„Ég er ekki dúddinn sem er að drekka bjór með fólki“

Birgir Jónsson.
Birgir Jónsson. Ljósmynd/Aðsend

Birgir Jónsson fyrrverandi forstjóri Póstsins og rokkstjarna er gestur Snæbjörns Ragnarssonar að þessu sinni í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk. Birgir skorast ekki undan áskorunum. Í gegnum tíðina hefur hann verið forstjóri ýmissa fyrirtækja á borð við Iceland Express og Póstsins trommað í hljómsveitinni DIMMU og um þessar mundir rekur hann Madison Ilmhús með konu sinni Lísu Ólafsdóttur. Líf Birgis er ekki bundið við heimabæinn Kópavog því hann hefur búið í Hong Kong þar sem hann upplifði SARS-faraldurinn, í Rúmeníu og London. Líf Birgis er samansett af mörgum verkefnum, en bútasaumurinn miðast af því að hafa ætíð ástríðu fyrir þeim verkefnum sem hann tekur að sér; mikilvægast sé að vera alltaf spenntari fyrir því sem koma skal en því sem á undan er gengið.

Birgir talar um það hvernig stjórnandi hann sé og telur mikilvægt að vera bæði heiðarlegur og að halda fjarlægð við samstarfsfólk og undirmenn.

„Þetta er listin. Ef maður er [...] í svona forstjórastöðu þá skiptir svo miklu máli að halda yfirsýninni. Maður þarf að vera, sko, aðeins í burtu og geta séð stóru myndina. Það þýðir líka það að maður getur ekki verið of mikill vinur fólkst sem maður er að vinna með. Ég er ekkert dúdinn sem er alltaf að drekka bjór með fólki, skilurðu. [...] Maður þarf að halda þessari fjarlægð sko, sem er líka dolítið erfitt því maður kann kannski vel við fólk sem maður er að vinna með.“

Birgir tók þátt í að snúa við rekstri Póstins. Um hópuppsagnirnar hjá póstinum og hvernig stjórnin þar ákvað að nálgast þær tók hann eftirfarandi fram. 

„Þess vegna skipti þetta rosalega miklu máli hjá Póstinum [...] að við byrjuðum – við vissum alveg að við þyrftum að segja upp nokkur hundruð manns – [...] fyrsta hópuppsögnin sem var, ég man ekki, 70-80 manns, eitthvað svoleiðis, hún var öll hjá stjórnendum. Þannig að við pössuðum okkur á því að fara ekki í [...] fólkið sem vann störfin. [...] Þannig að þetta voru bara millistjórnendur. [...] Þetta eru allt einstaklingar og ég ætla ekkert að segja að þetta sé eitthvað auðveldara fyrir einhverja einstaklinga að lenda í þessu, en það var allavega til að sýna fólkinu sem upplifði sig kannski sem áhrifaminnst, sem var kannski bara fólkið sem þú sérð dreifa póstið eða [...] almennir starfsmenn, að það væri ekki að upplifa það að þetta væri bara eitthvað fólk á skrifstofunni sem væri ekkert að hugsa um það. Heldur að þetta gengi yfir allt fyrirtækið, það gengi það sama yfir alla. [...] það skipti máli, en eins og ég segi, auðvitað er alltaf ömurlegt að lenda í þessu og þurfa að gera þetta.“

Birgir rekur Madison Ilmhús ásamt konu sinni Lísu. Ilmhúsið er ekki hefðbundið fyrirtæki í gróðahugleiðingum, en hugmyndin bakvið það er aðallega áhersla á gæði í anda hægrar tísku.

„Ég hef rosalega mikinn áhuga á – og þetta var reyndar mín hugmynd til þess að gera að ég hafði svo mikinn áhuga á konseptinu á bakvið vörurnar, sko. Ég hafði svo mikinn áhuga á þessu „anti-marketing“ dæmi sem var í þessu, sko. [...] þetta eru svona vörur sem eru á móti þessu „mass market“. Við erum að selja ilmvötn sem eru ekki það sem þú færð í fríhöfninni. [...] þú færð ekki ókeypis sundbolta með eða snyrtitösku [...] og við megum ekki auglýsa, við mættum ekki vera með heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu [...] búðin mætti ekki vera í Kringlunni. Þetta þarf að vera svona nett „word of mouth.“

Snæbjörn svarar: „Sumir kalla þetta snobb.“

En Birgir bætir við: „Þetta er ekki snobb. Þetta er gæði.“

Birgir upplifir ekki einn dag þar sem hann er ekki nefndur „Biggi í DIMMU.“ Hann upplifði kulnun í sambandi við tónlistina, var farinn að horfa á hljóðfærin sín sem vinnutæki og gleðin hvarf sem varð til þess að hann sagði sig að endingu frá sveitinni.

Þegar hann er spurður hvað sé framundan hjá honum segir Birgir að eins og staðan sé núna muni hann aldrei aftur taka að sér verkefni sem tengist pólitík eða opinberum rekstri. Hann telur að sínar áherslur í vinnu séu aðrar en gengur og gerist í íslenskri flokkapólitík. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál