Kvíðavaldandi að gefa út plötu

Einar Þór Jóhannsson var gestur Snæbjörns Ragnarssonar.
Einar Þór Jóhannsson var gestur Snæbjörns Ragnarssonar. Ljósmynd/Snæbjörn Ragnarsson

Einar Þór Jóhannsson er gítarmeistari og tónlistarmaður í húð og hár. Hann hefur skemmt landsmönnum í tugi ára, einna lengst með hljómsveitunum Dúndurfréttir og Buff og er að eigin sögn alveg ómögulegur ef hann er ekki að gera músík. Tónlistin hefur átt hug hann allan og hefur hann aldrei fundið aðra vinnu sem honum líkar við. Einar var gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpinu Snæbjörn talar við fólk. 

Einar er mikill einfari og veit ekki hvað það er að vera einmana og nýtir mikinn tíma í að vera einn með sjálfum sér. Einar á við þónokkurn kvíða að etja en ögrar sjálfum sér þó reglulega, núna síðast með að gefa út sína eigin tónlist á glænýrri plötu sem ber titilinn Tracks sem hann vill endilega að þið hlustið á – en ef ykkur líkar hún ekki megið þið bara halda því fyrir ykkur sjálf. En einna helst tekur Einar lífinu eins og það er, bara einn dag í einu.

Einar Þór vinnur sem gítarleikari en viðurkenni að hann haldi miklu frekar upp á píanó og hljómborð og myndi vinna við að spila á þau ef hann væri nógu fær. Nýlega gaf Einar út nýja hljómplötu og á henni er að finna mikið gamaldags rokk með miklu hljómborði.

Fékk aldrei útgáfusamning

Ungur samdi Einar heilmikla tónlist og reyndi að fá útgáfufyrirtæki til að styrkja sig til útgáfu. Alltaf var hann sendur heim af hverjum fundi til að vinna lögin í aðra átt, breyta til og koma aftur síðar. Á endanum gafst Einar upp og hætti að semja lög í hátt í 20 ár og snerti hljóðfærið sitt einungis til að spila fyrir framan fólk – aldrei til að semja. Fyrir einungis nokkrum árum nær Einar að slaka á gagnvart eigin kröfum og annarra og leyfa sér að byrja að semja aftur, á ofurhraða síðustu árin.

Einari finnst mjög erfitt að gefa út plötu og skreið upp í rúm um leið og platan var útgefin. Hann segir það kvíðavaldandi að vita að fólk sé að hlusta á lögin hans og vill helst jafnvel ekki heyra af því ef fólki líkar tónlistin ekki.

Tónlistin er Einari allt

Tónlist hefur mikil áhrif á tilfinningar Einars. Að heyra leiðinlegt lag í amstri dagsins sem hann getur ekki slökkt á getur gert hann mjög argann, en einnig notar hann tónlist til að breyta skapinu til batnaðar. Nýlega hlustaði hann á nýtt lag með Svölu Björgvins sem hann lofar í bak og fyrir sem bjargaði alveg einum morgni í vikunni sem leið þegar hugur Einars var neikvæður í morgunsárið.

Nýja platan hans Einars er raunveruleg sólóplata; Einar spilar á öll hljóðfæri sjálfur, syngur og semur. Hann er eini flytjandi plötunnar. Að þeim sökum stefnir hann ekki á að flytja það á sviði og telur sjálfur að hann myndi fara yfir um af kvíða ef hann ætlaði að setja saman lifandi flutning á tónlistinni sinni.

 Einar Þór hefur í tvígang leyst af gítarleikara í hljómsveitinni Skálmöld í tónleikatúrum um Evrópu. Í fyrra skiptið leysti hann af Baldur Ragnarsson sem spilar á gítar og öskrar, og í seinna skiptið Þráinn Árna Baldvinsson sem er helsti sólógítarleikari hljómsveitarinnar. Að ganga inn í samhengi annarra og að spila tónlist annarra veldur Einari hins vegar engum kvíða þar sem hans hlutverk þar er skýrt og auðskilið.

„Ég hef aldrei á ævinni verið í jafn góðu spilaformi eins og á þessum tveimur Skálmaldartúrum. Aldrei á ævinni. Mér fannst ég geta gert hvað sem ég vildi. Ég gat spilað hlutina eins hratt og ég vildi, gítarstrengirnir voru bara eins og Smjörvi í höndunum á mér. [...] Það er ótrúleg tilfinning.“

Brjálæðislega viðkvæmur

Einar á mjög erfitt með að deila verkum sínum með öðrum og verður sjálfum sér mjög sár ef lögin hans eru ekki eins góð og hann taldi þau vera.

„Svo er ég svo brjálæðislega viðkvæmur að ég man að – við erum búnir að vera svolítið aktívir ég og Sissi að taka upp undanfarin þrjú, fjögur ár, að hittast alltaf reglulega og gera eitthvað. Svo gerðist það þarna [...] sumarið 2019, þá fór ég uppeftir með tvö lög og þau [...] komu svo ömurlega út, og lögin voru svo ömurleg að ég varð svo reiður við sjálfan mig að hafa ekki vitað það fyrirfram að lögin væru bara glötuð. Og ég man að við tókum þau upp um helgina og [...] hjartað byrjaði alltaf að sökkva dýpra og dýpra. Svo fór ég heim um kvöldið og við vorum að hlusta á það sem við höfðum gert um helgina í bílnum, og ég bara... ég var mortified sko, ég var alveg miður mín. Og í kjölfarið gerðist það að ég samdi ekki lag í átta mánuði. Ég var bara hættur.“

Sjálfur segist Einar ekki vera í lagi; hann þjáist af síþreytu og svima og andlega hliðin sé stundum illa sett. Það sem hjálpi honum að vinna gegn þessari tilfinningu sé tónlist. Hann segist vera ómögulegur þegar hann er ekki að gera músík, og viti í raun ekki hvað er hænan og hvað er eggið – vanlíðanin eða skorturinn á tónlist.

Fyrsta hljómsveit Einars hét Túrbó og með henni komst hann í úrslit í Músíktilraunum árið 1988. Hljómsveitin spilaði þungarokk og var það dómnefndin sem valdi hana áfram í úrslit, staðreynd sem þeim strákunum þótt mjög kúl. Upptöku af úrslitakvöldinu má finna á YouTube.

„Ég veit það ekki. Heilinn í mér bara virkar þarna en hann virkar ekki í neinu öðru. [...] Ég virka bara í tónlist, annars er heilinn á mér bara eins og bakaðar baunir.“

„Ég bara er sífellt þreyttur, og ekki bara þreyttur heldur bara með höfuðið ofaní bringu, sko. Bara alveg, alveg að bugast, sérstaklega ef það er eitthvað framundan sem ég þarf að gera. [...] En það er líka þannig hjá mér sko, sem er rosalega skrítið, að ég veit í rauninni ekki lengur hvernig tilhlökkun – hvernig ég finn tilhlökkun, af því að þegar ég veit að ég er að fara að gera eitthvað eins og að fara í stúdíóið, sem mér finnst skemmtilegt, að það er eiginlega bara – tilhlökkun er eins og kvíði. [...] Af því að ég [...] held að ég muni alveg hvernig tilhlökkun er, en í rauninni kemur það út eins og kvíði. [...] Skrítið að vera aldrei í rauninni almennilega upplagður í nokkurn skapaðan hlut eða aldrei almennilega til í að fara að gera það sem ég er að fara að gera. Það er í rauninni alveg sama hvað það er.“

Þáttinn er hægt að hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is