Elín er orðin sextug og lætur draumana rætast

Elín Hirst er umsjónarmaður þáttanna, Hvað höfum við gert? sem …
Elín Hirst er umsjónarmaður þáttanna, Hvað höfum við gert? sem sýndir eru á RÚV.

Elín Hirst segir frá því í viðtali við vefinn Lifðu núna hvernig líf hennar hefur breyst á síðustu árum. Eftir að hún hætti á Alþingi fór hún að vinna við ástríðu sína, að búa til sjónvarpsþætti um loftslagsmál sem heita Hvað höfum við gert? sem sýndir eru á RÚV. Nú er hún orðin sextug og er fráskilin eftir 35 ára hjónaband.

„Þetta var 2016 en síðan höfum við öll orðið meira meðvituð um þessa miklu vá. Ég hugsaði með mér að þarna væri tækifæri til að búa til gott efni fyrir sjónvarpsáhorfendur á Íslandi. Þegar ég kom heim hringdi ég í Þórhall Gunnarsson, sem þá var orðinn framkvæmdastjóri hjá Sagafilm, og bar upp við hann þessa hugmynd. Honum leist strax mjög vel á málið og úr varð að við gerðum stóra þáttaröð um loftslagsvána sem að okkur steðjar í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Nú er ekki síður þörf á þeirri áminningu og þessa dagana er einmitt að koma út önnur sjónvarpssería frá okkur hjá Sagafilm um þessi mál,“ segir Elín í viðtali við Lifðu núna.

Elín er nýorðin sextug og er nú fráskilin en Smartland greindi frá því á sínum tíma.

„Ég og eiginmaður minn til 35 ára ákváðum að tímabært væri að halda hvort í sína áttina. Ef ekki er sameiginlegur hljómgrunnur sem er nauðsynlegur í hverju hjónabandi þá er best að leiðir skilji,“ segir Elín og brosir en tekur fram að auðvitað haldi tengslin alltaf áfram í gegnum börn og barnabörn. „Ég er virkilega þakklát fyrir að vera við góða heilsu og hafa mikla starfsorku því það er sannarlega ekki sjálfgefið. Á meðan er ég staðráðin í að nýta allt sem ég hef fram að færa til góðs fyrir samfélagið,“ segir Elín. 

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni HÉR. 

mbl.is

Bloggað um fréttina