Sunneva og Jóhanna ófilteraðar í #Samstarf

Jóhanna Helga Jensdóttir og Sunneva Eir Einarsdóttir koma til dyranna …
Jóhanna Helga Jensdóttir og Sunneva Eir Einarsdóttir koma til dyranna eins og þær eru klæddar í #Samstarf.

Vinkonurnar Sunneva Einarsdóttir og Jóhanna Helga Jensdóttir koma til dyranna eins og þær eru klæddar í raunveruleikaþáttunum #Samstarf sem sýndir verða á Stöð 2+ seinna í ágúst. Í viðtali við Smartland segir Sunneva að það hafi komið þeim á óvart hversu auðvelt það hafi verið að standa fyrir framan tökuvélarnar þótt það sé ólíkt því að vera fyrir framan símann á Instagram. Þættirnir fara í loftið 26. ágúst næstkomandi. 

Sunneva og Jóhanna eru báðar áhrifavaldar á Instagram og í samstarfi við ýmis fyrirtæki. Þótt þættirnir heiti #Samstarf þá fjalla þeir ekki um áhrifavaldastarfið heldur prófa þær Sunneva og Jóhanna sig áfram í ýmsum störfum í leit að draumastarfinu. „Við vinkonurnar höfum farið í gegnum súrt og sætt saman og viljum hjálpast að við að finna draumastarfið. Við erum saman að prufa mismunandi störf og þaðan kom nafnið Samstarf,“ segir Sunneva.

„Auðunn Blöndal hafði samband við okkur og langaði að gera eitthvert skemmtilegt sjónvarpsefni með okkur fyrir Stöð 2. Það komu upp alls konar hugmyndir á borðið en svo enduðum við á hugmyndinni #Samstarf,“ segir Sunneva um hvernig hugmyndin að þáttunum varð til. 

Jóhanna og Sunneva leita að draumastarfinu.
Jóhanna og Sunneva leita að draumastarfinu.

„Við héldum að þetta yrði erfitt en vá hvað þetta kom náttúrulega. Við vorum líka svo heppnar að vera með besta tökuliðið frá Ketchup, þeir gerðu þetta svo skemmtilegt allt saman og svo gaman að vinna með þeim. Þættirnir eru raunveruleikaþættir og þarna sjáið þið okkur Jóhönnu með ófilteraðan persónuleikann okkar, sem kannski ekki margir hafa fengið að kynnast áður,“ segir Sunneva.

Sunneva hefur verið virk á Instagram í þónokkur ár og er með stóran fylgjendahóp. Hún heldur einnig úti hlaðvarpsþáttunum Teboðinu ásamt Birtu Líf Ólafsdóttur og hefur Jóhanna verið gestur þeirra í þáttunum. Sunneva segir að sjónvarpsþáttatökur séu allt öðruvísi en framleiðsla á öðru efni.

„Þarna fórum við langt út fyrir okkar þægindaramma og erum að gera ýmislegt sem við höfum aldrei gert áður. Þetta var eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið að mér og ég er spennt að halda áfram í þessum bransa,“ segir Sunneva.

Vinkonurnar lenda í ýmsum ævintýrum í þáttunum.
Vinkonurnar lenda í ýmsum ævintýrum í þáttunum.
mbl.is