Fagurkeri sem trúir á ástina og lífið

Elín María Björnsdóttir.
Elín María Björnsdóttir.

Elín María Björnsdóttir hefur djúpa þekkingu á flestu því sem viðkemur brúðkaupum. Hún eignaðist nýverið dóttur með unnusta sínum Claes Nilsson. Fyrir á hún tvær dætur. Hún mælir með einföldum klassískum fatnaði í brúðkaupsveislur og segir hjónabandið upphafið að innihaldsríku ferðalagi. 

Hvað ertu að gera um þessar mundir?

„Ég starfa hjá Marel þar sem ég sérhæfi mig í endurmenntun og þjálfun starfsfólksins. Um þessar mundir er ég hins vegar með nýfæddri dóttur minni, Matthildi Maríu. Fyrir á ég tvær dætur – Siggu Ósk og Tinnu Margréti.“

Elín María eignaðist nýlega sitt þriðja barn.
Elín María eignaðist nýlega sitt þriðja barn.

Hvað táknar brúðkaup í þínum huga?

„Gleðistund, upphaf og sameiningu fyrir þá sem ganga í hjónaband sem og fjölskyldur þeirra.“

Hvað trúir þú mest á tengt hjónaböndum?

„Ég trúi á ástina. Að hjónabandið sé musteri lífsins, þar sem þú sækir þér orku og styrk. Ég trúi að báðir aðilar þurfi að leggja inn í hjónabandið og maður skyldi líta á brúðkaupið sem upphaf á ákveðnu lífsferli.

Ég nota stundum lýsingu pabba á hjónabandinu sem hefur yfir 50 ára reynslu af því. Hann segir einstaklinga í hjónaböndum eins og tvö tré sem standa hlið við hlið, aðskilin. Bæði þurfa þau sól, næringu, birtu og tækifæri til að vaxa. Ef þau fá þetta svigrúm munu rótakerfi þeirra vaxa nær hvort öðru með árunum. Þannig standast hjónabönd með sterkar rætur verkefni lífsins. Andstæðan við þetta er þá kannski þegar annað tréð tekur allt plássið og hitt tréð vex ekki og þroskast í skugganum.“

Hvað er það mikilvægasta í ástarsamböndum?

„Ég er á því að pör eigi að setja sig sjálf í fyrsta sætið, síðan sambandið, svo börnin og síðan vinnuna. Með þessari forgangsröðun stendur maður sem sterkur einstaklingur sem getur verið til staðar fyrir sjálfan sig og aðra.“

Hver er uppáhaldssjálfshjálparbókin þín?

„Reinventing your life eftir Jeffrey Young. Bókin er notuð til grundvallar skemaþerapíu sem ég hef notast við lengi og kennt áfram til þeirra sem vilja umbylta lífinu, fara úr neikvæðu mynstri yfir í jákvæðara líf.“

Hverju mælirðu með að vera í sem gestur í brúðkaupi?

„Mér finnst fallegast að vera í kjól í brúðkaupum. Í vetrarbrúðkaupum er í lagi að vera í svörtum kjól en þá finnst mér nauðsynlegt að konur séu með rauðan varalit og í ljósum sokkabuxum og/eða skóm. Ég mæli með að konur forðist að vera í hvítum kjólum sem gestir í brúðkaupum. Ljósir kjólar eru fallegir, sér í lagi ef þeir eru með fallegum blómum eða mynstri.“

Hvað með fylgihluti?

„Ég kann að sjálfsögðu að meta hatta og hanska upp á breska vísu. Mér finnst blóm í hárið viðeigandi, annars er ég sjálf meira fyrir látlausa skartgripi og er með sígildan smekk, hvort heldur sem ég er að klæða mig upp á fyrir brúðkaup eða eitthvað annað.“

Elín María kann að meta Andreu í Hafnarfirði.
Elín María kann að meta Andreu í Hafnarfirði. rós Líndal

Hver er uppáhaldshönnuðurinn þinn?

„Ég held mikið upp á Andreu og kjólana hennar í dag. Mér hefur alltaf fundist mikil sjálfsvirðing fólgin í því að klæða sig fallega og finna sinn eigin stíl. Minn stíll breytist ekki mikið með árunum enda á ég mér klassískar fyrirmyndir sem héldu sínum stíl þrátt fyrir tískusveiflur. Konur eins og Audrey Hepburn, Jackie O og Grace Kelly hafa alltaf heillað mig. Enda voru þær allar sígildar og jafn mikið í tísku nú og hér áður.“

Hvaða ljósmyndara heldur þú upp á?

„Mér finnst fallegast þegar ljósmyndir fanga augnablikin. Ég fékk Bergljótu Þorsteinsdóttur heim þegar Matthildur dóttir mín var einungis tíu daga gömul. Ég vildi að ég hefði gert hið sama fyrir eldri dætur mínar. Hún er góð að fanga einlæg augnablik.

Eins finnst mér fallegustu myndirnar teknar af brúðhjónum heima að undirbúa sig, en ekki einungis myndirnar sem eru teknar í brúðkaupinu sjálfu. Þegar augun mætast í kirkjunni, hendur snertast í fyrsta skiptið eftir athöfnina eru fallegustu myndirnar að mínu mati. Enda er lífið samansafn af augnablikum sem þessum.“

rós Líndal
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál