Glódís og Steinþór Helgi giftu sig á Flateyri

Glódís og Steinþór giftu sig á Vagninum Fateyri.
Glódís og Steinþór giftu sig á Vagninum Fateyri. Skjáskot/Instagram

Fimleikakonan og jarðfræðingurinn Glódís Guðgeirsdóttir og athafnamaðurinn Steinþór Helgi Arnsteinsson létu pússa sig saman á veitingastaðnum Vagninum á Flateyri í gær. 

Vegna samkomutakmarkana þurfti parið að fresta brúðkaupinu sínu í fyrra og aftur í ár. Þau hefur hlakkað mikið til að ganga frá þessu og gerðu það því lagalega í gær en líta á þetta fyrst og fremst sem hjónavígslu. „Sjálf giftingin og brúðkaupið eru fyrirhuguð næsta sumar,“ segir Steinþór Helgi.

Steinþór Helgi í eigin steggjun.
Steinþór Helgi í eigin steggjun. Skjáskot/Instagram

Steinþór fékk ekki formlega steggjun frá vinahópnum en dó ekki ráðalaus. Hann greip til þess ráðs að sjá um sína eigin steggjun. Upp úr hádegi í gær birti hann mynd af sér á Instastory og skrifaði við hana „Steggjun“. Á myndinni er hann staddur úti við Önundarfjörð á duggunni Aldan ÍS-47. Steinþór Helgi kom svo aftur til hafnar klukkan þrjú.

Athöfnin fór fram síðdegis þar sem sýslumaðurinn á Vestfjörðum gaf hjónin saman á Vagninum. Fáir voru viðstaddir athöfnina, aðeins mæður brúðhjónanna og sonur þeirra, Einar Glói.

Að athöfn lokinni nutu hjónin þeirrar einstöku matarupplifunar sem eldhús Vagnsins hefur upp á að bjóða.

Smartland óskar hjónunum innilega til hamingju!

Glódís kyssir brúðgumann.
Glódís kyssir brúðgumann. Skjáskot/Instagram
mbl.is