„Ég er ennþá miður mín yfir þessu“

Elísabet Stefánsdóttir er gift tveggja barna móðir.
Elísabet Stefánsdóttir er gift tveggja barna móðir.

Elísabet Stefánsdóttir sem er tveggja barna gift móðir fékk vægt áfall jólin 2013 þegar dýrmætasta jólaskrautið brann.

„Dýrmætasta jólaskrautið sem ég á er kertin sem ég fékk í skóinn þegar ég var lítil, man ekki alveg hvenær, og líklegast hefur það verið Kertasníkir sem gaf mér þau. En það er það langt síðan að ég man ekki jól án þeirra, sem þýðir að í dag eru þau um 40 ára! Upphaflega voru þetta bara Jólasveinninn og Snjókallinn, jólatréð bættist við seinna. Líklegast hefur þetta slegið í gegn hjá jólasveinum þess tíma, því mér finnst ansi margir einmitt eiga eða hafa átt svona kerti,“ segir Elísabet.

Alla sína tíð hefur Elísabet skreytt með dýrmætu jólakertunum sínum.

„Við hraðspólum svo fram að aðfangadegi 2013. Þá er ég búin að eignast fjölskyldu og við hjónin að halda fjórðu jólin okkar saman. Ég er á fullu í eldhúsinu að klára að undirbúa jólamatinn og bið manninn minn að gera aðeins huggulegt með því að kveikja á kertum. Honum til varnar var nokkur fjöldi af kertum þarna í kringum dýrmætu kertin mín og hann getur verið frekar mikið fljótfær. Nokkru síðar kem ég fram og sem betur fer hélt ég ekki á neinu í höndunum því það hefði farið beint í gólfið. Elsku litli Snjókallinn, bara hálfur eftir. Ég varð miður mín og er ekki enn búin að jafna mig á þessu. Jólasveinninn stóð þarna óskaddaður en alveg hrikalega einmanna, að mér fannst. Ég skildi ekkert í því hvernig manninum mínum datt í hug að það væri í lagi að kveikja á Snjókallinum mínum og af hverju bara honum þá, en ekki Jólasveininum og jólatrénu líka? Eftir jólin fór ég á fullt að reyna að hafa uppi á framleiðandanum, sem var eitthvert fyrirtæki í Japan sem nú er hætt starfsemi. Ég meira að segja setti auglýsingu inn á Brask og brall, en það er enginn tilbúinn að láta frá sér sín eintök. Ég skil það vel.“

Og ertu að skreyta með brunnu kertunum í dag?

„Ég hef ekki skreytt með kertunum eftir þetta, þetta er bara eitthvað svo sorglegt. Jólasveinninn er eitthvað svo einmana án Snjókallsins og að hafa Jólasveininn og hálfbrunninn Snjókallinn er bara gríðarlega sorglegt líka eitthvað. En ég á þá enn, þeir eru saman í litla kassanum sínum.“

Áður en Elísabet giftist og eignaðist börn voru vinir hennar búnir að stofna fjölskyldu. Þegar henni fóru að berast jólakort með krúttlegum barna- og fjölskyldumyndum ákvað hún að taka málin í sínar hendur.

„Þegar ég var enn barnlaus og vinir mínir voru farnir að senda jólakort með myndum af börnunum sínum fannst mér bara mjög sniðug hugmynd að setja þetta uppáhalds jólaskraut í jólakortið ein jólin. Þannig að ég stillti þeim fallega upp og smellti af. Ljósmyndir geta verið dýrmætar. Ég ætti kannski bara að ramma myndina inn og skreyta með henni yfir jólin núna,“ segir hún og hlær.

Hér má sjá brunna snjókallinn.
Hér má sjá brunna snjókallinn.
Hér er jólakortið sem Elísabet sendi vinum og fjölskyldu áður …
Hér er jólakortið sem Elísabet sendi vinum og fjölskyldu áður en hún giftist og eignaðist börn.

Hvað finnst þér dýrmætast við jólin?

„Fyrir mér snúast jólin um stemmingu. Eftir að hafa verið barnlaus í langan tíma og þar með haft allan tíma í heiminum varð þetta aðeins yfirdrifið til að byrja með eftir að fjölskyldan kom. En núna reyni ég að vera meðvitað afslöppuð og set ekki miklar kvaðir á mig eða fjölskylduna. Ég reyni að hafa gaman og njóta. Ég elska að baka fyrir jólin og baka um sex sortir. Reyni að vanda valið í jólagjöfum og svo er það sjálfur jólamaturinn. Hér er engin ævintýramennska með jólamatinn, það er hamborgarhryggur með hefðbundnu meðlæti og svo ananasfrómas í eftir rétt, sem ég að vísu stalst til að bæta karamellukókoskurli ofan á og það er einstaklega ljúft og ferskt eftir reykta kjötið. Við fjölskyldan horfum saman á sígildar jólamyndir og höfum það huggulegt. Allt annað finnst mér vera aukaatriði. Jólin koma þrátt fyrir að ekki sé allt skínandi hreint og fínt.“

Langar þig í eitthvað sérstakt í jólagjöf?

„Ég er mjög spennt fyrir því að fá andlitsnæturkremið Bedtime Beauty Boost frá Oskia, sem er víst fullt af alls konar góðgæti fyrir húðina. En langar líka rosalega mikið í stafrænan lengdarmæli, þar sem ég er oft í framkvæmdum heima hjá mér. Stílhreinir silfurskartgripir slá líka alltaf í gegn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »