Svona heldur syngjandi lyfjafræðingur jól

Hannes Þorvaldsson ásamt Söndru Gestsdóttur og börnum þeirra.
Hannes Þorvaldsson ásamt Söndru Gestsdóttur og börnum þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hannes Þórður Þorvaldsson er syngjandi og dansandi lyfjafræðingur með diplóma í viðskiptafræði, sem hefur brennandi áhuga á næringu, þjóðfélagsmálum og svo mörgu öðru, meðal annars jólunum. Hann mælir með að við séum ekki of töff fyrir lífið og gerum okkar besta um jólin. 

Hannes hefur mest starfað í sjálfstæðum apótekum síðastliðin ár samhliða því að vinna að eigin frumkvöðlastarfsemi. Hann er nýbakaður faðir öðru sinni og því líka nokkuð í orlofi að eigin sögn.

Aðspurður hvaða merkingu hann leggi í jólin segir hann þau vera birtu í skammdeginu og von um rísandi sól. „Fjölskyldustund og huggulegheit meðan fólk bíður af sér storminn. Bækur og spil, gleði, gjafmildi og umhyggja... jólasveinar, -böll, já og Sússi litli! Og auðvitað Grýla, þó hún sé steindauð og Leppalúði líka.“

Söng jólalög allan ársins hring

Ég heyrði að þegar þú varst barn hefðir þú sungið jólalög allan ársins hring?

„Já, veistu, það getur vel verið. Ég hugsa eiginlega í lagatextum og ljóðlínum og hvað varðar jólalögin þá heyrði ég frá samnemendum í verklegum tímum í Háskólanum að þar syngi ég jólalög allan ársins hring svo eftir væri tekið ef þau vantaði. Ég hef mest alla ævina sungið látlaust, sönglað mig í gegnum dagana og mæli með því. Enda er ég í kór, Karlakórnum Esju og finnst jólin gleðileg.“

Óvenjulega skemmtileg jólafjölskylda

Þú kemur úr mikilli jólafjölskyldu, hvað getur þú sagt mér um það?

„Þegar ég var lítill vorum við mörg á heimilinu í stóra húsinu sem afi minn byggði á Langholtsveginum, minnst 8 talsins; 4 börn, 3 fullorðin og köttur, svo það var mikið um að vera og hátíðleg stemning. Gunnlaug Hannesdóttir, jógaleiðbeinandi og húsfreyja, bjó á Langholtsvegi 92. Hún var alltaf kölluð amma Gulla. Hún bakaði margar sortir fyrir jólin, gerði líkjör og konfekt fyrir áramótin og stýrði allsherjarþrifum á öllu frá veggjum og hurðarkörmum niður í fægingu á minnstu silfurmunum. Gestagangur var mikill, jólabollastellið dregið fram og oftar en ekki fyllt af heitu súkkulaði. Það voru líka hengd súkkulaðidagatöl í grenigreinaskreytt stigahandriðið í holinu og skógjafa vitjað við arininn, þar sem síðasta skógjöfin var oftast ný litakóðuð rúmföt – en náttföt fylgdu svo frá ömmu um kvöldið í gjafagleðinni á aðfangadag. Reyttar voru rjúpur og matreiddar á aðfangadagskvöld en afgangar rötuðu síðar í tartalettur, heimagerð rifssulta var höfð með öllu og saft út á möndlugrautinn. Það var alltaf stórt tré í stofunni sem þurfti að yfirskreyta á síðustu stundu og eins konar ballstemning um kvöldið þar sem sungið var og dansað í kringum það. Ef Gunnlaugur Einar Þórðarson, hæstaréttarlögmaður og listunnandi, eða afi Gulli eins og við kölluðum hann, kom við söng hann allt eftir sínu nefi og ruglaði erindum og dansátt og hrekkti fólk með hurðasprengjum eða öðru. Hann lét eiginlega bara, af sinni almennu venju, nokkuð eins og jólasveinn – þó enginn væri búningurinn. Fleiri en ein jólin átti ég líka á Kaldbak við Húsavík hjá Snædísi Gunnlaugsdóttur eða Snædu frænku eins og við kölluðum hana. Þegar við heimsóttum hennar fólk var afi Gulli alltaf með, en þar var allt eins veglegt heimilshaldið og hátíðlegur jólaandinn. Það má segja að stemningin á báðum stöðum hafi verið undir dönskum áhrifum en líka töluvert amerísk enda báðar húsmæðurnar sem um ræðir með reynslu af heimilishaldi í Bandaríkjunum. Blessuð sé minning þeirra.

Svo voru öll jólaböllin og jólaboðin í fjölskyldunni, sem alltaf var mætt í af mikilli skyldurækni og þá vorum við öll vel greidd og í sparifötunum. Það var helst Sóleyjargötufjölskyldan, Víðisboð og Klepparahittingar ásamt árlega glögginu hjá Herdísi Þorvaldsdóttur, stórleikkonu og landgræðslufrömuði. Hún var alltaf kölluð amma Dísa. Hjá henni skemmtu barnabörnin gestum með hljóðfæraleik, söng eða upplestri og svo jólaboðið fyrir stórfjölskylduna undan henni, sem næstum mætti líka kalla ball. Á Dunhaganum hjá ömmu Dísu var sungið og dansað við undirleik Egils Ólafssonar söngvara, trallað „Nu har vi Jul igen“ að dönskum sið undir óstjórn afa Gulla og endað á „Heims um ból“ og „Nóttinni sem var sú ágæt ein“ fyrir ömmu. Þó að þau séu bæði fallin frá eru lögin enn sungin þeim til heiðurs í „Ömmu Dísu“-jólaboðinu, en það lifir enn og stækkar stöðugt með vaxandi kynslóðum og nýjum venslum, ásamt tilheyrandi Klepparaskap og Taílenskum „take-away“ eins og venjan var orðin hjá ömmu. Það er bara ekki hægt að borða hangikjöt og laufabrauð með uppstúf eða brúnaðar kartöflur og sósu með steik eða villibráð alla dagana.“

Haldið í hefðirnar

Hvernig eru jólaboðin ykkar í dag?

„Það er ennþá sungið mikið og dansað í kringum jólatré, húsgögn og milliveggi, ef fjöldinn er þannig, í „Ömmu Dísu“-jólaboðinu heima hjá pabba og nokkur samheldni er enn í ættum þeim megin, sem hittast þá hjá Hrafni Gunnlaugssyni frænda úti á Laugarnestanga. Hinir settlegu og skipulögðu „Víðisar“, afkomendur Jóns „Þveræings“ Jónssonar, sem er ömmu Dísu ætt, mæta tímanlega með veisluföng í samskotaveislu síðdegis milli jóla og nýárs. Farið er með erindi og þó sungið sé hátt og snjallt eru textar hafðir rétt eftir meðan dansað er. „Klepparar“ sem eru afa Gulla fjölskylda eru afkomendur Þórðar Sveinssonar, fyrsta yfirlæknis á Kleppi, en börn hans ólust fyrir vikið öll upp þar á stórbúinu (og geðsjúkrahúsinu). Í þeirri ætt mætir fólk misseint í restarhitting að kvöldi þrettándans, tæma púðurbirgðir og dreggjar jólanna, gleðjast líka og syngja en fara frjálslegar með öll formsatriði, minnast upprunanns í hinum vel virka Jóni „Haddú“, öðru nafni Jón „Bólginn“ Jónsson, sem var ákafamaður hinn mesti, ákaflega bráðlyndur og fljótfær og fram úr hófi fljótmæltur, samkvæmt Íslendingabók. Þau rekja ættir sínar til Ellenar Kaaber ömmu til Danmerkur og áfram suður yfir alla Evrópu til blóðheitari landa.

Síðan ég kynntist minni kærustu, Söndru Gestsdóttur, hef ég haldið alla aðfangadaga með tengdafjölskyldunni þar sem samheldnin er líka mikil og yfir breitt kynslóðabil. Mismannargt er eftir aðstæðum, oft æði margir enda allir velkomnir og þá allt eins venslafólk þeirra í allar áttir í senn – svo sem mamma og Baldur Óskarsson, bóndi hennar, oftar en einu sinni. Stundum erum við þó færri og þá jafnvel bara fullorðið fólk, en þá er samt engu minni gjafagleði eða jólafiðringur þó börnin vanti! Þar er margt við það sama, en þó ekki eins. Möndlugrauturinn hjá ömmu Gullu var heitur og þéttur rjómalagaður hrísgrjónagrautur með kanilsykri, kaldri mjólk og rifssaft í forrétt en hjá tengdó er frísklegur og „flöffí“ kaldur risalamande með heitri karamellusósu í desert. Svona eins og sagt er í Taílandi: „Same, same... but different“, því möndlugjöfin (ýmist fjölskylduspil eða konfektkassi) er alltaf á sínum stað og látalætin í möndluleiknum líka; brellur, plat og ýmiss konar svipir (hver kannast ekki við tunguna út í kinn?), þó möndluna virðist að lokum geta vantað á báðum þessum bestu bæjum. Jafnan eru í dag tveir eða fleiri aðalréttir eftir smekk manna og þá allar tegundir af meðlæti, konfektmolar í skálum og jólablanda til að endast árið.

Á jóladag hittumst við öll sex systkinin með börn og maka, þau sem hafa aldur til, ýmist í mat hjá pabba eða í hádeginu hjá Dísu systur þar sem skipst er á gjöfum við margra metra háa jólatréið í holinu og smökkuð rjúpusúpa. Svo hittist tengdastórfjölskyldan aftur um kvöldið í hangikjöti og með því.

En það er ekki nóg, því í framhaldi er oft matur um kvöldið annan í jólum þar sem fagnað er afmæli Baldurs hennar mömmu, Víðisboðið og „Ömmu Dísu“-boðið þann 3. og 4. í jólum, jólaböllin (allavega hjá Lyfjafræðingafélaginu) og annað tilfallandi auk þess sem styttist í áramótin.

Hjá mér er líka nóg að gera í jólaprógrammi karlakórsins; jólatónleikar, hlaðborð og skemmtanir. Í ár heldur Esjan t.d. jólatónleika í Langholtskirkju 18. desember kl. 20:00, ásamt tveimur öðrum kórum og söngsveit. Auk Esjunnar, karlakórsins míns, sem mörgum þótti eftirminnileg í Kórum Íslands í fyrra, verða þar einnig Drengjakór Reykjavíkur (en ég var líka í forvera hans, Drengjakór Laugarneskirkju, á yngri árum), hinn magnaði kvennakór Katla og söngsveitin Olga Vocal Ensemble. Ég get í einlægni svo sannarlega mælt með þeim tónleikum og jólaanda þeirra, en fyrir þá sem ekki komast er alltaf hægt að hlusta á allt efni Karlakórsins Esju á Youtube.“

Kennir börnunum að gefa um jólin

Hvað leggur þú upp úr við dóttur þína og son um jólin?

„Hún Aðalbjörg Ynja Hólm Hannesdóttir, Ynja mín, verður 4 ára í janúar og er nýbúin að eignast lítinn bróður sem tekur sinn sess í tilverunni. Hún er farin að pæla ansi margt og var alveg farin að fatta gjafaflóðið síðustu jól, svo auðvitað er kominn mikill spenningur í hana fyrir þeim næstu og vaknaðar hugmyndir um hvað geti ratað í alla pakkana. Þá finnst mér eiga best við að beina athyglinni að því hvað hún ætli að gefa öðrum, því það sé „sælla að gefa en þiggja“ eins og góður maður mælti forðum og þess vegna sem allir eru að gefa allar þessar gjafir. Hún tekur því vel og slakar síst á vangaveltunum við að hugsa til annarra, enda lengi vanist því að hugsa til fátækra eða veikra barna og fólks víða um heim sem vantar svo margt – og er alveg til í að gleðja fjölskyldu og vini.“

Er eitthvað sem breytist um jólin með tilkomu barnanna?

„Barnsleg jólagleði virðist geta verið allt eins mikil og meira að segja meiri í „nostalgíu“ hjá fullorðnu fólki en hjá börnum almennt. En auðvitað breytist margt hjá manni sjálfum persónulega og fókusinn færist frá eigin aðstæðum og upplifunum að þeirra, barnanna manns.

Skylduræknin og foreldrastoltið knýr mann til að sýna börnin og stæra sig af þeim og vilja láta þau kynnast öllu og upplifa eins og ýktustu minningar manns sjálfs. Það er gaman og gefandi en maður má passa sig að spóla ekki í sporunum eða ganga fram úr hófi og muna að rólegheit og nánd er þeim meira virði en allt heimsins prjál.“

Ekki vera of töff fyrir lífið

Áttu góða uppskrift fyrir okkur sem erum ekki eins miklir fagmenn þegar kemur að jólaboðum?

„Regla númer 1: Mættu. Regla númer 2: Gefðu af þér. Regla númer 3: Njóttu.

Það má alveg hafa fyrir hlutunum og öðru fólki og setja sig í stellingar í takt við tilefnið. Þessi tíð á að vera hátíðleg en afslöppuð og veita birtu og yl í myrkasta skammdegið hvað svo sem við teljumst vera; trúlaus, heiðin, kristin eða annað. Hafðu fyrir þér og umhverfinu, klæddu þig upp og þrífðu, skreyttu eða gerðu fínt en ekki vera of stressaður, stífur eða töff fyrir lífið. Hefðir spretta ekki af engu og margt af því sem sagt er gamaldags, hallærislegt eða púkalegt er einmitt af sömu ástæðum huggulegt og hlýlegt eða skemmtilegt.

Mannskepnan gleðst og gleymir sér í dansi og söng svo hristu af þér feimnina eða fordómana og taktu þátt. Taktu í höndina á næsta manni og finndu samstillinguna og samveruna sem felst í að kyrja misgáfulega texta með öðrum á meðan gengið er í tilgangslausa hringi eða þóst teygja þvott. Hafðu engar áhyggjur af hæfileikum, því það er ekki hægt að gera slíkt vitlaust eða asnalega ef það er gert af einlægni. Leyfðu þér smá galsa eða dagamun og svo líka að upplifa heilagleika; dvelja í andakt, taka inn fegurð og sýna virðingu – alveg burtséð frá afstöðu til trúar eða trúmála.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál