Lifir fullkomnu lífi en drekkur um helgar

Íslensk kona lifir hinu fullkomna lífi en dettur svo alltaf …
Íslensk kona lifir hinu fullkomna lífi en dettur svo alltaf í það um helgar. Florencia Potter/Unsplash

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem hefur öðlast allt sem hún hélt að hún þráði. Líf hennar tikkar í öll box sem þykja eftirsóknarverð. Tómleikatilfinningin er svo mikil að hún er farin að leita í flöskuna. Hvað er til ráða?

Blessuð Elínrós. 

Ég veit ekki hvernig ég á að snúa mér í málum mínum svo ég ákvað að senda á þig spurningu. Þannig er mál með vexti að ég er fjögurra barna móðir, hamingjusamlega gift og í góðri vinnu. Það er allt eins og það á að vera nema ég sit uppi með sjálfa mig.

Ég keyri mig áfram á hverjum degi og tikka í öll boxin en innra með mér er ég að deyja.

Ég man fyrst þegar ég var búin að öðlast allt sem mig dreymdi um, manninn, börnin, hundinn, bílinn, húsið og sumarbústaðinn. Ég beið eftir að eitthvað myndi gerast innra með mér. Ég myndi finna mjög mikla gleði og í rauninni að ég yrði södd. Það gerðist ekki. Ég fríkaði út af ótta þegar ég fann að þetta er að sjálfsögðu æðislegt en býr ekki til hamingju innra með mér. Ég er rosalega þreytt og keyri mig áfram á sykri og svo hef ég komið mér upp ákveðinni rútínu um helgar sem er ekki góð. Þá drekk ég og oftar en ekki enda ég blindfull og drepst stundum í sófanum í stofunni. Ég gæti þess vel að fela þetta enda lítill sómi af þessu. Í rauninni er þetta ekkert nýtt. Ég hef alltaf verið í sömu rútínu en núna er ég komin yfir fertugt og þá er eins og ég komist ekki upp með þetta lengur. Það er eins og tölvan segi bara nei. Hvar ætti ég að byrja? Er einhver leið að komast út úr þessu án þess að skilja við karlinn og fara í jóga-kvennaferð til Balí, læra að verða jógakennari og byrja að míkro-dósa? Það er eitthvað sem ég vil alls ekki.

Kær kveðja,

HK

Elínrós Líndal svarar spurningum lesenda.
Elínrós Líndal svarar spurningum lesenda. Ljósmynd/Samsett

Sælar og takk fyrir mjög góða spurningu.

Þú ert ekki eina manneskjan í heiminum sem líður svona. Það eru svo miklu fleiri á þessum stað en þig grunar. Það er eðlilegt að langa til þess að stofna fjölskyldu og eignast húsnæði, mann og allt sem því fylgir. Bréfið þitt segir mér að þú hafir náð ákveðnum þroska og það sé komið að kaflaskilum hjá þér. 

Ég mæli með því að þú skoðir helgarrútínuna þína og hvað myndi gerast ef þú settir tappann í flöskuna tímabundið. Hvernig myndi þér líða ef þú tækir áfengi út tímabundið og færir ofan í saumana á því hvenær og hvar þú lærðir að gera hluti í laumi. Það er ekki gott fyrir fólk þegar það laumast með hluti en stundum er það eina leiðin til að lifa í veröldinni. 

Síðan myndi ég skoða hvar þú ert að virka betur með öðru fólki en þér sjálfri. Hvenær þú segir já þegar þú meinar nei. Hvenær þú tjáir þig ekki og fleira í þeim dúrnum. 

Tilgangur okkar og gildi geta aldrei verið af veraldlegum toga. Hvergi í bréfinu má lesa hvað gefur þér orku og gleði. Það gæti verið gaman að fara ofan í saumana á því með þér.

Þú ert kona drauma þinna – hvar sérðu þig fyrir þér eftir 10 ár eða 20 ár?

Ég gæti ekki verið meira sammála þér með niðurlagi spurningarinnar. Því ég held það sé algjör óþarfi að stíga út úr öllu því sem skiptir þig máli. Kvennaferðir á fjarlægar slóðir þurfa ekki að snúast um eitthvað sem breytir okkur þegar við komum heim og hef ég heyrt því miður mjög margar sorglegar sögur saf konum á miðjum aldri að prófa sig áfram með efni sem þær ráða ekki við. Hamingjan býr inn í þér og það eru til fallegar náttúrulegar leiðir til að auka við hana. Ég vona að þetta svar hjálpi.

Með virðingu og vinsemd,

Elínrós Líndal ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR. 

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál