir kynferðislega ánægju ekki vera mælda með fjölda skipta heldur snúist það alfarið um stemninguna, tengslin og nándina. 

„Kynlíf á tveggja vikna fresti sem er fjörugt og skemmtilegt mun gera ykkur bæði hamingjusamari en að stunda skyldubundið kynlíf þrisvar í viku,“ skrifaði Cox. 

Hafðu frumkvæði að kynlífi

Frumkvæði að kynlífi er ein mikilvægasta breytingin sem pör geta gert á kynlífi sínu samkvæmt Cox. Þá segir hún skort á frumkvæði að kynlífi vera eina af þremur algengustu kvörtununum sem pör hafi á kynlífi sínu. 

„Ef maki þinn er alltaf sá sem hefur frumkvæði að kynlífi þá sendir þú þau skilaboð að þú stundir aðeins kynlíf til að þóknast þeim,“ skrifaði Cox, en hún segir að með því að hafa frumkvæði að kynlífi upplifi makinn sig sem aðlaðandi. 

Áttaðu þig á því að kynlíf er meira en samfarir

Margir telja kynlíf og samfarir vera það sama, og að ekki sé hægt að tala um kynlíf án þess að samfarir hafi átt sér stað. Cox segir það hins vegar vera alrangt, en hún segir kynlíf vera hvers kyns erótíska örvun sem eigi sér stað milli parsins. 

„Hugsaðu um kynlíf eins og konfekt kassa. Það er gaman að klára hann á einu kvöldi, en það getur verið meira gefandi ef þú leyfir þér bara einn mola og nýtur hans til hins ýtrasta,“ skrifaði hún. 

Vertu góð/ur við líkama þinn

Hér er Cox ekki að tala um næringu, hreyfingu eða streitustjórnun, heldur að vera ekki gagnrýnin/n á eigin líkama og leyfa samfélagslegri staðalímynd um hvað sé aðlaðandi ekki að koma í veg fyrir að þú njótir kynlífsins. 

„Besta gjöfin sem þú getur gefið þér og maka þínum er að samþykkja líkama þinn eins og hann er. Það er frábært að vilja vera heilbrigður og rækta líkama sinn, en það er enn betra að læra að elska hann eins og hann er,“ skrifaði Cox. 

Gerðu kynlífslista fyrir árið

Við markmiðasetningu er mælt með því að markmiðin séu skrifuð niður á blað. Það getur verið skemmtilegt að setja sér markmið tengd kynlífi á komandi ári, en Cox segir fólk geta gert listann í einrúmi eða með maka sínum. 

Cox mælir með því að listinn innihaldi blöndu af upplifun, stellingum og nýrri tækni til að prófa á nýju ári. Þá sé einnig hægt að setja inn kynþokkafullar bækur, kvikmyndir eða þætti til að horfa á saman auk þess að setja saman kynþokkafullan lagalista fyrir svefnherbergið. 

Prófaðu nýja hluti - líka fyrir hana!

Cox segir algengt að karlar kvarti yfir því að kvenkyns makar þeirra séu ekki nógu ævintýragjarnir í svefnherberginu, en samt sem áður sé raunin sú að konur þurfti meira á fjölbreytni í kynlífi að halda en karlar. 

Hún vitnar í nýlega rannsókn sem leiddi í ljós að konur séu mun líklegri til að missa áhugann á kynlífi eftir ár í sambandi en karlar. Þetta sé þó ekki vegna þess að konum líki ekki kynlíf heldur hafi kynlífið sem í boði var ekki verið nógu áhugavert til að freista þeirra. 

Cox segir konur oft hafna tillögu maka síns um að prófa nýja hluti vegna þess að þær hafi einfaldlega ekki áhuga á því sem karlkyns maki þeirra stingur upp á. Því sé mikilvægt að konur gefi sér leyfi og rými til að kanna langanir sínar og geti sagt maka sínum hvað það er sem þær vilja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál