Það leynast áhugaverðar sögur í öllum ættum

Leikkonan Þóra Karítas Árnadóttir er umsjónarmaður Hver ertu?
Leikkonan Þóra Karítas Árnadóttir er umsjónarmaður Hver ertu? Ljósmynd/Saga Sig

Leikkonan Þóra Karítas Árnadóttir er handritshöfundur og umsjónarmaður þáttanna Hver ertu? sem hefja göngu sína á Sjónvarpi Símans í dag, fimmtudaginn 1. október. Í þáttunum eru ættartré nokkurra þjóðþekktra Íslendinga grandskoðuð. 

Þóra segist vera mikill grúskari og hefur áhuga á fólki og samfélaginu sem við lifum í. Hún segist þó ekki mikið fræðst um eigin sögu fyrr en hún skrifaði bókina Mörk sem kom út árið 2015. „Sagan krafðist þess að ég færi að grúska í sögum úr móðurættinni og þá komst ég að þvi hvað það er gaman að horfa aðeins aftur fyrir sig og tengja sig við kynslóðirnar, gömlu Reykjavík og draga fram sögur sem hverfa annars í tímans haf,“ segir Þóra í viðtali við mbl.is. 

Viðmælendur eru Lilja Pálmadóttir, Hannes Þór Halldórsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Unnsteinn Manuel Stefánsson, Hera Hilmarsdóttir og Bogi Ágústson en viðmælendurna valdi Þóra ásamt leikstjóranum Lalla Jónsson og framleiðsluteyminu hjá Republik sem framleiðir þættina. 

„Það voru ótal margar sögur og viðmælendur sem ég hefði gjarnan vilja koma að en komust ekki að í þessari seríu og verður úr nógu að velja ef það verður farið út í að gera fleiri þætti fyrir Símann. Þetta er flókið viðfangsefni og í raun eins og að gera sex heimildamyndir fremur en hefðbundna viðtalsþætti og því mikill tími sem fer í að gera hvern og einn þátt,“ segir Þóra.

Ættartré Boga Ágústssonar er skoðað í þáttunum.
Ættartré Boga Ágústssonar er skoðað í þáttunum. Ljósmynd/Republik

Heimsóttu Angóla rétt fyrir heimsfaraldur

Í þættinum um Unnstein Manuel ferðast þau til Angóla en hann er ættaður þaðan. Þóra segir ferðina hafa verið magnaða en þau rétt komust í hana áður en kórónuveiran setti mark sitt á heiminn. 

„Angóla er alveg sér á báti og þetta var einhvern veginn eins og að vera staddur í öllum borgum í heiminum í einu því það er svo mikil fjölbreytni og áberandi misskipting í Angóla. Nútímaleg höfn og sögulegar byggingar þegar maður horfir í eina átt og svo æpandi fátækt ef þú horfir í aðra átt og allt í bland. Millistéttin þar býr við fábreyttan kost og skertan aðgang að vatni og rafmagni.

Ég var ágætlega undirbúin því ég hafði heimsótt fátækasta land í Afríku ári áður þegar ég fór til Malaví á vegum UN Women en þarna kom fátækin meira aftan að mér því ásjóna borgarinnar ber þess merki að það eru miklar auðlindir í landinu. Það var magnað að fá að heimsækja þá staði sem móðir Unnsteins Ana Maria hefur munað alla tíð en hún fór frá landinu barn að aldri. Við heimsóttum meðal annars nokkurs konar paradísareyju eða tanga sem við sigldum til. Ana Maria hefur ekki getað heimsótt það síðan út af heilsufarslegum aðstæðum annars hefðum við tekið hana með okkur en ég vona að þátturinn færi hana svolítið heim til upprunalandsins þegar hún horfir á hann,“ segir Þóra. 

Unnsteinn og Þóra fóru til Angóla.
Unnsteinn og Þóra fóru til Angóla. Ljósmynd/Unnsteinn

En hver er Þóra?

„Ég er eins og svo margir Íslendingar eins og Bogi Ágústsson orðar svo vel í þáttunum komin af vinnufólki, húsfreyjum, bændum, verkafólki, kennurum og alls konar fólki af öllum stéttum eftir því hve við förum langt aftur í fortíðina. Ég held það leynist áhugaverðar sögur í öllum ættum en það er til dæmis ein ástarsaga sem mér finnst áhugaverð í móðurættinni minni og ég tel ég eigi þessari ástarsögu meðal annars lífið og genasamsetninguna að þakka,“ segir Þóra. 

Forfaðir hennar Guðmundur Ingimundarson, fæddur árið 1844 í Torfastaðasókn, vildi læra til prests en fékk ekki leyfi frá foreldrum sínum til þess. Ekki fyrr en vinnukonan Guðbjörg Egilsdóttir kom í sveitina og ljóst var að þau hefðu fellt hugi saman. 

„Þá var honum skipað að fara til Reykjavíkur til náms og verða að manni en fékk ekki leyfi til að gifta sig. Hann fór suður með eigur sínar til að selja í því skyni að kosta námið en hann seldi allt nema hest og reið til baka og sótti Guðbjörgu sína og þau fluttust saman til Grindavíkur og Guðmundur fór að vinna á bát og þau eignuðust fimm börn. Guðmundur lifði einungis til fertugs því hann stakk sig á öngli og lést úr blóðeitrun en þau eiga áttatíu og sjö afkomendur sem eru nú á lífi og ef ekki fyrir þessa óhlýðni hans við foreldrana væri ég og ættin ekki til,“ segir Þóra. 

Lilja Pálmadóttir fer með Þóru í ferðalag.
Lilja Pálmadóttir fer með Þóru í ferðalag. Ljósmynd/Republik
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál