Steinar kominn með 62% af markmiðinu og ætlar alla leið

Steinar Sigurðsson tónlistarmaður og Crossfit-stjarna ætlar að ná markmiði sínu.
Steinar Sigurðsson tónlistarmaður og Crossfit-stjarna ætlar að ná markmiði sínu.

Steinar Sigurðsson tónlistarmaður er einn þekktasti saxófónleikari landsins. Hann er í því að láta draumana rætast og nú sem Mr. Martini (sem er afrakstur margra ára djass-, popp og fönkspilamennsku). Steinar er ekki bara góður tónlistarmaður heldur hefur hann margoft verið á verðlaunapalli í crossfit.

„Ég er í góðu formi og er að láta draumana rætast. Ég tók upp plötu á árinu sem hefur verið  draumur minn í meira en áratug. Það er að segja að taka upp sólóplötu en ekki vera hliðarmaður hjá öðrum. Auðvitað er þetta allt gaman en það er toppurinn að geta gert sitt eigið og staðið og fallið með því,“ segir Steinar. 

Steinar ákvað að vera ekkert að bíða með þetta. 

„Ég ákvað að taka það sem ég er að vinna við og er búinn að vera að þróa í mörg ár og gefa það út. Instrumental music til að spila í partíi. Ég spila mikið í fordrykkjum og móttökum og þetta er það sem ég geri þar. Ég vildi bara gefa það út og geta leyft fólki að heyra.  Á plötunni eru sex tökulög, flest vel þekkt og tvö lög eftir mig.  Við setjum þetta í svona djassy, funky filing, sem ætti að falla í kramið hjá mörgum. Þekkt lög en í skemmtilegum instrumental búningi. Ég ákvað að reyna að fjármagna verkefnið sem er kostnaðarsamt inn á Karolinafund.com. Þar er hægt að heita á verkefnið, kaupa plötu, geisladisk, download já og eða bara fá bandið live! Eða hreinlega bara styrkja.  Það er bara einn dagur eftir og ég er kominn með tæplega 62% af markmiðinu,“ segir Steinar. 

Mr. Martini kemur öllum í stuð.
Mr. Martini kemur öllum í stuð.

Fyrir 12 árum ákvað Steinar að taka heilsuna föstum tökum og byrjaði að æfa í Bootcamp. 

„Ég byrjaði þá í Bootcamp og þar sem ég er mikill keppnismaður þá varð ekki aftur snúið. Bootcamp var mjög svona „challenge“ drifið og það voru ávallt nýjar áskoranir sem leiddu fljótt út í keppnir í þrekmótaröðinni. Síðan varð crossfit til og ég kolféll fyrir því. Ég stóð að söfnun þar sem við rérum á róðrarvél í sjö daga undir nafninu 7x7 til að koma Annie Mist og Sveinbirni Sveinbjarnarsyni á fyrstu crossfit-leikana sem voru haldnir í Ameríku.  Ég byrjaði síðan að æfa crossfit þar sem það féll betur að keppnisumhverfinu og hef verið í því síðan þá,“ segir hann. 

Hann er þó ekkert að æfa bara smá því hann lenti í 4. sæti í sínum aldursflokki á Crossfit Open á Íslandi og hefur hann fengið boð um þátttöku á Íslandsmóti sem fram fer í byrjun febrúar 2020. 

„Ég hef keppt í ótal mótum, bæði crossfit og þrekmótaröðinni og ósjaldan staðið á palli, hef unnið liða- og parakeppni oftar en ég man. Besti árangur sem einstaklingur er hins vegar 2. sæti á Íslandsmóti í crossfit, ég stefni á að bæta það,“ segir Steinar. 

En hvers vegna er crossfit svona æðislegt?

„Ég stunda samt aðallega crossfit fyrir félagsskapinn, andinn er bara eitthvað sem drífur mig áfram, svo er ég svo heppinn að eiga börn og konu sem stunda þetta líka. Þannig er hægt að gera þetta enn skemmtilegra,“ segir hann. 

Aðspurður hvort hann hafi alltaf verið sá besti í bekknum í leikfimi segir hann svo ekki vera. Ekki þannig séð. 

„Ég var eflaust mikill íþróttamaður á mínum yngri árum en fór samt aldrei að æfa neitt af viti, var bara alltaf í tónlistarskólanum. Var samt valinn í bekkjar- og skólalið í marki í handbolta og fótbolta og keppti innan skólans í sundi já og skák,“ segir hann og hlær.

„En ég gerði ekki mikið við þennan íþróttaanda fyrr en eftir 25 ára,“ segir hann. 

Hvað um mataræðið. Hvernig er það?

„Ég borða bara fjölbreyttan mat. Ég hef hann frekar próteindrifinn, reyni að skera niður kolvetni, borða nánast aldrei hrísgrjón eða annað úr hvítu hveiti og borða sjaldan brauð. Reyni bara að borða góðan mat og forðast mikið unninn mat. Ætli ég sé ekki svona 80-20% maður þar sem „guilty pleasures“ eru súkkulaði og bjór. Ég vil góða íslenska micro bjóra.  En annars reyni ég bara að hafa þetta allt í jafnvægi og þá er ég góður bara. Það má kannski nefna það að ég borða aldrei KFC, Metro eða annað svoleiðis, ef ég borða skyndibita borða ég á Gló, Fresco eða Hananum.“

Hvað æfir þú oft í viku?  

„Ég æfi yfirleitt 4-6 sinnum í viku og fer það eftir því hvað æfingarnar eru erfiðar. Ég er aldrei betri andlega og líkamlega en eftir æfingu. Ef ég næ líka að fara í sund og taka heitan og kaldan pott og gufu þá líður mér eins og meistara. Ekki til betri tilfinning fyrir mann sjálfan en þetta „combo“.  Ég æfi í klukkutíma í senn, stundum kemur maður aðeins fyrir æfingar og hjólar, teygir, rúllar ef maður hefur tíma. Höfum líka stundum tekið 1-3 ferðir í himnastiganum í Kópavogi fyrir æfingar og jú stundum eftir. En það er lúxus ef maður hefur tíma í það,“ segir hann. 

Þegar Steinar er spurður hvort það séu engar freistingar sem verða á vegi hans í desember segir hann svo vera. 

„Desember er mjög hættulegur jú, smákökur og jólabjór!  Ég hef reynt að hafa þá reglu að æfa nánast alla daga í desember ef ég get. Æfingar hafa þau áhrif að þú vilt minna vera að sukka. Setur gott inn í daginn og ýtir þá því slæma út á móti.  Og það má líka benda á það að desember er yfirleitt mjög skemmtilegur og fjörugur mánuður í crossfit og það er í raun erfiðara að sleppa æfingu heldur en að mæta af því að það er svo gaman,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál