„Píkur eru tabú“

Michèle Degen hönnuður Vulva Versa sem gerir konum kleift að …
Michèle Degen hönnuður Vulva Versa sem gerir konum kleift að skoða kynfæri sín. Juliette Chrétien

Svissneska listakonan og hönnuðurinn Michèle Degen er einn hinna erlendu gesta sem sækja HönnunarMars heim. Verk Degen eru afar femínísk, en hún hrífst meðal annars af ögrandi viðfangsefnum. 

„Verkin mín eru mjög fjölbreytt, en þau spanna allt frá píkuspeglum til bókar sem fjallar um ósköp venjulega steina. Það sem tengir verkin mín saman er hvernig ég horfi á hlutina, ég skoða þá afar náið og reyni að varpa nýju ljósi á ákveðin viðfangsefni eða efnivið,“ segir Degen og bætir við að hún sæki gjarnan innblástur í hegðun fólks.

Michèle Degen hönnuður.
Michèle Degen hönnuður. Juliette Chrétien

„Ég sæki þó ekki einungis innblástur í fólk, heldur einnig hluti sem við veltum ekki mikið fyrir okkur, eða tökum sem sjálfsögðum. Þá hef ég líka áhuga á að blása nýju lífi í hefðir ákveðinna menningarhópa, eða í hluti sem virðast einskis nýtir. Ég hef áhuga á hlutum sem virðast við fyrstu sýn vera leiðinlegir eða óspennandi. Hefðbundnum viðfangsefnum sem geta þróast yfir í eitthvað stærra þegar þeim er veitt athygli. Það er nefnilega ekki til sá hlutur sem er einskis nýtur. Með því að stjórna athygli áhorfandans má sjá fegurð í flestu, ef ekki öllu,“ segir Degen sem er hrifin af ögrandi viðfangsefnum, eins og sjá má á verkum hennar.

„Ég kann tvímælalaust að meta ögrandi viðfangsefni. Hluti sem eru á mörkum þess að vera samþykktir eða forboðnir. Athygli mín beinist einnig gjarnan að hlutum sem að mati almennings eru hefðbundnir. Það sem knýr mig áfram er spurningin um hvað samfélagið telur venjulegt,“ bætir Degen við.

Juliette Chrétien

Lítið talað um kynfæri kvenna

Verk Degen eru sum hver afar femínísk, en hún hannaði eins og áður sagði spegil sem gerir konum kleift að skoða kynfæri sín. En hvernig kviknaði hugmyndin að verkefninu, sem nefnist Vulva Versa?

„Þegar ég var útskriftarnemi við hönnunarskólann í Eindoven fengum við það verkefni að vinna með kvensjúkdómalæknum. Ég fékk tækifæri til að fylgja læknum eftir við störf þeirra og komst að því að mörgum konum þykir afar óþægilegt að setjast í stólinn hjá þeim og þurfa að glenna í sundur lappirnar. Ég tengi þetta skömm og áttaði mig á því að það er ekki mikið talað um kynfæri kvenna í samfélaginu, jafnvel meðal kvennanna sjálfra. Píkur eru tabú. Ég vildi því hanna grip sem myndi hvetja til umræðu og uppræta tabúið,“ segir Degen og bætir við að viðtökurnar við verkefninu hafi verið jákvæðar, þó stöku karlmaður hafi ekki skilið hvert notagildi speglanna væri.

„Bara það eitt að ræða spegilinn hefur opnað umræðu um kynfæri kvenna. Margir hafa óskað mér til hamingju með verkefnið á meðan aðrir, aðallega karlmenn, sáu þó upphaflega engin not fyrir speglana. Ég er þó spennt fyrir því að taka verkefnið á næsta stig og reyna að gera það aðgengilegt konum um allan heim,“ segir Degen, sem segir fegurðina felast í fjölbreytileikanum.

Umkringd framleiddri fegurð

„Við búum í heimi þar sem breytingar gerast afar ört og hugmyndir um fegurð koma og fara. Við erum umkringd fegurð sem hefur verið framleidd, þar sem jafnvel kynfæri kvenna þurfa að uppfylla ákveðna fegurðarstaðla. Það er mikilvægt að konur viti að fegurð er að finna í fjölbreytileikanum, og þess vegna ættu þær að taka þennan persónulegasta líkamshlut sinn í sátt, eins og hann er. Ég er sannfærð um að það er auðveldara að tala um líkamann ef við þekkjum hann. Að því leyti getur það haft góð áhrif á sjálfstraust kvenna,“ segir Degen, en að hennar mati er list og hönnun gagnlegt tól til að uppræta tabúið sem fylgir kynfærum kvenna.

„Umræða getur sýnt hlutina í nýju ljósi og haft í för með sér aukið samþykki. Líka fyrir píkuna,“ segir Degen að endingu.

Juliette Chrétien
Svona lítur spegillinn út.
Svona lítur spegillinn út. Juliette Chrétien
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál