„Mamma og Rúrik áttu virkilega fallegt samband“

Ólína Jóhanna Gísladóttir og Rúrik Gíslason í Þýskalandi. Ólína fór …
Ólína Jóhanna Gísladóttir og Rúrik Gíslason í Þýskalandi. Ólína fór út til þess að horfa á bróður sinn dansa í Let's Dance. Ljósmynd/Aðsend

Rúrik Gíslason, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, gerir það gott í þýska dansþættinum Let's Dance. Ólína Jóhanna Gísladóttir systir Rúriks fór út til Þýskalands og var viðstödd tökur á tilfinningaríkum þætti sem var sýndur fyrir tæpum tveimur vikum. 

„Öll keppnin til þessa hefur farið fram án áhorfenda. Þessi tiltekni þáttur var sérstakur að því leytinu til að keppendur deildu sérstöku augnabliki úr sínu lífi og dansinn var saminn með hliðsjón af því augnabliki. Þátturinn nefnist „my special moment“ og þess vegna var aðstandendum boðið í salinn, tveimur með hverjum keppanda,“ segir Ólína sem fór ásamt dóttur sinni. 

Sérstaka augnablikið sem Rúrik valdi var þegar foreldrar hans fylgdu honum á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2018. „Í fullkomnum heimi hefðu pabbi og mamma auðvitað farið út en mamma kvaddi okkur því miður í fyrra. Niðurstaðan varð að ég fór út ásamt miðjudóttur minni, Elínu Þóru, þar sem við höfðum báðar fengið Covid og vorum með mótefni. Við vorum þess vegna ekkert smeykar við að ferðast en þetta var samt afar sérstakt. Við fórum í tvö próf hér heima áður en við fórum út, tvö í Þýskalandi og svo aftur eitt við heimkomu í Keflavík. Svo er ennþá svokallað „lock-down“ í Þýskalandi en það var aukaatriði. Tilgangur ferðarinnar var að hitta Rúrik og fá að kynnast því sem hann er að upplifa í þessum magnaða dansþætti.“

Hvernig snerti þema þáttarins þig? 

„Þemað kallaði vissulega fram allskonar tilfinningar. Lagið sem Rúrik dansaði við er lagið Circle of life úr Disney myndinni Lion King. Þessa mynd kunnum við systkinin utan að þegar við vorum lítil. Í bakgrunni voru birtar myndir af mömmu. Atriðið var virkilega fallegt á allan hátt og hreyfði vissulega við mér. Ég fann líka fyrir þakklæti fyrir að vera í salnum, upplifa þetta dansævintýri og hitta allt þetta skemmtilega fólk sem maður hefur fylgst með í vetur. Mér leið eins og ég þekkti þau öll,“ segir Ólína. 

„Mamma og Rúrik áttu virkilega fallegt samband og hún var hans helsti og fremsti stuðningsmaður í öllu. Hún hefði verið að springa úr stolti, og er það alveg örugglega þaðan sem hún vakir yfir okkur.“

Rúrik Gíslason dansar í þáttunum Let's Dance í Þýskalandi.
Rúrik Gíslason dansar í þáttunum Let's Dance í Þýskalandi.

Rúrik og dansfélagi hans, samkvæmisdansarinn Renata Lusin, fengu góða dóma fyrir frammistöðu sína og enn betri viðtökur frá áhorfendum. „Atriðið sjálft var virkilega vel útfært og tilfinningaríkt. Mikil tjáning og fallegur dans. Ég held að bæði dómararnir og áhorfendur í Þýskalandi hafi hrifist af einlægninni sem skein í gegn,“ segir Ólína. 

Kemur það þér og fjölskyldu þinni á óvart að sjá hversu góður dansari Rúrik er?

„Já ég verð að játa það. Ég átti alls ekki von á þessu. Ég hvatti hann til að gera jóga áður en hann fór út til að liðka sig. En hann er mjög agaður eins og sannir íþróttamenn eru og gerir þess vegna allt vel sem hann tekur sér fyrir hendur. Það kæmi fólki á óvart hvað æfingarnar eru stífar og hvað keppendur ásamt þjálfurum sínum leggja mikið á sig í hverri viku.“

Ólína segir að öllum dönsurunum hafi farið mikið fram og hefur sérstaklega mikla trú á bróður sínum. „Auðvitað er ég langt frá því að vera hlutlaus en ég er bjartsýn á að hann komist alla leið í úrslitaþáttinn, sem væri auðvitað alveg ótrúlegur árangur.“

mbl.is