„Ég hef alltaf elskað Eurovision!“

Fjölmargir kannast við skemmtikraftinn og hárgreiðslumanninn Skjöld Eyfjörð sem rak lengi hárstofuna Skjöldur 101 í miðborginni og kom reglulega fram í skemmtilegum blaðaviðtölum. 

Skjöldur flutti til Noregs fyrir um áratug og býr nú og starfar í Stavanger, ekki aðeins sem hárgreiðslumaður heldur einnig sem stílisti, dragdrottningin Mio Amore og söngvari. Hann er með glæsilega og fjölbreytta ferilskrá en á henni er meðal annars ferð á Eurovision-keppnina í Aþenu þar sem hann tók að sér að sjá um hárskraut dívunnar og vera henni innan handar með búninga umstangið sem henni fylgdi.

Skjöldur hefur verið mikill Eurovision-aðdáandi frá því hann man eftir sér. Eurovision-keppnin var til að mynda alltaf haldin hátíðleg á hans heimili og barnaskólakennarinn hans mikill aðdáandi.

„Kennarinn stóð til dæmis fyrir kosningu í bekknum sem mér fannst alveg geggjað spennandi. Ég hef alltaf elskað Eurovision! Lögin eru bæði góð og slæm en það er þessi yndislegi menningararfur, frá öllum þessum löndum sem koma saman og reyna að gera sitt besta á þremur mínútum. Svo eru það allir þessir klikkuðu búningar og dásamlega hræðilegu atriði sem standa alltaf fyrir sínu,“ segir Skjöldur og hlær.

„Það sem er líka svo fyndið með keppnina er að flestir hafa mjög sterkar skoðanir á henni, líka fólk sem horfir aldrei á hana,“ bætir hann við.

Töff og sætir strákar í gullskóm

Líkt og með okkur flest þá er eitt Eurovision-atriði sem á sér sérstakan stað í hjarta hans.

„Ég man eftir þessu eins og það hefði gerst í gær. Þetta var lagið Diggi loo diggi ley með Herreys frá Svíþjóð. Árið var 1984 og ég fimm ára. Þarna stóðu þrír rosalega töff og sætir strákar í GULLSKÓM sem ég hafði auðvitað aldrei séð í minni sveit. Í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu þrömmuðum við jú á gúmmístígvélum og vinnuklossum sem voru tískan í Kaupfélaginu það misserið.“

Skjöldur og Sylvía Nótt.
Skjöldur og Sylvía Nótt.
Skjöldur og Ágústa Eva árið 2006.
Skjöldur og Ágústa Eva árið 2006.

Hannaði höfuðskrautið fyrir Sylvíu Nótt úr fjaðurkústum

Eins og áður segir var Skjöldur í fremstu víglínu með Sylvíu Nótt árið 2006. Hann segir ferðina þá erfiðustu, en um leið skemmtilegustu sem hann hefur farið í og að undirbúningurinn hafi verið gríðarlegur. „Ég vil leyfa mér að fullyrða að enginn íslenskur listamaður hefur farið út með jafn margar ferðatöskur og hún Sylvía okkar. Við erum að tala um fjall!“

Við hönnun höfuðskrauts dívunnar notaðist Skjöldur við ýmsa afganga sem hann gróf upp í búningasafninu hjá RÚV og fjaðurkústa sem hann fann á markaði í miðborg Aþenu.

„Búningurinn varð ekki tilbúinn fyrr en á allra síðustu sekúndum enda þurftum við að sauma fjaðurdótið fast við hárið á greyinu svo það hryndi ekki úr í miðju atriði. Ég man að ég sagði við einhvern í hópnum að ef þetta væri líf poppstjörnunnar væri ekki að undra að þær færu stundum yfir um. Þetta var keyrsla sem stoppaði ekki í mínútu. Búningum, hári og förðun var breytt fyrir hverja uppákomu og hvert viðtal. Mig minnir að þetta hafi verið sirka sex sinnum á dag í þær tvær vikur sem við vorum þarna. Þrátt fyrir hasarinn var þetta líka tveggja vikna hláturskast enda geggjaður hópur og viðbjóðslega fyndið fólk.“

Skjöldur ásamt manni sínum.
Skjöldur ásamt manni sínum.

Ást og hatur á Hatara

Skjöldur segir að bæði Norðmenn og allir sem hann hefur talað við um keppnina í ár bæði elski og hati framlagið okkar en það sé alveg rétt spilað að senda konsept-atriði út í ár en ekki hefðbundið popplag.

„Sko. Við höfum ekki beint verið að slá í gegn í þessari keppni síðustu ár svo það er fullkomið að við séum með svona konsept-atriði núna. Ég lofa að það verður talað um okkur og það eru 50/50 líkur á því að því verði vel tekið. Annaðhvort munu kjósendur og dómnefndir elska það eða skella á lista yfir tíu verstu atriði Eurovision-sögunnar. Það skiptir samt engu máli. Málið er að skapa list og skemmtun enda getur þessi vettvangur opnað fyrir allskonar möguleika um allan heim.“

Getur ekki hugsað sér að missa af Elton John

Eins og við má búast er Skjöldur búinn að skipuleggja tvö stórfengleg partí fyrir undanúrslitin 14. og 16. maí, í hinni frægu Litagötu í Stavanger, en því miður, og ekki, missir hann af úrslitakvöldinu 18. þar sem þeir maðurinn hans, Magnús Jóhann Cornette halda í pílagrímsferð til Kaupmannahafnar að sjá Elton John.

„Þetta er seinasta tónleikaferðalagið hjá kallinum og við getum bara ekki misst af því!“

Löndin sem Skjöldur spáir velgengni

*Aserbaídsjan

*Belgía

*Króatía

*Kýpur

*Eistland

*Grikkland

*Ísland

*Malta

Löndin sem floppa

*Ástralía

*Portúgal

*Ástralía

*San Marínó

*England

Topp 5 bestu lögin frá upphafi

*Ár: 2000

Land: Kýpur

Lag: Nomiza

*Ár: 1987

Land: Írland

Lag: Hold me now

*Ár: 2005

Land: Malta

Lag: Angel

*Ár: 2012

Land: Svíþjóð

Lag: Euphoria

*Ár: 2015

Land: Ítalía

Lag: Grande Amore

Topp 5 verstu lög frá upphafi

*Ár: 2000

Land: Ísrael

Lag: Sameyakh

*Ár: 2008

Land: Eistland

Lag: Leto svet

*Ár: 1983

Land: Júgóslavía

Lag: Dzuli

*Ár: 2006

Land: Litháen

Lag: We are the winners

*Ár: 2010

Land: Hvíta-Rússland

Lag: Butterflyes

(Skjöldur mælir með því að

hlusta á lögin á YouTube)

Hér er Skjöldur á brúðkaupdaginn sinn þegar hann og Magnús …
Hér er Skjöldur á brúðkaupdaginn sinn þegar hann og Magnús Jóhann Cornette gengu í hjónaband.
Skjöldur leggur oft mikinn metnað í förðunina.
Skjöldur leggur oft mikinn metnað í förðunina.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »