MAN hættir útgáfu

Björk Eiðsdóttir og Auður Húnfjörð vilja koma á framfæri þakklæti …
Björk Eiðsdóttir og Auður Húnfjörð vilja koma á framfæri þakklæti til starfsfólks sem margt hvert hafi starfað fyrir útgáfuna frá fyrsta degi, dyggra lesenda og áskrifenda.

Tímaritið MAN sem gefið hefur verið út af útgáfufélaginu Mantra ehf. frá árinu 2013 hættir útgáfu. Desembertölublaðið, sem forsetafrúin Eliza Reid prýddi forsíðuna á, var að sögn eigenda síðasta tölublað útgáfunnar.

„Það er auðvitað sárt að þurfa að hætta útgáfu þess sem að okkar mati hefur verið eitt vandaðasta tímarit landsins en sökum erfiðs rekstrarumhverfis sjáum við þá leið eina færa,“ segir Auður Húnfjörð, framkvæmdastjóri útgáfunnar. Félagið hefur verið rekið af henni ásamt Björk Eiðsdóttur, ritstjóra tímaritsins.

„Þó svo að tímaritið hafi fengið frábærar móttökur eru aðstæður til slíkrar útgáfu hér á landi, á þessum litla markaði, því miður nánast ómögulegar og fara síst batnandi. Við höfum frá degi eitt haft allt undir og reynt að láta reksturinn ganga upp, með því að vinna sjálfar allt það sem við gátum og skera niður þar sem hægt er án þess að það bitni á gæðum. Við alla vega reyndum allt sem við gátum og göngum að því leyti sáttar frá borði, þó svo að þetta sé ekki sársaukalaust,“ segir Björk.

mbl.is