Allt breyttist við að verða pabbi

Aðalbjörn Tryggvason.
Aðalbjörn Tryggvason.

Aðalbjörn Tryggvason er betur þekktur sem Addi í Sólstöfum er gestur vikunnar hjá Snæbirni Ragnarssyni í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk. Addi er ein stærsta þungarokksstjarna Íslendinga en í sínu daglega lífi er hann andlega þenkjandi snyrtipinni með áhuga á edrúlífi. Það hefur þó ekki alltaf verið svo; áður en hann varð edrú var hann til að mynda „sponsaður“ af Jim Beam viskíi og gat ekki ímyndað sér að koma fram allsgáður. Addi leyfir okkur að fá innsýn í hin ótrúlegustu ævintýri sem hann hefur upplifað í gegnum árin, það góða og það slæma, sögu Sólstafa og erfiðar breytingar innan hljómsveitarinnar í gegnum árin. Í dag á Addi dóttur, vinnur sem hljóðmaður og nýtur þess að vera í tengingu við lífið í kringum sig, meðfram því að vera áfram hrein og tær rokkstjarna.
Gott spjall.

Addi talar um hvað það er ólíkt að standa á sviði og vera í sínum „karakter“ og að vera bara Addi sem býr í Reykjavík og fer niður í bæ.

„Maður er missterkur á svellinu. Á ég að segja þér gott dæmi um að vera missterkur á svellinu? [...] Ég held ég hafi verið að spila á Hellfest eða Graspop eða eitthvað, held að það hafi verið 30.000 manns í tjaldinu. Stærsta tjald sem ég hef séð, bara eins og tvær Egilshallir. Gígantískt! 30.000 manns og við spiluðum í klukkutíma [...] geggjað stuð! Mér leið bara eins og James Hetfield. Svo kem ég heim og skelli mér niður í bæ og er innan um fólk í svona gömlu húsi og allir að drekka kaffi og svona. Mig langaði svo í kaffi en ég kunni ekki við að standa upp af því það myndi heyrast svo mikið í öllu húsinu og [...] Ég vildi ekki vekja athygli á mér, ég vildi ekki trufla. Þegar ég er nýbúinn að sleppa þessari hugsun þá labbar inn svona gömul kona, skellir hurðinni á eftir sér og svona hlammar sér í stól og [hefur hátt] Ég bara, what the fuck. Í gær var ég James Hetfield og í dag kann ég ekki við að taka pláss til að fá mér kaffi. Hvað er þetta?“

Árið 2015 kom upp klofningur í hljómsveitinni Sólstöfum sem endaði með lögmáli. Þáverandi trommuleikarinn Guðmundur Óli Pálmason og Aðalbjörn áttu saman fyrirtækið Svalbard sem var notað utan um sölu varnings fyrir Sólstafi og fleira þess háttar. Guðmundur hóf lögsótti Aðalbjörn í gegnum fyrirtækið Svalbard, án samþykkis Aðalbjörns, og var Addi þá í raun í máli við sjálfan sig þar sem hann var 50% eigandi. Málið snerist um að fyrirtækið Svalbard ætti nafnið Sólstafi og því þyrfti leyfi þess (og þar af leiðandi Guðmunds) til að nota nafnið áfram.

Málið er enn í ferli og síðustu fréttir sem Aðalbjörn man að hafa fengið af því er að nafnið Sólstafir tilheyri í raun „félagsskapnum Sólstöfum“ – hvað sem það þýðir.

Addi segir að þeir Guðmundur hafi verið vinir frá því þeir voru pollar, hafi verið saman á hjólabretti í æsku og verið þrusugott teymi í sköpunarferlinu. En á endanum hefði vináttuna þrotið og þá hefði hljómsveitarstarfi ekki lengur gengið upp.

Um þá ákvörðun að skipta út meðlimi í Sólstöfum.

„Erfiðar, stórar ákvarðanir skilja ekkert alla eftir hamingjusama og glaða. Þess vegna er þetta erfitt. [...] Það var svo lengi, Bibbi, sem ég sagði „við erum hljómsveit – við komumst í gegnum allt.“ Hugsaði það. Það var búið að segja við mig í mörg ár „þið verðið að skipta um trommara, hann er ekki nógu góður trommari.“ Í mörg ár var þetta sagt við mig, eða svona hvíslað... [...] Ég sagði nei, bara svona erum við. Ég er ekkert góður gítarleikari, ég er ekkert góður söngvari. Það þarf ekki, við erum ekki eitthvað Joe Satriani tribute band. Við erum bara gengi, við vinnum saman, gerum allt, komumst í gegnum allt. Fokkið ykkur. Það var mitt mottó. Alltaf. Mjög lengi. Síðan bara einhvern veginn hvarf það og það var mjög sorglegt. Það átti ekkert að hverfa. Hann lagði alveg jafn margar vinnustundir í þetta og ég, en þetta snerist ekki bara um mig. Það voru fleiri í þessari hljómsveit. Þannig að þetta var fokking glatað, þetta átti ekkert að fara svona.“

Addi var farinn að halda að hann myndi aldrei eignast börn en fyrir ári eignaðist hann dóttur. Hann lýsir því að hafa strax gengið í klúbb þeirra sem sýna myndir af börnunum sínum og spæja hvaða sniðugu græjur barnafólkið á næsta borði er að nota. Hann lýsir því að eignast börn eins og að fá uppfærslu á stýrikerfi lífsins; aðgengi að nýjum tilfinningum og lífið allt í annarri sýn. Sem er svo sem allir reyndu að segja honum áður en hann var bara ekki að hlusta.

Aðalbjörn deilir með okkur upplifun sinni af þunglyndi og kvíða. Oft hefur hann fengið þær athugasemdir að best væri kannski að nýta þær tilfinningar sem hann er að upplifa til að skapa tónlist með, en sjálfur segist hann aldrei geta nýtt tilfinningar fyrr en eftir að hann er búinn að koma sér á réttan kjöl aftur. Þunglyndur og kvíðinn geti hann ekki samið heldur þarf hann að láta sér líða betur og nota tilfinningarnar sem innblástur í gegnum baksýnisspegilinn.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is