Varð klökkur á að sjá fátæktina

Magnús Scheving er gestur Sölva Tryggvasonar.
Magnús Scheving er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Scheving er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. Leikfimikennarinn sem endaði á sjónvarpsskjáum milljóna manna um allan heim segir í þættinum frá merkilegustu augnablikunum í ótrúlegri atburðarrás Latabæjar, þar sem Magnús var með nánast stanslausa dagskrá frá morgni til kvölds á hverjum einasta degi í áraraðir. Eftir áralanga vinnu komst hugverk Magga á þann stað að börn úti um allan heim elskuðu Latabæ.

„Ég fór og heimsótti mikið af fátækrahverfum í Mexico City til dæmis og það var alveg sama hvar ég kom, það þekktu þetta allir. Svo erum við einu sinni að keyra á hraðbrautinni og sjáum útundan okkur í einu hverfinu að Latibær er að skemmta úti á götu og allir í búningum. Ég bað bílstjórann um að beygja og fara þarna niður eftir og þegar við stoppum sjáum við að það er sýning í gangi. Þeir sem voru með sýninguna sáu mig og þekktu mig strax og af því að þetta var „pirate“ útgáfa af Latabæ held ég að þeir hafi verið hræddir að ég yrði ósáttur. En þegar ég sagðist endilega vilja að þeir héldu áfram og settist niður fann ég gleðina og virðinguna og það komu fleiri hundruð börn þarna að. Á heimilum margra þeirra voru ekki einu sinni til sjónvörp, en samt þekktu þau þetta öll. Að upplifa það þegar þessi börn voru að sýna mér æfingarnar og virðingin öll var algjörlega ótrúlegt. Maður varð bara klökkur.“

Þegar framleiðslan á Latabæ stóð sem hæst var dagskrá Magnúsar skipulögð nánast hvern einasta dag mörg ár fram í tímann. Maggi segir að það hafi komið eðlilega fyrir hann að hugsa svona stórt. Hann segir til einföldunar að ástæðurnar séu tvær.

„Annars vegar ætlaði að læra að vera arkitekt og hönnun og fór að læra smíði og þá sagði smiðurinn við mig: „Ég ætla að kenna þér þannig að ég ætla ekki að tala við þig“. Það sem hann átti við var að með því að veita öllu sem væri að gera næga eftirtekt þyrfti ég að læra sjálfstæð vinnubrögð og átta mig á því hvenær vantaði hluti og að hugsa fram í tímann. Með því að æfa sig í því að hugsa fram í tímann og hvað þarf að gerast byrjar heilinn í manni að vinna öðruvísi. Þarna lærði ég mjög mikið. Hitt var svo að kenna leikfimi. Þú ert með hundrað manns í tíma í sextíu mínútur og allir koma með mismunandi ástæður og þarfir í tímann. Einn vill horfa á kennarann, annar vill heyra góða tónlist, sá þriðji vill bæta þol, sá næsti vill betri rass og enn annar vill bara útrás og gleyma vinnunni sinni. Þú þarft að sníða þetta þannig að öllum líði eins og þeir hafi fengið sitt og maður lærir rosalega á þessu ef maður setur metnað í það.“

Í þættinum fara Sölvi og Magnús yfir feril Magga, sem verður að teljast einn merkilegasti frumkvöðull Íslandssögunnar. Leikfimikennarinn sem endaði á sjónvarpsskjáum milljóna manna um allan heim ræðir um hvað þarf að hafa til brunns að bera sem frumkvöðull, lykilatriðin í að vera hamingjusamur í lífinu og fleira og fleira.

Þáttinn er hægt að nálgast á hlaðvarpsvef mbl.is og einni í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál