Meðvituð um að draga úr neysluhyggjunni

Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir

Kristín Valdemarsdóttir hefur í gegnum tíðina lagt mikið upp úr því að taka fallegar myndir af dætrum sínum, en hún er áhugaljósmyndari með mikla ástírðu fyrir jólunum og öllu sem jólastússi fylgir. Síðustu ár hefur hún reynt að draga úr streitu og það gerir hún með því að draga úr neysluhyggjur og njóta litlu hlutanna eins og búa til sitt eigið Bailey's. 

Kristín er íþróttakennari og áhugaljósmyndari sem býr í Mosfellsbæ. Hún hefur einstaklega gaman af fallegum jólaljósmyndum.

„Ég er áhugaljósmyndari og fannst alltaf svo gaman að skoða fallegar vetrar- og jólamyndir. Mér leið eitthvað svo vel í hjartanu að skoða þannig myndir. Í október árið 2013 fékk ég svo þá hugmynd að taka nokkrar ljósmyndir af stelpunum mínum og vera með jólamyndadagatal í desember þar sem ég myndi birta eina mynd á dag á aðventunni. Ljósmyndir sem fá fólk til að gleyma stressinu og ná fram notalegri „nostalgíutilfinningu“ sem er svo góð. Þessi litla hugmynd hefur undið ansi mikið upp á sig og hef ég núna verið með þetta dagatal síðan eða í sjö skipti.“

Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir

Tekur ljósmyndir af dætrum sínum í alls konar ævintýrum

Kristín hefur tekið myndir af stelpunum sínum í alls kyns ævintýrum.

„Við höfum skreytt jólatré í Heiðmörkinni, farið í vetrar-lautarferð, grillað sykurpúða yfir opnum eldi, rölt um Árbæjarsafn, rennt okkur á gamaldags sleða og margt fleira. Síðan hef ég líka verið að gera alls kyns jólaföndur, fallegar vetraruppstillingar, uppskriftir að ætum gjöfum og margt fleira. Ég hef náð að framkvæma mjög mikið af hugmyndum mínum en á ennþá nokkrar eftir sem ég vonandi næ í framtíðinni.“

Kristín segir ljósmyndadagatalið taka dágóðan tíma.

„Hugmyndavinnan er í gangi allt árið en fer á fullt um haustið. Ég fæ hugmyndir úti um allt, bæði af Pinterest og Instagram og svo hef ég sótt hugmyndir í íslenskar jólahefðir og íslenska náttúru.

Þá fer mikill tími hjá mér í að safna ýmsum hlutum og fatnaði. Eitt árið lét ég sem dæmi sauma rauðhettuslár úr gömlu stofugardínunum hennar mömmu. Svo hef ég staðið mig að því að kaupa föt á stelpurnar sem eru bara fyrir einhverja ákveðna myndatöku og ég veit að þær munu svo aldrei fara aftur í. En það skiptir miklu máli fyrir heildarmyndina að vera í réttum klæðnaði.

Svo þarf að útfæra þetta allt saman og finna rétta tímann í myndatökurnar þegar dætur mínar komast og þegar veðrið er í lagi. Það er ekki alltaf hægt að treysta á veðrið eða birtuna hér á Íslandi í desember. Stundum hefur ekki komið neinn snjór í desember og því hef ég tekið myndirnar sem ég var búin að ákveða í janúar og febrúar og geymt fram að næstu jólum.“

Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir

Fær útrás fyrir listamanninn á jólunum

Hvað ertu þakklát fyrir þessu tengt?

„Þetta verkefni hefur ýtt mér út úr þægindahringnum og sett á mig ákveðna pressu. Sem betur fer því annars ætti ég ekki þessar dásamlegu jólamyndir. Ég er alltaf á leiðinni að hætta með þetta. Dætur mínar eru orðnar unglingar og hættar að nenna að sitja fyrir hjá mömmunni, en það er samt svolítið erfitt að hætta og er þetta orðið hluti af jólunum og jólaundirbúningnum hjá mér.

Þetta er líka mjög dýrmætt fyrir dætur mínar þegar þær verða eldri að eiga allar þessar ævintýralegu jólamyndir af sér.

Svo veitir þetta mér mikla gleði þar sem ég næ að fá smá útrás fyrir listamanninn í mér og ekki er það verra ef ég næ að gleðja einhverja í leiðinni í desember, því fyrir mér eru jólin ekki bara hátíð heldur tilfinning.“

Jólin eru ævintýralega falleg hjá þér. Hvað getur þú sagt mér um undirbúninginn?

„Ég er mikil jólastelpa og byrja snemma að hugsa til jólanna. Ég byrja rólega að skreyta heima hjá mér um mánaðamótin nóvember/desember og bæti smátt og smátt við. Ég er samt mjög meðvituð um það að njóta aðventunnar og hlaða ekki of miklu af atburðum og verkefnum á mig í desember. Ég er einnig mjög meðvituð um að draga úr neysluhyggjunni. Við erum búin að minnka gjafirnar mjög mikið núna seinni árin og það hefur minnkað stressið í desember.“

Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir

Fær hugmyndir alls staðar frá

Hvaðan koma hugmyndirnar þínar?

„Ég er ekkert að finna upp hjólið en hugmyndirnar koma alls staðar frá. Stundum er eitthvað sem kemur upp í hugann en mikið kemur af Pinterest eða Instagram. Ég sé oft einhverja skemmtilega hugmynd en geri svo mína útfærslu af henni. Oftast er þetta verkefni sem ég tvinna saman við jólamyndadagatalið mitt.“

Getur þú sagt frá einhverju sem þú gerir alltaf fyrir jólin?

„Ég vil hafa desember eins rólegan og ég get og reyni því að gera ekki of mikið. Ég vil helst bara njóta og upplifa. Ég sker alltaf út laufabrauð með fjölskyldunni. Baka lakkrístoppa með stelpunum og geri jólaísinn.

Þegar stelpurnar voru yngri var ég alltaf með samverudagatal en núna þegar þær eru báðar orðnar uppteknir unglingar gerum við bara eitthvað kósí saman sem passar inn í þeirra skipulag.“

Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir

Heimalagað Bailey's

1 peli rjómi

1 dós niðursoðin mjólk

200-400 ml viskí (smekksatriði)

1 tsk. skyndikaffi (duftið)

2 msk. súkkulaðisíróp (Hershey's)

1 tsk. vanilludropar

Setið allt hráefnið í blandara og á mesta hraða í 30 sekúndur.

Setjið á lokaðar flöskur og geymið í kæli.

Hristið fyrir notkun.

Geymist í kæli í um mánuð. Það er ágætt að skrifa dagsetningar á miðann.

Ég gerði tvöfalda uppskrift og hún dugði á sex flöskur.

Í uppskriftinni, sem ég fann á netinu, var helmingi meira af viskíi. Þegar ég gerði fyrstu uppskrift fannst mér allt of mikið viskíbragð þannig að ég minnkaði það um helming. Þannig að þegar þið gerið uppskriftina þá mæli ég með að þið byrjið á að setja minna viskí og svo bara bæta við eftir smekk.

Ég notaði flöskur undan Froosh smoothie og bjó miðana til sjálf.

Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir

Gerir jóla-lautarferð heima

Hvað með skemmtilega kvöldstund með börnunum?

„Við fjölskyldan erum með skemmtilega hefð á Þorláksmessukvöldi. Þegar búið er að skreyta allt og þrífa og enginn nennir að elda og óhreinka eldhúsið förum við í lautarferð í stofunni. Pöntum pítsu, slökkvum öll ljós í húsinu nema jólaljósin og kertaljós og setjum teppi á stofugólfið og borðum pítsuna saman eins og í lautarferð. Svo horfum við saman á skemmtilega jólamynd. Þetta finnst stelpunum æðislegt og tala um að þetta sé þeirra jólahefð.“

Hvernig skreytirðu pakkana?

„Það er mjög misjafnt. Stundum legg ég mikinn metnað í pakkana en stundum er þetta bara mjög einfalt. Það fer svolítið eftir hver fær pakkann.“

Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Ljósmynd/Kristín Valdemarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »