Dagbjört Rúriks opnar sig í persónulegu myndbandi

Dagbjört Rúriksdóttir gaf úr lagið Séð, heyrð og elskuð í …
Dagbjört Rúriksdóttir gaf úr lagið Séð, heyrð og elskuð í dag. Samsett mynd

Tónlistarkonan Dagbjört Rúriksdóttir gaf út nýtt lag í dag. Lagið ber titilinn Séð, heyrð og elskuð en í laginu syngur Dagbjört um að fyrirgefa sjálfri sér fyrir að hafa ekki sýnt sér nægilega mikla ást í æsku. 

„Séð, heyrð og elskuð snýst um að sigrast á eigin djöflum, áföllum, höfnun og því sem hefur skilið eftir ör í gegnum árin,“ segir Dagbjört. Við lagið gerði hún mjög persónulegt myndband þar sem lagið stendur henni nærri. Í því má sjá samansafn af brotum úr æsku hennar en tökurnar fóru fram fyrir utan æskuheimili hennar, grunnskólann sem hún var í og fleiri staði úr æsku hennar. 

„Lagið snýst líka um að fyrirgefa sjálfri mér fyrir að hafa ekki sýnt litlu stelpunni í mér næga ást, viðurkenningu og virðingu en textinn var samt fyrst og fremst innblásinn vegna reynslu af nákominni manneskju í mínu lífi. Þetta má túlka á alls konar vegu. Það fer eiginlega bara eftir hvernig fólk tengir. Lagið snýst líka um að finna sátt í núinu sama hver fortíðin er, sjálfskoðun og vilja til að gera betur eftir eigin mistök.“

Í myndbandinu fer hún á æskuslóðir sínar.
Í myndbandinu fer hún á æskuslóðir sínar. Ljósmynd/Aðsend

Myndbandið klippti vinkona hennar Álfrún Kolbrúnardóttir og Stefán Örn Gunnlaugsson pródúseraði og mixaði lagið. Sigurdór Guðmundsson masteraði lagið og förðunarfræðingurinn Kolfinna Bergþóra Bjarnadóttir sá um förðun í myndbandinu. 

„Von mín og tilgangur þess að gefa út lagið og myndbandið er bæði vegna þess að ég vil ná til fólks, sama hvort það er bara einn eða fleiri sem þetta nær til, og minna aðra á að það er hægt að komast í gegnum erfiðleika sem sterkari manneskja. Það þarf ekki aðeins að brjóta mann. Að maður þurfi ekki að vera fullkominn sjálfur heldur. Maður lifir og lærir. Þetta lag er líka bara mikið uppgjör fyrir mig og ég gerði þetta líka fyrir sjálfa mig og listakonuna í mér sem hafði mikla þörf fyrir að tjá þetta,“ segir Dagbjört. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál