Björn Ingi edrú í 100 daga og miklu léttari

Björn Ingi Hrafnsson er búinn að vera edrú í 100 …
Björn Ingi Hrafnsson er búinn að vera edrú í 100 daga sem er mikill áfangi. Ljósmynd/Facebook

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, er búinn að ná 100 dögum án hugbreytandi efna. Hann greindi frá því á Facebook-síðu sinni að þetta væri ákveðinn áfangi. 

„Í dag fagna ég því að hafa verið edrú í hundrað daga. Það er ekki mikill áfangi í sögulegu samhengi, en stórmál fyrir þann sem ákveður að viðurkenna vanmátt sinn og leita sér aðstoðar. Ekki síst þegar rannsóknir sýna að fyrstu 3-6 mánuðirnir í bataferlinu eru erfiðastir. Þegar maður ræðir jafn opinskátt um þessi mál og ég geri, fer ekki hjá því að maður heyri í fjölda fólks sem hefur náð frábærum árangri og verið án áfengis eða annarra vímuefna um árabil, jafnvel áratugaskeið. Þá finnst manni hundrað dagar ekki merkilegt afrek. En svo heyrir maður í fólki sem náði ekki hundrað dögum, fellur jafnvel ítrekað og er vonlítið, en rembist samt við að ná sér aftur á strik. Þá verður maður glaður með sitt. Þetta er nefnilega barátta á hverjum degi og sjálft lífið undir og lífshamingjan. Einn dag í einu,“ segir hann á facebooksíðu sinni. 

Björn Ingi er ekki bara búinn að vera edrú heldur hefur hann grennst heil ósköp. Sem er kannski ekki skrýtið því áfengi er mjög hitaeiningaríkt. Í fjórum stórum bjórum eru um 700 til 920 hitaeiningar. 

Björn Ingi Hrafnsson árið 2017.
Björn Ingi Hrafnsson árið 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is