Vilja fá Sölku Sól til að ræða eineltið

Salka Sól Eyfeld.
Salka Sól Eyfeld. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fulltrúar grunnskóla og þó nokkrir foreldrar hafa haft samband við Símann eftir að söngkonan Salka Sól Eyfeld lýsti eineltinu sem hún varð fyrir í grunnskóla í þættinum Ný sýn sem sýndur var í Sjónvarpi Símans fyrir viku. Þátturinn sem er í umsjón Hugrúnar Halldórsdóttur verður sýndur í grunnskólum landsins. 

Valdís Guðbrandsdóttir, iðjuþjálfi í Dalvíkurskóla, segir að börnin vilji raunveruleg dæmi. Í skólanum er unnið eftir Olweus-áætluninni og er Valdís í eineltisteymi skólans.

„Það er til svo lítið fræðsluefni um málefnið. Það vantar alltaf efni til að kveikja og opna umræðuna með börnunum og sérstaklega mikill fengur þegar einhver stígur fram sem þau líta upp til. Ég fékk nokkrar ábendingar eftir þáttinn og skilaboðin voru: Þið verðið að sjá Sölku. Ég tek undir það,“ segir Valdís og bætir við:

„Fullorðið fólk þarf líka að sjá þáttinn, til að læra að koma auga á einkennin sem geta komið hjá börnum sem verða fyrir einelti. Það er alltaf einhver ástæða fyrir hegðun hjá börnum og hegðun Sölku breyttist,“ segir hún og að umræðan um einelti miði að því að kenna börnunum góð samskipti.

„Við erum öll mismunandi og eigum við að fá að vera það.“

Á Facebook-síðu sinni 17. október sagði Salka Sól frá því hvers vegna hún ákvað að segja sögu sína: „Sú ákvörðun um að koma fram og ræða eineltið var ekki auðveld. Ég ákvað að nú væri kominn tími til að ræða þetta með það í huga að ég geti vonandi hjálpað fólki sem hefur orðið fyrir eða eru að verða fyrir einelti,“ sagði hún.

„Opinberar persónur sem töluðu opinskátt um einelti þegar ég var lítil, til dæmis Stefán Karl, Jón Gnarr og Páll Óskar hjálpuðu mér, létu mér líða eins og það sé leið út úr þessu, manni mun líða betur. Nú fannst mér það skylda mín, verandi ung kona með rödd í okkar samfélagi, að segja mína sögu, í þeirri von að hún muni hjálpa einhverjum þarna úti. Einelti er aldrei á þinni ábyrgð, sama hvernig þú ert eða lítur út, gefur það engum rétt á að leggja þig í einelti.“

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir ljóst að Salka Sól hreyfði við mörgum sem horfðu á þáttinn.

„Það er okkur bæði ljúft og skylt að afhenda þáttinn enda gæti hann hjálpað mörgum. Lýsingar Sölku voru svo einlægar. Þær voru sláandi og römmuðu inn áhrif og afleiðingar eineltis.“ 

mbl.is