„Þú lætur ekki Kára Stefánsson bíða“

Sölvi Tryggvason var gestur Skoðanabræðra.
Sölvi Tryggvason var gestur Skoðanabræðra.

Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður heldur úti vinsælasta hlaðvarpi landsins, sem hann hleypti af stokkunum fyrr í sumar með viðtali við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Í viðtali við Skoðanabræður á föstudaginn sagði Sölvi frá því þegar honum varð það á að láta Kára Stefánsson bíða.

„Staðurinn sem ég tek þetta upp á er þannig að það eru læstar dyrnar niðri frá klukkan fimm. Ég er búinn að bóka Kára klukkan átta um kvöldið og ég hringi í hann upp úr sjö, við erum bara on, ekkert mál. Svo er ég með vinnufélögum uppi á annarri hæð og við erum dottnir í eitthvert spjall og svo lít ég allt í einu á klukkuna og hún er orðin 20.02. Þú lætur ekki Kára Stefánsson bíða,“ sagði Sölvi.

„Þannig að ég fer niður og hugsa shit, ætli hann sé kominn. Ég sé ósvarað símtal frá Kára, labba niður, og enginn Kári. Um leið og ég labba út sé ég SMS frá honum: „Ég kom, þú varst ekki á staðnum, ég er farinn.“,“ hélt Sölvi áfram. 

Sölvi gafst ekki upp og hringdi strax í Kára og lýsti símtalinu: „Fyrst segir hann: Ég get ekki komið. Síðan segir hann: Ég er þreyttur og mig langar bara heim,“ segir Sölvi. „Ég þekki Kára sko, ég segi: Mig langar rosa mikið að fá þig, ég lofa að það verður næs fyrir þig að koma í viðtal til mín. Kári segir: Ég veit að þú ert góður gæi, Sölvi, ég veit að þú ert æðislegur, en ég er þreyttur,“ segir Sölvi. „Ég gat ekki snúið honum við og ég var með mikinn hnút í maganum af því að ég hugsaði: Svona fer þetta podcast af stað.“

Fólk búið að fá nóg af stjórnmálamönnum

Hlaðvarpið hefur þó heldur betur farið vel af stað, eins og Sölvi segir. Hlustað hefur verið á viðtalið við Kára yfir 50.000 sinnum samanlagt og annað eins gildir um aðra þætti hjá Sölva. Á hinn bóginn nefndi Sölvi við Skoðanabræður að á hinum enda hlustunartölfræðinnar væri Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem væri með minnsta hlustun.

„Mér finnst leiðinlegt að segja það, af því að ég kann vel við Katrínu, að viðtalið við hana er minnst hlustaða viðtalið mitt hlutfallslega miðað við hvað það er búið að vera lengi í loftinu. Það er ekki af því að fólk er á móti Katrínu, það er bara af því að það er búið að fá nóg af stjórnmálamönnum,“ segir Sölvi.

Sölvi hefur þegar birt á þriðja tug viðtala, en „ég er náttúrulega búinn að vera í 120% vinnu með 0 krónur í innkomu síðan ég byrjaði,“ segir Sölvi. Á endanum hljóti einhverjir styrktaraðilar að koma inn í myndina.

Björgólfur hrikalega áhugaverður gæi

Sölvi lætur sér ekki nægja að fá forsætisráðherra og Kára Stefánsson í þáttinn heldur er æðsta takmarkið hans að fá til sín Björgólf Thor Björgólfsson fjárfesti, sem hefur ekki veitt ítarlegt viðtal frá 2011.

„Mig langar mest að taka viðtal við hann. Óháð öllum skoðunum sem maður hefur á honum varðandi hrunið og allt það, er þetta bara hrikalega áhugaverður gæi, bara svona ef hann er að hlusta,“ segir Sölvi, sem reyndi að auka líkurnar með því að slá manninum nokkra gullhamra: „Það voru aðrir sem enduðu fyrir dómi, það er ekki af því að það gildi ekki sömu lög um hann eins og hina. Þú getur alveg fært rök fyrir því að Björgólfur Thor hafi gert eitthvað sem var siðferðislega vafasamt, en hann var réttu megin við lögin, sem sumir voru bara ekki.“

Sölvi og Skoðanabræður ræddu ýmislegt fleira í þættinum, allt frá símafíkn og eiturlyfjum til kvennamála og kórónuveirunnar. Meðal annars kom fram að Sölvi hafi látið allt vera nema áfengi, það er að segja, þar til hann var 35 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál